11. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Aðalfundur Læknafélags Íslands 2008

Læknafélag Íslands hélt aðalfund í lok september og var á heimaslóð í þetta sinn, í Hlíðasmára í Kópavogi. Dagskrá var með hefðbundnu sniði undir stjórn nýs formanns, Birnu Jónsdóttur. Fundurinn var vel sóttur enda boðið til hans fleirum en venja er þareð félagið fagnar nú níutíu ára afmæli sínu og minntist Birna þess í máli sínu. Hún tilkynnti jafnframt þá einróma samþykkt stjórnar að gera að heiðursfélögum LÍ þá Jón Snædal og Stefán B. Matthíasson fyrir óeigingjörn og brautryðjandi störf í þágu félagsins. Fundargestir samþykktu þetta með dynjandi lófataki.

u02-fig11

Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri ávarpaði fundinn og færði félaginu blóm og árnaðaróskir á þessum tímamótum. Hún staðnæmdist einsog fleiri sem tóku til máls við ártalið 1918 þegar 39 læknar ýttu félaginu úr vör rétt eftir heila heimsstyrjöld. Í janúartölublaði Læknablaðsins 1918 segir Guðmundur Hannesson um stofnun félagsins að hvarvetna hafi læknafélög orðið læknum og löndum til góðs og ólíklegt „að vér verðum eina undantekningin, að oss gefist betur sundrung og sinnuleysi en „organisation“ og áhugi.“

Ársreikningur félagsins var samþykktur og samþykkt breyting á stjórn: Sigurður E. Sigurðsson gekk úr stjórn, Þórarinn Guðnason er nýr varaformaður og Valgerður Rúnarsdóttir meðstjórnandi.

Yfirvofandi kjarasamningar lækna mörkuðu alla umræðu fundarins báða dagana og fulltrúi frá Capacent kynnti niðurstöður könnunar á viðhorfum lækna til þess að fara í aðgerðir ef ekki semdist við ríkisvaldið.

Formenn ýmissa innri stofnana félagsins fjölluðu um starfsemi hverrar um sig og eftir hádegisverð í Hlíðasmára hlýddu menn á Gylfa Zoëga prófessor í hagfræði við HÍ fara með spádóma um fjármálamarkað þjóðarinnar og má fullyrða að þar hafi engu verið logið. Hann spáði versnandi lífskjörum næstu 12-18 mánuði en á hinn bóginn bötnuðu kjör fólks þareð frítími fjölskyldunnar ykist.

Lækningaminjasafn í Nesi var umfjöllunarefni málþings LÍ og Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar á laugardeginum á Háskólatorgi. Þar var skeggrætt um hið ófædda safn, um Nes og lækna sem þar sátu, minjar sem er að finna þar í jörð og um upphafsmann alls þessa: Jón Steffensen. Af umræðum yfir og allt um kring pallborðið í lok þingsins má í það minnsta slá því föstu að engum viðstaddra er sama um lækningaminjasafnið.

Það er merkilegt að lesa lokaorð Guðmundar Hannessonar rituð 1918 um stofnun LÍ í ljósi alls sem ný öld hefur fært okkur og hætt við því að stofnendur félagsins snúi sér við í gröfinni þegar þeim verður ljóst í hvað afkomendur þeirra hafa eytt tíma sínum og þreki. „Mitt í öllum harðindunum, þrátt fyrir alla dýrtíð og styrjöld, byrja nú íslenskir læknar árið með þessari félagsstofnun, víllausir og alls ósmeikir, til þess að búa betur í haginn fyrir komandi ár. Illviðri og hvers konar óáran bitnar ekki síst á íslenskum læknum og engir sjá meira af hvers konar eymd og volæði. Þeir hafa þó ekki gugnað til þessa, og eitthvað meira mun þurfa til þess að draga úr þeim kjarkinn en þessi illviðri og óáran, sem nú gengur yfir.“

Hannesson G. Læknafélag Íslands. Læknablaðið 1918; 4: 1-2.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica