05. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

FÍFL á fullri ferð

Laugardaginn 25. apríl stóð FÍFL fyrir árlegri göngu á Eyjafjallajökul. Reyndar stóð upphaflega til að ganga á jökulinn á sumardaginn fyrsta en vegna veðurs var göngunni frestað um tvo daga. Aðeins 7 af þeim 20 sem upphaflega höfðu skráð sig gátu tekið þátt. Veður var frábært, sól og gott útsýni en færð í þyngra lagi vegna nýsnævis og sólbráðar. Gengin var Seljavallaleið með smá útúrdúr á bakaleiðinni.

Alls tók gangan 10 klst. og náðu allir tindinum eftir rúmlega 6 tíma göngu. Á leiðinni urðu sprungur á leið leiðangursmanna. Á tindinum rákust FÍFLarar á annað göngufélag, Leifar af jöklarannsóknafélagi Landlæknisembættisins, en í þeim merka félagsskap eru allnokkrir læknar. Reyndar voru landlæknir og margir kollega hans fjarri góðu gamni en Hallgrímur Guðjónsson meltingarfæralæknir hélt uppi heiðri félagsins.

FÍFL er með ýmislegt á prjónunum og er stefnt að fjallaskíðaferð á Heklu 4. maí ef veður leyfir og síðar í sumar gönguferð á Herðubreið og jafnvel Snæfell. Þessar ferðir verðar auglýstar nánar síðar.

Þeir sem hafa áhuga á fjallskíðaferð á Heklu vinsamlega hafið samband við engilbs@landspitali.is eða tomagud@landspitali.is

Félagar í FÍFL og Jöklarannsóknarfélagi Landlæknisembættisins á tindi Eyjafjallajökuls. Frá vinstri eru Pétur Hannesson röntgenlæknir, Engilbert Sigurðsson geðlæknir, Áslaug Gunnarsdóttir heimilislæknir, Hjalti Gylfason, Ingvar Rögnvaldsson, Hallgrímur Guðjónsson meltingarlæknir, Hallgrímur Jónasson, Jónas Þór Jónasson og Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlæknir.

Mynd Dagný Heiðdal.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica