03. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Landlæknir gefur út lækningaleyfin

Matthías HalldórssonTil stendur að flytja meðhöndlun umsókna um lækningaleyfi og útgáfu þeirra frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til Landlæknisembættisins. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir sagði í samtali við Læknablaðið að þetta væri í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um "Einfaldara Ísland" frá október 2006. Frumvarp þessa efnis var lagt fram af heilbrigðisráðherra á Alþingi í lok janúar.

"Eðlilegra þykir að hafa þessi mál hjá stofnun, en ekki ráðuneyti. Sá háttur er hafður á hinum Norðurlöndunum. Þetta þykir líka mikilvægt vegna réttaröryggis. Hægt er að kæra niðurstöðu landlæknis til ráðherra. Eftir þetta verða afrit áminninga landlæknis ekki sendar til ráðherra, eins og hingað til hefur tíðkast."

Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum 1. mars. Landlæknisembættið hefur auglýst eftir lögfræðingi. Umsóknarfrestur rann út 11. febrúar og barst nokkur fjöldi umsókna. Gert er ráð fyrir að ráða í starfið á næstu vikum, en lögfræðingurinn mun einnig koma að kvörtunum og kærum og öðrum verkefnum á lagasviði," sagði Matthías Halldórsson."

Fyrir um ári síðan fjallaði Læknablaðið um útgáfu sérfræðileyfa og komu þar fram hvassar athugasemdir úr röðum lækna um að herða beri reglur um útgáfuna og setja skýrari kröfur. Nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins var skipuð á sínum tíma en samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur nefndin ekki komið saman undanfarin misseri og málið "lítið þokast" eins og einn viðmælandi Læknablaðsins orðaði það.Þetta vefsvæði byggir á Eplica