09. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Viðurkenningar á þingi Félags íslenskra lyflækna. Runólfur Pálsson

Á XVIII. þingi Félags íslenskra lyflækna sem fram fór á Hótel Selfossi, 6.-8. júní sl. voru að venju veitt verðlaun fyrir framúrskarandi vísindarannsókn ungs læknis og læknanema. Verðlaunin fyrir bestu rannsókn ungs læknis, er veitt voru af Verðlaunasjóði í læknisfræði sem læknarnir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson stofnuðu, hlaut Barbara Juliane Holzknecht, deildarlæknir við lyflækningasvið Landspítala, fyrir rannsókn sína á klínískri og sameindafræðilegri faraldsfræði meticillín-ónæms Staphylococcus aureus (MÓSA) á Íslandi á árunum 2000-2007. Tryggvi Þorgeirsson, sem útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands síðastliðið vor, fékk verðlaun sem voru veitt af Félagi íslenskra lyflækna fyrir bestu rannsókn læknanema og beindist hún að blöðruhálskirtilskrabbameini á Íslandi fyrir og eftir upphaf PSA-mælinga og hvort óformleg skimun leiði til ofgreiningar.

Barbara Juliane Holzknecht og Tryggvi Þorgeirsson með viðurkenningarskjöl sín. Með þeim á myndinni eru Gerður Gröndal, formaður dómnefndar þingsins.

Á þinginu var Þórður Harðarson, prófessor og fyrrverandi forstöðumaður lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, og yfirlæknir á lyflækningasviði I á Landspítala, útnefndur heiðursfélagi í Félagi íslenskra lyflækna. Þórður hefur verið leiðtogi á vettvangi lyflækninga og hjartalækninga á Íslandi undanfarna þrjá áratugi. Það sem ber hæst er þó framlag hans til vísindastarfs innan lyflækninga hér á landi. Hann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir lækna og var ritari Félags íslenskra lyflækna um árabil. Aðeins fimm lyflæknar höfðu áður verið útnefndir heiðursfélagar í Félagi íslenskra lyflækna, þeir Ólafur Sigurðsson og Sigurður Þ. Guðmundsson, sem báðir eru látnir, og Árni Kristinsson, Páll Ásmundsson og Tryggvi Ásmundsson.

Þórður Harðarson, nýkjörinn heiðursfélagi í Félagi íslenskra lyflækna ásamt Runólfi Pálssyni, formanni Félagsins.

Myndirnar tók Inger Helene Bóasson, ljósmyndari á Landspítala.Þetta vefsvæði byggir á Eplica