07/08. tbl. 94.árg. 2008

Umræða og fréttir

Læknir, brúðuleikari og hljóðfærasmiður. Viðtal við Konstantin Scherbak

Það er gamalgróið í íslensku máli að tala um læknislist ekki síður en læknisfræði eða læknavísindi.

Konstantín Shcherbak er ungur rússneskur læknir búsettur á Íslandi, og reyndar íslenskur ríkisborgari frá því í desember 2007, og ofangreint á vel við því honum er ýmislegt til lista lagt auk læknislistarinnar. Hann smíðar og leikur á ýmis þjóðleg rússnesk hljóðfæri og fyrir fáeinum misserum hóf hann ásamt konu sinni, Maríu Björk Steinarsdóttur, að flytja og leika hefðbundið rússneskt brúðuleikhús og hefur þeim orðið vel ágengt í þeirri list.

Konstantín er fæddur og uppalinn í Moskvu og lauk læknanámi frá læknaskóla þar í borg og stefndi á framhaldsnám í lyflækningum. Hann hafði á námsárum sínum í læknisfræði verið skiptinemi við læknadeildir háskóla á Ítalíu og Íslandi og kunni svo vel við sig á Íslandi að hann ákvað að sækja um námsvist í fyrrihluta lyflækninga við Landspítala. "Ég þurfti að læra íslensku áður en ég gat hafið námið og vann í níu mánuði við meinafræðideild Landspítalans undir stjórn Jóhannesar Björnssonar. Síðan hóf ég námið og það hefur gengið ágætlega, segir Konstantín sem reyndar hefur ekki látið þar við sitja því hann stundar tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og gerði sér einnig lítið fyrir og hóf meistarapróf í læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands meðan hann var að ná góðum tökum á íslenskunni.

Landafræði og saga

Hann segir að framhaldsnámi í læknisfræði sé hagað á talsvert annan veg í Rússlandi en hér á Íslandi eða annars staðar í Evrópu. "Í Moskvu eru mjög sérhæfðar stofnanir þar sem hægt er að læra mjög þröngt tiltekið svið. Ég vildi læra almennar lyflækningar og möguleikarnir til þess eru litlir í Rússlandi. Hérna bauðst hins vegar gott tækifæri til þess." Hann segir að íslenski ríkisborgararétturinn gerbreyti möguleikum sínum til að ljúka framhaldsnámi við háskólasjúkrahús í Evrópu. "Þar sem Rússland er utan Evrópusambandsins er maður alltaf settur til hliðar þar til allar umsóknir af Evrópska efnahagssvæðinu hafa verið afgreiddar. Þá eru í rauninni möguleikarnir orðnir litlir sem engir. Með íslenska ríkisborgararéttinn standa allar dyr opnar." Hann tekur reyndar skýrt fram að hann sé einnig rússneskur ríkisborgari og það hafi aldrei komið til greina að gefa það eftir. Ef ég hefði verið settur í þá stöðu að þurfa að velja á milli þá hefði það verið mjög erfitt en með bæði rússneskt og íslenskt vegabréf er ég mjög vel settur."

Það liggur beint við að spyrja hvort hann sé mikill tungumálamaður úr því íslenskan leikur honum á tungu en hann segir svo ekki vera. "Ég er af þeirri kynslóð sem lærði eiginlega enga ensku í grunn- eða menntaskóla vegna hruns sovétkerfisins á síðari hluta 9. áratugarins. Þegar viðskiptalífið opnaðist til vesturs varð eftirspurnin eftir enskumælandi fólki svo gríðarleg að allir kennarar yfirgáfu skólana fyrir betur launuð störf í viðskiptaheiminum. Við sem vorum í skóla á þessum tíma fengum bara fleiri leikfimistíma í staðinn! Mitt enskunám fór fram af bókum í læknanáminu í Moskvu og ég kunni ekkert að tala ensku þegar ég kom til Íslands upphaflega. Þetta hefur þó allt gengið ágætlega og nú tala ég bæði ensku og íslensku."

Konstantín starfar á á öldrunardeild og segir algjört lykilatriði að kunna íslensku í samskiptum við sjúklinga. Hann segir reyndar að sér finnist sem gera mætti meiri kröfur til innflytjenda af erlendum uppruna um kunnáttu í íslensku, íslenskri sögu og samfélagsgerðinni. "Í samtölum við skjólstæðinga mína rekst ég iðulega á að vanþekking mín á íslenskri landafræði, ættfræði og sögu kemur í veg fyrir skilning fremur en skortur á skilningi á málfræði eða takmarkaður orðaforði. Fyrir Íslendinga og sérstaklega af eldri kynslóðum er uppruni og skyldleiki mjög mikilvægur. Ég hef þurft að kynna mér sérstaklega íslenska landafræði til að átta mig á því hvað það þýðir að vera frá Grundarfirði en ekki Ólafsvík, eða Sauðárkróki en ekki Siglufirði."

 

Hjólfiðla og brúðuleikhús

Hljóðfærasmíðin hefur einnig tekið sinn tíma enda segist hann lítið horfa á sjónvarp. "Það er alltaf nóg annað að gera," segir hann. Hljóðfærin sem hann hefur smíðað eru tréblásturshljóðfæri en veglegust er þó svokölluð hjólfiðla sem byggir á sams konar mekanisma og lírukassi en sá er þó munurinn að lírukassinn leikur ávallt sama lagið en á hjólfiðluna er hægt að spila það sem hugurinn girnist. "Það er nú reyndar fullmikið sagt að ég hafi smíðað þetta hljóðfæri, réttara væri að segja að ég hafi sett það saman því ég keypti efnið tilsniðið. Það tók mig reyndar heilt ár að koma þessu saman enda tíminn ekki alltaf mikill. En þetta tókst að lokum og er mjög skemmtilegt hljóðfæri."

Konstantin segir tónlistaráhugann hafa fylgt sér frá barnæsku og hann hafi snemma hneigst að hljóðfæraleik. "Ég var síðan svo heppinn í menntaskóla að syngja í litlum þjóðlagakór og á sumrin ferðuðumst við um sveitir Rússlands og lærðum þjóðlög af gamla fólkinu. Það var óskaplega skemmtilegt og lærdómsríkt og þar kviknaði áhugi minn á alþýðutónlist og hljóðfærunum sem fólkið notar til undirleiks. Rússnesk alþýðutónlist er reyndar mikið sungin en þó eru alltaf einhver strengjahljóðfæri með, þekktast þeirra er balalækan, en einnig er leikið á fiðlur og tréblásturshljóðfæri."

Áhugi þeirra hjóna á rússnesku brúðuleikhúsi kviknaði að sögn Konstantíns fyrir tiltölulega skömmu síðan og sjálfur segist hann ekki hafa haft neina þekkingu á því fyrr. "Við María erum samferða í þeirri ferð og reyndar liggur brúðuleikhúsið mjög nálægt tónlistinni enda hefð fyrir því að alþýðulistamenn í Rússlandi leiki og syngi jöfnum höndum." Aðspurður hvort eiginkonan hafi teymt hann útí þetta segir hann svo ekki vera enda er hún líffræðingur. "Áhuginn kviknaði hjá okkur báðum og hefur farið vaxandi.

Við köllum okkur Gangandi brúðuleikhúsið og það fer þannig fram að María fer í sérstakan búning sem felur hana og hún stjórnar brúðunum og ég leik á hljóðfærið og tala við brúðurnar. Þetta er samkvæmt mjög gamalli rússneskri hefð. Aðalbrúðan er kölluð Petrúska og er vel þekkt persóna í rússnesku brúðuleikhúsi. Sögurnar sem við leikum höfum við hins vegar samið sjálf þó Petrúska sé alltaf sjálfum sér líkur.

Upphaflega varð þetta til þegar ég var beðinn um að koma fram á Glastonbury tónlistarhátíðinni í Bretlandi og langaði að gera eitthvað nýtt. Þá fengum við María þessa hugmynd að brúðuleikhúsi og síðan hefur þetta undið upp á sig og við höfum sýnt víða, bæði hér heima og erlendis. Eftirspurnin er reyndar orðin slík eftir sýningum að við ætluðum að takmarka þær við fjórar á ári til að hafa tíma til að sinna vinnu okkar og öðrum áhugamálum. En á þessu ári eru sýningarnar þegar orðnar tíu enda erfitt að segja nei við fólk.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica