03. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Fréttatilkynning frá Hópi áhugafólks um bata frá átröskun

Átröskun sem fíkn

Dagana 7.-9. mars næstkomandi er von á kanadíska lækninum Joan M. Johnston til Íslands. Hún er heimilislæknir og hefur sérhæft sig í átröskunum. Hún hefur starfað sem læknir frá árinu 1975 en hefur auk þess persónulega reynslu af átröskun. Joan hefur gefið út bækur og fræðigreinar um efnið og í bók sinni Feast of famine lýsir hún því hvernig hún fékk bata frá átröskun með 12 spora kerfinu. Hún er talsmaður þess að þeir sem þjáist af átröskun noti 12 spora prógrammið samhliða heilbrigðisþjónustu.

Joan var einn af stofnendum samtakanna SACRED (Society for Assisted Cooperative Re- covery from Eating Disorders) sem stofnuð voru 1996 og reka meðferðarstofnun fyrir anorexíu- og búlimíusjúklinga. Joan er heilbrigðisráðgjafi SACRED og stýrir meðferðarprógrammi samtakanna, samhliða því að reka eigin læknastofu fyrir sjúklinga með átröskun.

Frá 1992 hefur Joan haldið fyrirlestra um átröskun um allan heim. Þar byggir hún á hugmyndum um átröskun sem fíkn og deilir með áheyrendum bæði margra ára faglegri reynslu og sinni eigin sögu. Hópur áhugafólks um bata frá átröskun stendur fyrir komu hennar til Íslands. Hún heldur fyrirlestur laugardaginn 8. mars fyrir alla sem hafa áhuga á málefninu, þolendur, fjölskyldur og vini, sem og alla fagaðila á þessu sviði.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica