06. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

FÍFL á hæsta tindi landsins

Um hvítasunnuhelgina síðustu stóð FÍFL fyrir hópgöngu lækna á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk (2110 m). Ekið var austur eftir vinnu á fimmtudeginum 8. maí og eftir að Þorvaldur Háfjallahöfðingi og yfirfararstjóri hafði rýnt í veðurspá var ákveðið að leggja í?ann strax um kvöldið. Gengið var upp úr lágstæðri skýjahulu í algjöru logni. Síðar um nóttina blasti við fjallasýn í daufri morgunskímu sólar. Þegar nær dró tindinum varð skyggni lélegra og á síðustu metrunum skall á blindbylur þar sem leiðangursmenn urðu að beita öllum klækjum til að ná toppnum. Gengið var í línu og á tindinum þurfti brodda og ísaxir. Skemmst er frá því að segja að allir leiðangursmenn, 33 að tölu, náðu tindinum. Þótt ekki hafi verið mikið skyggni á toppnum er óhætt að segja að lífsreynslan hafi verið ógleymanleg. Á leiðinni niður datt Þórhallur Samúelsson (Samúelssonar heimilislæknis) í gegnum snjóbrú á gríðarstórri sprungu. Þar kom sér vel að allir voru tengdir saman í línu og tókst björgun vonum framar og Þórhalli varð ekki meint af. Eftir tæplega 17 klukkutíma göngu var lagst til hvílu og um kvöldið var sameiginlegur kvöldverður á Hótel Skaftafelli. Þar var farið með gamanmál en einnig var Sigurjóni Vilbergssyni meltingarlækni veitt sérstök heiðursviðurkenning FÍFL fyrir hetjulega framgöngu við björgun Sprungu-Þórhalls.

Á síðustu metrunum á Hnjúkinn skall á blindbylur og máttu leiðangursmenn hafa sig alla við. Allir náðu þó toppnum.

Þórhallur Samúelsson fallinn ofan í djúpa snæviþakta sprungu. Fararstjórar og aðrir leiðangursmenn til koma hjálpar.

FÍFL á Botnssúlum 1. maí sl. Veður var eins og best verður á kosið og sá m.a. til Kerlingarfjalla og Surtseyjar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica