07/08. tbl. 94.árg. 2008

Umræða og fréttir

Af Sögu kúgun. Friðrik E. Yngvason

Sigurðar E. Sigurðsson, varaformaður LÍ, tekur til varna sem slíkur fyrir Sögukerfið í síðasta Læknablaði. Hann hefur verið aðalverjandi Sögunnar á Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem við störfum báðir. Hann er staðgengill lækningaforstjóra og hefur vísað allri gagnrýni á bug með sömu alhæfingum og hann varar við í grein sinni. Þau orð sem hann þá fellir eru fjarri annars kurt- eislegum texta greinarinnar.

Tölvukerfin eru nokkur og illa saman tengd og aðgangsstýringar yfirþyrmandi. Sögukerfið er þó miðpunktur þessara mála og það eitt og sér alger plága þeim sem þurfa að vinna við það. Ég efast um að SES þurfi að verja fjórðungi þess tíma sem ég neyðist til að stagla við Sögukerfið. Því meir sem unnið er við kerfið því stærri er plágan. Sagan er skelfilegt verkfæri sem hefur gert vinnuumhverfi mitt illþolandi.

Nefnum dæmi:

1. Ónothæft lyfjakort. Slík kort eru nauðsynleg til þess að reka nútíma lyflækningar. Það þarf að vera hægt að skammta í lyfjabox eftir kortinu og hægt að uppfæra það við hverja endurkomu.

2. Póstkassi þar sem öllu ægir saman. Engin ruslpóstvörn!! Tilvísanir sem til mín eru sendar, verður að prenta út svo hægt sé að vinna með þær, og prentunin þar með komin frá beiðandanum til mín!! Því næst þarf að skanna tilvísunina inn í Söguna aftur og af því Sagan kann ekki spítalavinnu, er búin til samskiptalína með dagsetningunni 01.01.3000 sem í safnast rafrænn haugur innhaldandi allt mögulegt efni sem kemur aðsent í pappír eða úr póstkassanum. Niðurlæging Sögunnar er í þessum kafla algjör.

3. Frágangur og sending af vinnulista, einkum þó læknabréfa, er með slíkum ósköpum að varla er hægt að skýra út, nema SES taki það kannski að sér. Það þarf tugi aðgerða með mús og innslætti fyrir hvert bréf!

Ég get nefnt fjölmörg önnur atriði. Hef sent um þau bréf til þeirra sem ráða, en umbætur hafa verið míkróskópískar.

Endurbætur sem ráðist hefur verið í er fyrst og fremst að finna í þeim hluta Sögunnar sem heldur utan um uppgjör og greiðslur. Þar sveið undan hjá stjórnendum en vinnutæki lækna, sjúkraskýrslan mátti halda áfram að vera í lakasta sessi.

Er hægt að láta menn vinna árum saman með ónýt verkfæri án þes að vörnum sé við komið? Má vinnuumhverfi vera skelfilegt og starfsmannastefna í tætlum? Það virðist ekki vera nein vörn í varaformanni LÍ enda þjónar hann fleiri en einum herra í þessu máli. Hann hlær að vandræðum sinna félaga og hvetur menn til að una Sögukúguninni nokkur ár enn. Kannski tíu.

Þarfir íslenskra lækna eru sömu og erlendra þegar um sjúkraskýrslukerfi er að ræða. Við eigum að fá þrautreynd slík erlend kerfi. Til er viðskiptahugbúnaður sem getur séð um séríslenskar greiðsluleiðir. Hættan er mikil að ný Saga-Framhaldssaga verði fyrst og fremst til að tryggja hagsmuni stjórnvalda og baunateljara í kerfinu en öflugt sjúkraskrárkerfi verði látið víkja fyrir þeim hagsmunum.

Ætlar LÍ enn að horfa þegjandi á þegar klafi vondra verkfæra er lagður á félagsmenn þeirra í heilbrigðiskerfinu?Þetta vefsvæði byggir á Eplica