07/08. tbl. 94.árg. 2008

Umræða og fréttir

Hægt að leysa vandann með 10,2 milljörðum dollara. Viðtal við Dorothy Shaw

Talið er að kynbundnar fóstureyðingar séu framkvæmdar á einnar mínútu fresti árið um kring. Um eitt hundrað milljónir stúlkna hafa aldrei fæðst í heiminn vegna þessa á undanförnum árum og hlutfall fjölda pilta og stúlkna í þeim löndum þar sem kynbundnar fóstureyðingar eru stundaðar hefur raskast verulega. "Þetta segir líka meira en margt annað um viðhorf þessara samfélaga til kvenna almennt," sagði Dorothy Shaw, forseti Figo, Alþjóðasamtaka fæðingar- og kvensjúkdómalækna, í samtali við blaðamann Læknablaðsins á dögunum. Dorothy Shaw var stödd hér landi í tilefni af norrænu þingi fæðingar- og kvensjúkdómalækna NFOG sem haldið var í Reykjavík dagana 14.-17. júní.

Dorothy Shaw forseti, Figo, alþjóðasamtaka fæðingar- og kvensjúkdómalækna.

Figo, sem er skammstöfun fyrir International Federation of Gynecology and Obstetrics, var stofnað árið 1954 og nú eru aðildarfélög 105 í jafnmörgum löndum. Dorothy Shaw er fyrsta konan sem gegnir embætti forseta samtakanna en eðli máls samkvæmt eru málefni kvenna, fæðingarhjálp og kynheilsa, meðal mikilvægustu baráttumála samtakanna. "Sagan sýnir okkur að karlmenn hafa verið í meirihluta í læknastétt til skamms tíma en það er að breytast og konur eru að ná jöfnu víðast hvar og sums staðar eru þær orðnar fleiri. Það hefur þó ekki skilað sér í jöfnum hlut kvenna í stjórnunarstöðum til þessa en á vonandi eftir að breytast," segir Dorothy.

"Markmið samtakanna er tvíþætt. Annars vegar að stuðla að aukinni menntun lækna í þessum greinum og hins vegar að stuðla að bættri heilsu kvenna um heim allan. Unnið er að fyrra markmiðinu með því að Figo stendur að ráðstefnum á þriggja ára fresti og með því að gefa reglulega út klínískar leiðbeiningar samkvæmt því nýjasta og besta sem til er í greininni. Samtökin halda einnig úti öflugri heimasíðu (www.figo.org) og gefa út fréttabréf mánaðarlega."

Á vegum samtakanna eru starfræktar nefndir um ákveðna þætti kvensjúkdóma- og fæðingarlækninga. "Ein nefndin fjallar um fistúlur, önnur um kvensjúkdóma og sérstaklega krabbamein í æxlunarfærum kvenna en starf þeirrar nefndar hvílir á gömlum merg og Figo er líklega þekktast fyrir starf hennar. Nefnd um siðfræði er einnig vel þekkt og nefnd um rétt kvenna til ákvörðunar um þungun og fæðingar. Þá eru starfshópar sem ég hef áhuga á að efla meðan ég gegni forsetaembættinu, en þeir eru annars vegar um fæðingarheilsu kvenna og ungbarna og óöruggar fóstureyðingar. Annar starfshópur einbeitir sér að vörnum gegn leghálskrabbameini og sá þriðji að hindrun útbreiðslu HIV-smits."

Ein af sex konum deyr vegna barnsburðar

Dorothy segir að mikilvægur hluti af starfi Figo á næstu misserum sé að styðja við starf landsfélaga fæðingar- og kvensjúkdómalækna í þróunarlöndunum þar sem skipulag félaganna og fjárráð til umsýslu eru lítil eða engin. Hún segir að ráðinn hafi verið sérstakur starfsmaður á aðalskrifstofu samtakanna sem sinni þessu málefni, menntaður kvensjúkdómalæknir sem hafi þekkingu á aðstæðum í þeim löndum sem um ræðir.

"Starf Figo er mjög fjölbreytt og eitt af því sem við höfum lagt áherslu á er að vekja athygli á hversu hátt hlutfall kvenna í þróunarlöndunum deyr á meðgöngu eða í kjölfarið. Það er ástæða til að nefna að árið 1987 var hleypt af stokkunum átaki undir kjörorðinu Öryggi mæðra en það er skemmst frá því að segja að hlutfall kvenna í heiminum sem deyja vegna barnsburðar hefur ekki lækkað á þessum tuttugu árum. Í sumum löndum Afríku og Asíu er hlutfallið allt að 17% sem er skelfilega hátt. Það má í rauninni segja að fyrir konur í þessum löndum sé það beinlínis lífshættulegt að verða þungaðar. Þegar maður ræðir við konur sem búa við þessar aðstæður þá gera þær sér vel grein fyrir því hver áhættan er að verða þunguð en þær vita hins vegar ekki að þetta þarf alls ekki að vera svona. Þarna þarf að mennta konurnar og fræða þær og það er auðvitað hluti af vandanum að konur eru almennt verr settar en karlar þegar menntun er annars vegar."

Dorothy nefnir sláandi tölur í þessu samhengi. "70% kvenna í heiminum búa undir fátæktarmörkum, 65% kvenna í heiminum eru ólæsar, meirihluti þeirra sem eru smitaðir af HIV eru konur og sumum Afríkulöndum sunnan Sahara eru þrír af hverjum fjórum HIV-smituðum stúlkur á aldrinum 15-24 ára."

Að sögn Dorothy er tilfinnanlegastur skortur á þjálfuðu fólki í fæðingarhjálp og til að ná árangri sé mikilvægast að þjálfa og mennta ljósmæður og lækna í þróunarlöndunum til að hægt sé að sinna þeim konum sem þurfa á fæðingarhjálp að halda.

"Það er vissulega mjög flókið að breyta samfélagsmynstrinu konum í hag í löndum þriðja heimsins þar sem þær hafa ekki umráð yfir fjármunum fjölskyldunnar og geta því ekki tekið ákvörðun um hvort leita skuli læknis þegar eitthvað bjátar á á meðgöngu eða í fæðingu. Víða er læknishjálp ekki í boði nema fyrir háar greiðslur og fátækt kemur í veg fyrir að konur geti notið hennar. Samgöngur eru einnig víða mjög erfiðar og laun lækna og hjúkrunarfólks sem starfa hjá hinu opinbera oft svo lág að fólk hrökklast úr slíkum störfum. Það er því ekki einfalt að hafa áhrif á breytingar og snúa dæminu við en þó höfum við bent á að til að ná viðunandi árangri um heim allan í þessum efnum þá þarf í rauninni ekki nema 10,2 milljarða dollara á ári. Þetta virðist kannski há upphæð en ef haft er í huga að hún jafnast á við vikuleg hernaðarútgjöld Bandaríkjanna þá getur þetta varla talist óviðráðanlegt."Þetta vefsvæði byggir á Eplica