04. tbl. 94. árg. 2008
Umræða og fréttir
Úrskurður siðanefndar LÍ
- Úrskurðurinn er birtur í Læknablaðinu skv. tilmælum siðanefndar
Ár 2008, miðvikudaginn 12. mars, kom Siðanefnd Læknafélags Íslands saman á skrifstofu formanns í Dómhúsinu við Lækjartorg. Nefndina skipa Allan V. Magnússon, formaður, Ingvar Kristjánsson læknir og Stefán B. Matthíasson læknir.
Fyrir var tekin kæra Kára Stefánssonar læknis frá 20. október 2005 á hendur Vilhjálmi Rafnssyni lækni og kveðinn upp svohljóðandi.
Úrskurður
Með bréfi dagsettu 20. október 2005 kærði lögmaður Kára Stefánssonar læknis Vilhjálm Rafnsson lækni til Siðanefndar Læknafélags Íslands.
Hinni kærðu háttsemi lýsir lögmaðurinn svo að kærði hafi, sem ritnefndar- og ábyrgðarmaður Læknablaðsins, veitt atbeina sinn og samþykki sem ábyrgðarmaður Læknablaðsins, fyrir birtingu ærumeiðandi ummæla um Kára Stefánsson lækni í grein undir fyrirsögninni "Nýi sloppur keisarans" í 9. tbl., 91 árg. Læknablaðsins 2005. Telur hann háttsemi þess varða við 28. gr. Codex Ethicus Læknafélags Íslands (LÍ), og 2. gr. laga LÍ.
Þess er krafist
1. Að Siðanefnd LÍ úrskurði, að i) kærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn Codex Ethicus LÍ og að ii) siðanefnd finni að háttsemi kærða og honum verði veitt áminning skv. 16. gr. viðauka við Lög Læknafélags Íslands.
2. Að forsendur og úrskurðarorð úrskurðar verði birt í Læknablaðinu skv. 21. gr. viðauka við lög LÍ án nafnleyndar.
Af hálfu kærða er þess krafist að öllum kröfum kæranda á hendur honum verði hafnað.
Í 9. tbl. 91. árg. Læknablaðsins 2005 og í vefútgáfu blaðsins birtist grein eftir Jóhann Tómasson lækni undir fyrirsögninni "Nýi sloppur keisarans". Kveður kærandi hana hafa verið birta með vitund og vilja Vilhjálms Rafnssonar, ábyrgðarmanns blaðsins. Í umræddri grein hafi höfundur veist að kæranda og starfsheiðri hans sem lækni, m.a. í tengslum við störf hans sem sérfræðings í taugalækningum á taugalækningadeild LSH sumarið 2005. Einnig haldi höfundur því fram í greininni að lækningaleyfi kæranda séu ógild. Hafi kærandi margoft þurft að þola svipuð tilskrif af hendi greinarhöfundar á opinberum vettvangi á síðustu árum, en hér sé þó, á síðum Læknablaðsins, málgagns lækna, gengið mun lengra en nokkru sinni fyrr.
Það geti ekki dulist neinum sem til þekkir, allra síst lækni og ábyrgðarmanni prent- og vefmiðils, að fullyrðingar í grein Jóhanns Tómassonar brjóti gróflega gegn 28. gr. Codex Ethicus, auk þess að ábyrgðarmanninum hefði átt að vera ljóst að einnig sé brotið gegn XXV. kafla almennra hegningarlaga um meiðyrði, með því að hann hafi borið ábyrgð á og veitt atbeina sinn til, að breiða út óhróður um kæranda, sem auk þess var fallinn til að skerða atvinnuöryggi hans sem læknis. Þrátt fyrir þetta hafi umrædd grein verið birt með vitund og vilja kærða Vilhjálms Rafnssonar ábyrgðarmanns blaðsins og sé hann aðalmaður í broti á 28. gr. Codex Ethicus ásamt Jóhanni Tómassyni skv. verknaðarlýsingu greinarinnar.
Einnig telur kærandi að birting greinarinnar brjóti gegn íslenskri meiðyrðalöggjöf, sérstaklega 234. gr. almennra hegningarlaga.
Þá sé það ekki síður grafalvarlegt að ásakanir sem settar séu fram í umræddri grein í málgagni lækna og samtaka þeirra, Læknablaðinu, þess efnis, að kærandi hafi starfað sem læknir og sérfræðilæknir án tilskilinna leyfa, fælu í sér ef sannar væru, refsivert brot á læknalögum nr. 53/1988. Hlutdeild í ósönnum aðdróttunum um refsiverða háttsemi geti varðað við ákvæði 148. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga 19/1940 eins og kærandi telur að hér eigi við.
Þótt siðanefndin sé ekki ætlað að dæma um brot á þeim almennu lögum sem hér hafa verið rakin sé þó rétt að hafa þau til hliðsjónar að því leyti, að ef það liggi fyrir eins og hér blasir við, að læknir hafi framið réttarbrot gagnvart öðrum lækni sem einnig er brot á almennum lögum, hljóti það að leiða til þeirrar niðurstöðu að jafnframt hafi verið brotið gegn tilvitnuðu ákvæði 28. gr. Codex Ethicus.
Það sé einnig sérlega ámælisvert að kærði Vilhjálmur hafi ekki gripið til neinna þeirra ráðstafana sem honum hafi verið tiltækar til að draga úr tjóni vegna fyrrgreindar birtingar, t.d. með því draga umrædda grein til baka, afmá hana úr vefútgáfu Læknablaðsins, gangast fyrir því að blaðið bæði kæranda afsökunar á birtingunni og harma hana. Þá sýnir það hve kærði Vilhjálmur sé forhertur í viðvarandi brotastarfsemi sinni að hann hafi aftekið að takmarka tjón af birtingu greinarinnar með því að neita að afmá hana úr vefútgáfu Læknablaðsins þegar tillaga um það var borin upp á ritstjórnarfundi blaðsins 20. september 2005 og sé greinina ennþá að finna í vefútgáfunni þegar þetta er ritað. Tjón kæranda af vefútgáfunni hafi aukist síðan enn við það að hún hafi orðið tilefni fréttar í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Sú umfjöllun hafi orðið til þess að aðstoðarlandlæknir hafi þurft að lýsa því yfir að kærandi hefði starfað í skjóli gilds lækningaleyfis, en annars hefðu störf hans falið í sér lögbrot sem varðað geta refsiábyrgð.
Læknablaðið njóti mikillar virðingar sem ritrýnt (e. Peer-reviewed) vísindatímarit þar sem gerðar séu strangar kröfur til efnis og efnistaka þeirra greina sem þar birtast. Greinar sem birtist í slíkum tímaritum þyki því mun áreiðanlegri og síður hafnar yfir gagnrýni en þær sem birtist annars staðar, t.d. í dagblöðum sem oft séu ekki vönd að virðingu sinni. Jafnvel sé litið svo á að efni sem birtist í ritrýndum tímaritum endurspegli að nokkru leyti skoðanir útgefenda slíkra blaða. Því sé það mjög alvarlegt mál þegar ritrýnt tímarit sem jafnframt er málgagn íslensku læknasamtakanna birti óhróður af því tagi um íslenskan lækni eins og hér um ræði. Sé útilokað að gera sér í hugarlund að virt læknatímarit á borð við New England Journal of Medicine eða British Medical Journal sem Læknablaðið vilji miða sig við myndu birta sambærilegar greinar um meðlimi sína.
Í þessu sambandi sé rétt að minna á að Jóhann Tómasson hafi ritað fjölda greina í íslenskum dagblöðum um kæranda og tengd málefni, sem hafi á almennan mælikvarða verið mjög meiðandi í hans garð. Umræddar greinar hafi hinsvegar aldrei orðið tilefni til þess að aðrir fjölmiðlar hafi tekið þær upp í frekari umfjöllun.
Nú hafi hinsvegar brugðið svo við að Ríkissjónvarpið hafi gert grein Jóhanns Tómassonar í Læknablaðinu að áberandi umfjöllunarefni í aðalfréttatíma sínum og inngangi að honum. Hægt sé að fullyrða það hefði aldrei gerst að RÚV eða annar fjölmiðinn hefði tekið umfjöllunarefni greinarinnar upp í frétt, hefði hún birst í einhverjum öðrum innlendum miðli en Læknablaðinu.
Kærði beri sem ábyrgðarmaður málgagns íslenskra lækna að sýna öðrum læknum, læknastéttinni og lögum LÍ sérstaka virðingu. Læknablaðinu sé m.a. ætlað að styðja við tilgang LÍ eins og hann er skilgreindur í 2. gr. laga LÍ, þar sem segi m.a. að félaginu sé ætlað að "efla hag og sóma hinar íslensku læknastéttar og aukakynni og stéttarþroska félagsmanna" og að "standa vörð um sjálfstæði læknastéttarinnar og gæta hagsmuna félagsmanna". Með því að veita atbeina sinn að birtingu margnefndar greinar í Læknablaðinu hafi kærði fótumtroðið þessi markmið og brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum laga LÍ, en þau heyri undir lögsögu siðanefndarinnar sbr. 3. mgr. 2. gr. viðauka við lög LÍ.
Þannig sé ljóst að kærði Vilhjálmur Rafnsson hafi gerst sekur um mjög ámælisverða og vítaverða framkomu í garð kæranda sem valdi honum viðvarandi tjóni. Þá hafi kærði Vilhjálmur ekkert gert til að koma í veg fyrir tjón kæranda af háttsemi sinni og raunar gert sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir aðgerðir annarra til að bæta fyrir hana. Kærði hafi því engar málsbætur og gerir kærandi því þá kröfu að siðanefndin finni alvarlega að háttsemi hans og veiti honum formlega áminningu skv. 16. gr. viðauka við lög LÍ.
Loks er bent á að kærandi sé forstjóri fyrirtækisins Íslenskrar erfðagreiningar sem stundi viðamiklar rannsóknir á sviði læknisfræði á Íslandi. Komi til þess að Læknablaðið þegi þunnu hljóði og beri ekki til baka ærumeiðingar sem birst hafi í blaðinu um forstjóra fyrirtækisins sé hugsanlegt að slíkt kunni að vekja athygli erlendis, sem geti haft skaðlegt áhrif á rannsóknir fyrirtækisins og hinna fjölmörgu innlendu samstarfsaðila þess, þessum aðilum, íslensku vísindasamfélagi og þátttakendum í rannsóknum til tjóns. Því sé nauðsynlegt að siðareglum LÍ verði framfylgt með þeim hætti að sú háttsemi sem hér er kærð verði fordæmd m.a. til að draga úr hættu á tjóni sem af slíkri háttsemi getur leitt.
Af hálfu kærða er til þess vísað að Læknablaðið sé ekki aðeins fræðirit, heldur einnig félagsrit lækna. Blaðið sé vettvangur umræðna um málefni læknisfræðinnar á Íslandi, sjúklingum og samfélagi til hagsbóta, og það sé hefð fyrir hreinskiptum og hispurslausum skoðanaskiptum. Gagnrýna umræðu af þessu tagi sé einnig að finna í erlendum læknatímaritum.
Ágreiningslaust sé að kærði, Vilhjálmur Rafnsson læknir, hafi verið í ritnefnd Læknablaðsins og ábyrgðarmaður þess þegar hin umdeilda grein Jóhanns Tómassonar læknis birist í blaðinu.
Um réttarstöðu hans og ábyrgð fari samkvæmt lögum nr. 57/1956 um prentrétt. Samkvæmt 15. gr. þeirra laga beri höfundur greinar í blaði eða tímariti ábyrgð á efni, nafngreini hann sig. Samkvæmt tilgreindu ákvæði geti einungis reynt á ábyrgð ritstjóra (ábyrgðarmanns) á efni greinar sem birt er í blaði eða tímariti ef höfundur nafngreinir sig ekki.
Ekki geti orðið vafi um að Læknablaðið sé blað eða tímarit í skilningi tilgreindra laga. Þá liggi fyrir að höfundur greinarinnar ?Nýi sloppur keisarans? sem birtist í 9. tbl. 91. árgangs Læknablaðsins árið 2005, Jóhann Tómasson læknir nafngreindi sig og tók þannig fulla ábyrgð á efni greinarinnar og ljóst að lögum að sú ábyrgð tæmir ábyrgð annarra.
Í úrskurði siðanefndar uppkveðnum þann 7. desember 2007 hafi verið tekin afstaða til þess hvort tilgreindur höfundur hefði brotið gegn 3. mgr. 22. gr. siðareglna lækna með greininni. Var á því byggt í kæru að greinin í heild bryti gegn siðareglum.
Í niðurstöðu Siðanefndar Læknafélags Íslands komi fram að nefndin telji að ekkert hafi verið til fyrirstöðu að fjallað væri um ráðningu Kára Stefánssonar til afleysinga á taugadeild Landspítalans og játa yrði höfundi svigrúm í þessu efni með vísan til 3. mgr. 5. gr. siðareglna lækna. Fram kemur að nefndin telji greinina í heild ekki fela í sér brot á siðareglum lækna. Hins vegar var það niðurstaða hennar að tvær tilteknar setningar í greininni fælu í sér brot gegn 3. mgr. 22. gr. siðareglna lækna svo sem nánar er rökstutt í úrskurðinum. Á þessum setningum, orðalagi og efni, ber Jóhann Tómasson einn ábyrgð og ljóst að úrskurður á hendur honum tæmir sök.
Með framangreindri niðurstöðu liggi fyrir að sú gjörð kærða að samþykkja birtingu umræddrar greinar í Læknablaðinu geti ekki undir neinum kringumstæðum falið í sér brot gegn siðareglum, þegar af þeirri ástæðu að siðanefndin hafi í framangreindu máli komist að þeirri niðurstöðu að umfjöllunin hafi verið réttlætanleg og þar með birting greinarinnar.
Samkvæmt 73. gr. Stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 eigi hver maður rétt til að láta skoðanir sínar og hugsanir í ljósi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða.
Í samræmi við þetta megi ljóst vera að kærði sem ritstjóri og ritnefndarmaður hafi enga heimild haft til að breyta grein Jóhanns Tómassonar t.d. með því að taka úr henni þær setningar sem siðanefnd taldi að fælu í sér brot af hálfu höfundar. Kærði hafi átt tvo kosti í stöðunni að hafna því að birta greinina eða birta hana eins og hún kom frá höfundi. Túlka verði niðurstöðu í úrskurði siðanefndar í máli Jóhanns Tómassonar þannig að umfjöllunin og birting greinarinnar hafi verið réttmæt.
Þá er áréttað að ábyrgð kæranda vegna greinarinnar hefði aldrei getið orðið önnur en kveðið sé á um í prentlögum, ritstjóri ber ekki ábyrgð á efni þess sem birt er í blaði eða tímariti hafi höfundur nafngreint sig. Læknar hljóta að vera bundnir af tilgreindum lögum og 73. gr. stjórnarskrár eins og aðrir þegnar þessa lands.
Á því er byggt sérstaklega að sú háttsemi kærða sem kærandi telur að varði við 3. mgr. 22. gr. siðareglna lækna, geti ekki undir neinum kringumstæðum fallið undir þá verknaðarlýsingu sem fram komi í ákvæðinu. Fráleit sé tilvísun kæranda til 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í þessu sambandi enda feli það ekki í sér að bera út móðgun í skilningi ákvæðis að vera ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðs eða tímarits þar sem ærumeiðandi móðgun er birt.
Sama marki sé brennd tilvísun til þess að kærandi sé hlutdeildarmaður í broti gegn 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Hér verði að hafa í huga að Siðanefnd lækna sé á engan hátt bær til að taka afstöðu til þess hvort læknir hafi brotið gegn refsiákvæðum almennra hegningarlaga og sé skylt að leggja til grundvallar í niðurstöðu að menn séu saklausir af refsiverðri háttsemi nema hún hafi verið sönnuð fyrir dómi.
Niðurstaða
Í úrskurði siðanefndar frá 7. desember sl. segir að umfjöllun Jóhanns Tómassonar læknis í grein í Læknablaðinu um þá ákvörðun að Kári Stefánsson leysti af lækna á taugadeild Landspítalans (LSH) fæli í sér mjög hvassa gagnrýni á þá ráðstöfun. Komi þar fram mikil vandlæting greinarhöfundar á ráðstöfun þessari sem hann er augljóslega mjög ósáttur við.
Siðanefnd áréttar að til þess beri að líta að því eru takmörk sett hverjar skorður læknum eru settar þegar þeir fjalla um störf starfssystkina sinna. Of þröng túlkun gæti leitt til þess að menn teldu sér ekki fært að fjalla um menn eða málefni af ótta við að verða sakaðir um brot á siðareglum stéttarinnar og telur Siðanefnd að það sé til þess fallið að hamla eðlilegri umræðu.
Því taldi nefndin að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að fjallað var um ráðningu Kára Stefánssonar til afleysinga á taugadeild Landspítalans (LSH) í grein í Læknablaðinu umrætt sinn. Verði enda að játa höfundi svigrúm í þessu efni með vísan til grunnraka þeirra sem liggja að baki ákvæðis 3. mgr. 5. gr. siðareglna lækna.
Þá taldi nefndin að greinarskrifin í heild sinni hafi ekki falið í sér brot á siðareglum lækna. Hins vegar taldi nefndin tiltekin ummæli engan veginn fela í sér háttvísi í umtali greinarhöfundar um starfsbróður sinn. Var það einnig álit nefndarinnar að ummælin væru til þess fallin að rýra traust og álit starfsbróður Jóhanns og taldi Siðanefnd að ummælin fælu í sér brot á 3. mgr. 22. gr. siðareglna lækna þar sem segir:
Lækni er skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum, í ræðu og riti og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.
Ákvæði þetta er öldungis samhljóða 1. mgr. 28. gr. siðareglna lækna sem í gildi voru þegar greinin birtist. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir það álit Siðanefndar að greinarhöfundur hafi brotið gegn siðareglum lækna með skrifum sínum í umrætt sinn. Greinin er merkt höfundi sínum auk þess sem mynd hans birtist með greininni í Læknablaðinu. Fer því ekkert á milli mála hver sá aðili er sem samkvæmt framansögðu braut gegn siðareglum lækna með tilteknum ummælum í greininni.
Kemur þá til álita hvort kærði hafi brotið gegn siðareglum lækna með því að margnefnd grein birtist í blaði því sem hann var ábyrgðarmaður fyrir. Við það mat verður ekki fram hjá því litið að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt ber höfundur refsi- og fébótaábyrgð á efni rits, ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annaðhvort heimilisfastur hér á landi, þegar ritið kemur út, eða undir íslenskri lögsögu, þegar mál er höfðað. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að ef enginn slíkur höfundur hafi nafngreint sig, beri útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina, því næst sá er hefur ritið til sölu eða dreifingar, og loks sá, sem annast hefur prentun þess eða letrun.
Siðanefnd telur að þegar af þeirri ástæðu að framangreindar ábyrgðarreglur prentlaga eiga við hér beri að sýkna kærða af kröfum kæranda.
Birta ber úrskurð þennan í Læknablaðinu.
Úrskurðarorð
Kærði Vilhjálmur Rafnsson skal sýkn af kröfum kæranda Kára Stefánssonar.
Birta skal úrskurð þennan í Læknablaðinu.
Allan V. Magnússon
Ingvar Kristjánsson
Stefán B. Matthíasson