07/08. tbl. 94.árg. 2008

Hugleiðing höfundar. Ingibjörg Sólrún gengur í NATO. Einar Már Guðmundsson

Um kímnigáfu, þjóðerni og hernað?

Einar Már GuðmundssonÉg las eitt sinn úr verkum mínum á Englandi. Að upplestri loknum reis kona úr sæti sínu og sagði: "You seem to have a very English sense of humour." Konan var að hrósa mér. Þegar Englendingar tala um enskt skopskyn meina þeir gott skopskyn. Samt sýnir þetta hrokann, hvernig hann er vaxinn inn í tungumálið, þegar hin fornu stórveldi telja jafnvel kímnigáfuna séreign sína.

Í annað sinn las ég upp fyrir Zulumenn í borginni Durban í Suður-Afríku. Ég las upp á ensku og allt var um leið þýtt yfir á tungumál þeirra. Zulumennirnir hlógu að öllu sem ég sagði, hvort sem þeim þótti ég svona spaugilegur eða fyndinn, en enginn þeirra sagði: "You seem to have a very Zulu sense of humour."

Við búum á hnetti. Hann er einsog kúla í laginu. Þess vegna er engin miðja. Miðjan er undir iljum sérhvers jarðarbúa. Því segi ég: Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Ef þessari eðlilegu landafræði væri fylgt byggjum við í betri heimi og þá væru voldugar og vanmáttugar þjóðir ekki til. Þá væri engin ástæða til að ráðast innp01-fig2 í lönd og slá eign sinni á olíulindir og önnur náttúrugæði.

Við notum tvö orðatiltæki sem í fljótu bragði virðast stangast á. Annað segir: Heimskur er sá sem heima situr, en hitt er Heima er best. Þetta þýðir í rauninni að við eigum að fara burt og koma svo aftur, eða með öðrum orðum: Við eigum að vera opin fyrir heiminum en rækta okkar eigin garð. Þannig kemur heimurinn til okkar og við til hans.

Margir líta svo á að alþjóðavæðingin hafi fokkað þessu upp, að menn séu hvorki heima hjá sér né að heiman, en í gegnum tíðina höfum við litið svo á að við eigum að vera sjálfstæð en í stöðugum samskiptum við umheiminn. Nú virðist hins vegar sjálfstæðið hætt að skipta máli af því að það sé hvort eð er horfið.

Bjartur í Sumarhúsum sagði að sjálfstæði væri betra en kjöt. Því virðist nútíminn algjörlega ósammála. Nú má nánast gefa allt fyrir ódýrar matvörur þó flestir virðist hafa nóg að éta að því er best verður séð í hjáveituaðgerðum og öðru. Aumingja krónan, hún er einsog Bjartur í Sumarhúsum, nema ekki jafnstolt, og erfitt um að segja hver sé Rauðsmýrarmaddaman, seðlabankastjóri eða evruspekingarnir.

Hugmyndir Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, innblásnar af þýsku rómantíkinni og frönsku byltingunni, hafa ekkert gildi lengur ef við getum étið á okkur gat af innfluttu svínakjöti og þegið um leið reglugerðir um allt milli himins og jarðar. Þetta er veruleikinn, en spurningin er, hvað finnst okkur um hann? Hver er við völd? Er það feiti þjónninn eða barði þrællinn?

Ég sá heimildarmynd um Almeria-svæðið á Suður-Spáni. Þar er framleiddur þriðjungur af vetrarneyslu Evrópubúa á grænmeti og ávöxtum. Í endalausri þyrpingu gróðurhúsa vinna 80.000 innflytjendur í andrúmslofti sem búið er að eyðileggja með skordýraeitri. Innflytendurnir eru á skítakaupi og eru margir orðnir vitskertir út af aðbúnaðinum. Þetta er ekkert annað en þrælahald þó það heiti eitthvað annað. Þetta er ein skýringin á því hvernig hægt er að halda matvælaverði niðri í Evrópu og sá kraumandi pottur sem margir Íslendingar vilja svo ólmir komast í og bera einmitt fyrir sig þetta, matvælaverðið.

Nú þegar orkukreppan er skollin á með tilheyrandi bensínhækkunum, skiptir þá ekki einmitt máli að geta framleitt sín eigin matvæli, að rækta sinn garð? Tahítíbúar lögðu niður kornrækt til að fá ódýrt korn frá Bandaríkjunum. Nú hefur kornið hækkað en engin kornrækt á Tahítí. Því segi ég: Byrjum að taka til heima hjá okkur. Lækkum raforkuverð til gróðurhúsabænda og virkjum líka orkuna sem í okkur býr. Hugsum um gæðin, ekki bara magnið. Tökum til. Við getum ekki gefið það af okkur sem við höfum ekki öðlast sjálf.

Í heimildamyndinni um Almeria-svæðið var nefnilega ekki síður fróðlegt að heyra eigendur búgarðanna réttlæta athafnir sínar. Jú, sögðu þeir, þeir voru í samkeppni á markaði og kepptu við markaði þar sem enn meira þrælahald tíðkaðist, í Mið-Ameríku og Afríku. Þetta eru nákvæmlega sömu röksemdirnar og fulltrúar íslenska kvótakerfisins nota þegar heilu byggðalögin eru skilin eftir tómhent.

Eða einsog segir í ljóðinu: Hinn frjálsi maður er ekki lengur veginn með vopnum, ekki höggvinn í herðar niður eða brenndur á báli. Þess í stað er honum svipt burt með snyrtilegri reglugerð og málinu skotið til markaðarins sem mállaus vinnur sín verk.

Fyrir nokkrum árum stóð til að Færeyingar hlytu fullt sjálfstæði. Deilt var um aðlögunartíma. Færeyingar vildu hafa hann fimmtán árum lengri en danska stjórnin vildi veita þeim. Nú kunna að hafa legið ýmis rök fyrir því, en samt var þetta skrýtið. Ég fór að hugsa, hvað hefðu íslensku frelsishetjurnar frá nítjándu öld sagt við þessu? Nú eða Bjartur í Sumarhúsum?

Kannski eru Færeyingar bara svona vel upp aldir, að þegar þeim er boðið að verða sjálfstæðir strax vilja þeir fá að vera ósjálfstæðir fimmtán árum lengur. Er það ekki bara staðreynd að nú er feiti þjónninn við völd og allir hugsa með hans höfði. Þannig er búið að valta yfir Bjart í Sumarhúsum og allar hugmyndir um sjálfstæði eru afgreiddar sem fortíðarhyggja. Því segi ég einsog Halldór Laxness, skapari Bjarts, eigum við ekki að lyfta umræðunni á hærra plan? Skiptir til dæmis sjálfstæðið okkur máli? Viljum við búskap? Viljum við byggð? Ætlum við bara að vera kotungar hjá kóngi og smjaðra fyrir skriffinnum? Á bara að svipta öllu burt með snyrtilegum reglugerðum og skjóta málinu til markaðarins sem mállaus vinnur sín verk? Hvar stöndum við sem hreiðrað höfum um okkur hér á hrjóstrugri hundaþúfu undir Grænlandsjökli? Jú, heimskur er sá sem heima situr en heima er best.

Og þá erum við komin aftur að upphafinu, miðju heimsins, þar sem hver jarðarbúi stendur. Við þekkjum friðarboðskap Johns Lennon úr laginu Imagine, að við eigum ekki að láta hugmyndir um himnaríki eða helvíti stjórna okkur, og ekki landamæri ? sbr. læknar án landamæra ? og þá er engin ástæða til að drepa, og enginn málstaður til að deyja fyrir. Já, kallið mig bara draumóramann, segir John Lennon, but I am not the only one, ég er ekki sá eini ... Friðarboðskapur Chaplins í lok Einræðisherrans er ekkert ósvipaður og fleiri mætti kalla til leiks.

En John Lennon var ekki bara tónlistarmaður með boðskap, hann var líka orðheppinn maður. Til að mynda á hann að hafa sagt í hálfkæringi þegar hann frétti af dauða Elvis Presley: "Elvis, dó hann ekki þegar hann gekk í herinn?" en það var sautján árum áður en hann dó. Blessuð sé minning hans og Lennons og Chaplins.

Af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, mér verður hugsað til utanríkisráðherrans okkar því óneitanlega hlýtur mikið að hafa gerst frá því að Ingibjörg Sólrún mótmælti veru okkar í NATO, gat sungið Imagine með góðri samvisku og tekið undir friðarboðskap Chaplins, og þar til hún nú flýgur á einkaþotu til herráðsfundar í Búkarest og samþykkir tillögur Bandaríkjanna um eldvarnarhjúp yfir Evrópu vegna þess hvað Íranir eru hættulegir að mér skilst.

Come on Ingibjörg Sólrún! Hættu þessari vitleysu. Heimurinn er að farast úr þessu bulli. Farðu á næsta NATO-þing og syngdu fyrir þá Imagine og haltu ræðu eins og Chaplin. Ef þú vilt syngja fleiri lög get ég komið heilan lagalista handa þér. Ég mæli með Masters of War eftir Bob Dylan. Vertu jafnvel í lopapeysu. Þú getur líka vitnað í Halldór Laxness og sagt þessum hernaðarsinnum að þeir eigi ekki að drepa fleiri en þeir geti étið. Að sú hafi verið skoðun Bjarts í Sumarhúsum. Ef þú gerir þetta verður þín minnst á blöðum sögunnar. Ef ekki, þá hefur þú bara lent í vondum félagsskap einsog stundum hendir unglinga, og við verðum að reyna að bjarga þér. Flokkssystkini hljóta að reyna að koma fyrir þig vitinu, sem sé, að þú átt frekar að syngja með draumóramönnunum en taka undir stríðsæsingar Georgs Bush. Samþykktir NATO í Búkarest gagnast þegar upp er staðið engum nema vopnaframleiðendum og hálftjúlluðum hugmyndum þeirra um geimvarnarhjálm yfir lönd okkar. Ef þú vilt ekki þiggja þessi einföldu ráð og segir bara að þetta séu draumórar þá getum við ekkert fyrir þig gert og verðum að leyfa þér að ná botninum í þessum vonda félagsskap, sem kyndir markvisst undir stríði og ómældum þjáningum fólks sem ekkert hefur gert okkur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica