10. tbl. 94. árg. 2008
Ritstjórnargrein
Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og háskólasjúkrahúsið Landspítali
Traust samstarf Háskóla Íslands og Landspítalans er einn mikilvægasti þátturinn í þróun og áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Stofnanirnar hafa í sameiningu kappkostað að byggja upp sjúkraþjónustu, menntun og aðstæður til þekkingar- og nýsköpunar í heilbrigðisvísindum. Það er trú Háskólans að nýskipan Heilbrigðisvísindasviðs innan skólans sé til þess fallin að styrkja samstarf við háskólasjúkrahúsið og aðra mikilvæga samstarfsaðila.
Með samþykkt Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 voru mörkuð þáttaskil þegar markmið voru sett um að koma skólanum í hóp fremstu háskóla á alþjóðavísu með framúrskarandi kennslu, rannsóknum og stjórnun. Til að ná þessum markmiðum hefur skólinn gert víðtækar breytingar á skipulagi og stjórnkerfi.
Nýtt stjórnskipulag Háskóla Íslands tók formlega gildi 1. júlí á þessu ári. Kjarni þess er skipan skólans í fimm fræðasvið; Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Mennta- vísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Á heilbrigðisvísindasviði eru sex deildir:
- Hjúkrunarfræðideild (hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræði, þverfaglegt nám í upplýsingatækni í heilbrigðisvísindum)
- Lyfjafræðideild
- Læknadeild (læknisfræði, sjúkraþjálfun, lífeinda- og geislafræði, þverfaglegt nám í lýðheilsuvísindum)
- Matvæla- og næringarfræðideild
- Sálfræðideild
- Tannlæknadeild
Megintilgangur skipulagsbreytinganna er að bæta vinnuumhverfi og aðstöðu kennara, vísindamanna og nemenda með því að efla stoðþjónustu innan skólans. Þetta mun styrkja sókn Háskólans að auknum árangri og gæðum í starfi.
Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á samstarf við atvinnulíf og vísindastofnanir. Á vettvangi heilbrigðisvísinda hefur skólinn átt í frjóu samstarfi hér heima við stofnanir á borð við Heilsugæsluna, Keldur, Krabbameinsfélagið og Landlæknisembættið og fyrirtæki á borð við Íslenska erfðagreiningu, Hjartavernd, Össur hf., Matís ohf., Nimblegen, Actavis o.fl. En einna þýðingarmest er náið og gjöfult samstarf við Landspítalann. Þessi samvinna hefur átt mikilvægan þátt í að skipa íslenskri heilbrigðisþjónustu í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði.
Árið 2001 gerðu Landspítalinn og Háskólinn samstarfssamning sem byggir á þeirri sýn að hagsmunir beggja fari saman. Samningurinn miðar að því að efla samstarf á sviði vísindarannsókna og menntunar heilbrigðisstétta og styrkja spítalann sem háskólasjúkrahús. Markmiðið er að fræðileg og verkleg menntun heilbrigðisstétta á Íslandi sé sambærileg því sem best gerist á hliðstæðum stofnunum erlendis. Háskólinn og spítalinn vinna saman að því að skapa sem bestar aðstæður fyrir klínískt nám og stuðla að framgangi vísindarannsókna. Vísindamenn Háskólans hafa notið margvíslegrar aðstöðu á spítalanum. Það skiptir höfuðmáli í þessu samhengi að stjórnvöld og almenningur skilji hversu mikilvægu hlutverki Landspítalinn gegnir í menntun heilbrigðisstétta og framgangi heilbrigðisvísinda. Brýnt er að unnið verði af kappi að því í vetur að aðlaga samstarfssamninginn að breyttu stjórnskipulagi Háskólans og nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu.
Unnið er að undirbúningi framkvæmda við nýbyggingar fyrir Landspítalann og heilbrigðisvísindagreinar Háskóla Íslands í Vatnsmýri. Starfsfólk beggja stofnana hefur lagt mikið af mörkum við undirbúninginn. Í ljós hafa komið samlegðaráhrif og ótvíræður sparnaður þess að hafa starfsemina á einum stað. Mikilvægt er að Háskóli Íslands og Landspítalinn nái áfram að stilla saman krafta sína, til hagsbóta fyrir samfélagið. Meðal verkefna sem bíða okkar eru:
- Að auka tengsl allra deilda Heilbrigðisvísindasviðs og háskólasjúkrahússins.
- Uppbygging framhaldsnáms, þ.m.t. sérnáms í heilbrigðisvísindagreinum og klínískri framhaldsmenntun.
- Efling sameiginlegra rannsóknastofa.
- Uppbygging aðstöðu fyrir afburðahópa í rannsóknum. Íslenskir vísindamenn á sviði heilbrigðisvísinda eiga að baki glæsilegan feril sem endurspeglast í birtingu fræðigreina í ISI tímaritum, sem mikið er vitnað til. Þetta starf þarf að styrkja enn frekar. Hér má nefna rannsóknir í sameindalífvísindum, krabbameinsrannsóknir, lyfjafræði, rannsóknir í hjartasjúkdómum, lungnasjúkdómum, augnsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, gigtar- og ónæmissjúkdómum, taugasjúkdómum, næringarfræði og rannsóknir í sýkla- og veirufræði, svo nokkur dæmi séu nefnd.
- Efling bráðalækninga og bráðahjúkrunar í samvinnu við erlendan háskóla.
- Skilgreina betur réttindi og skyldur starfsmanna sjúkrahússins sem hlotið hafa akademískar nafnbætur, en þeir gegna mikilvægu hlutverki í kennslu og rannsóknum.
Á næstunni tekur Sigurður Guðmundsson landlæknir við nýju starfi sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Hans bíða mörg spennandi verkefni í tengslum við uppbyggingu fræðasviðsins, innleiðingu nýs skipulags og samstarf við Landspítalann og aðra samstarfsaðila.