03. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Af starfskjörum heimilislækna á Íslandi - sögulegar stiklur. Gunnar I. Gunnarsson

Gunnar I. GunnarssonÖfugt við það sem margur heldur hafa starfskjör íslenskra lækna lengst af verið fremur bágborin. Fjórðungs- og héraðslæknar fortíðarinnar, læknarnir sem fóru fyrst og fremst gangandi eða ríðandi um torfær læknishéruð landsins, bjuggu sjaldnast við góð launakjör eða starfsaðstöðu. Þessir kollegar voru í reynd á samfelldri vakt alla daga árið um kring og ferðalög í vitjunum oft erfið og stundum lífshættuleg. Til eru allnokkur dæmi þess að læknar hafi farist á embættisferðum sínum um landið. Dæmi eru um að þeir hafi drukknað þegar þeir misstu hesta niðrum brothættar ísþekjur ánna eða þegar þeir reyndu að sundríða bólgnar og beljandi ár í vorleysingum - eða haustflóðum. Til marks um vinnuskilyrði kollega okkar skal hér birt bréf Gísla Hjálmarssonar (1) sem skipaður var fjórðungslæknir Austfirðinga árið 1845, til vinar síns Jóns Sigurðssonar:

Staddur í Hofteigi dag 14. janúar, 1841.

Gleðilegt nýtt ár, elsku bróðir minn besti!

Ég tek mér nú penna í hönd á húsgangsferð minni til þess að hripa þér línu, en sökum eilífs ófriðar, ferðalaga, andvaka og hrakninga er ég ei fær um að skrifa þér sem ég mundi kjósa, en þú virðir það á hinn hægara veg, eins og annað mér til handa. Fréttir eru héðan fáar. Eftir að ég skrifaði þér, kom regn og stórviðri hin mestu. Fór ég þá leiðar minnar suður um firði og var á hrakningi, blautur að bjórnum, en votur úr ám og mýrum upp í klyftir. Nær því fjórar vikur vóru lögð boð fyrir mig nær og fjær, en betalningur kemur ei fyrir slíkt, enda þótt það drabbi öll föt og drepi heilsu, þótt sterkari væru en mína. Fáir bæir vóru þó í fjörðum, er þurrt mætti komast um hús, nema húð væri á, og rann vatnið inn um veggina alls staðar. Síðan komu snjóar og harðviðri, og komst ég nauðuglega til Héraðs af Eskjufirði og mátti liggja úti votur í sæluhúsi í heiðardölum, en brjóta fyrir hesti mínum hér um bil eina og hálfa mílu klofsnjó og þaðan af meiri, og hefi ég lofað því, að aldrei skal ég bjóða neinni skepnu slík ferðalög.

Þegar ég kom heim, var bærinn fullur af fólki, sem við mig vildi tala. Mátti ég þá leggja saman daga og nætur, svo þá viku fékk ég ei á mig náðir nema tvær nætur, og að því búnu mátti ég ferðast hingað norður fótgangandi í ófærð, eftir tveggja tíma svefn þá nótt.

Vegur er hér yfir Fljótsdalsheiði utanverða frá Ási, og mun hún byggða milla fjórar mílur, en ekki brött. Þungt féll mér skíðagangan. Þó bar ég mig að fylgja með hinum, og fékk ég harðsperru nokkra á eftir.

Kærustu mína hafði ég við meðalastarf með mér, áður ég fór heiman, og bæði sökum andvöku og kulda og dragsúgs, varð henni illt á eftir að ég var farinn, og lág hún í fimm daga, en komst þá á flakk aftur. Ég var hér í ellefu daga, fór svo heim yfir heiðina framar, og voru færi hin beztu, hún er þar gild þingmannaleið, en mjög slétt og ákaflega villugjörn, komst svo heim að hinum sama ófagnaði sem fyrr, er þá varaði í átta daga, og var mér nær orðið illt. Þá mátti ég skálma út í Tungu, og nú hefi ég þrjár ferðir síðan farið, og er þessi hin versta, þar nú er hin mesta ófærð og skíð óbrúkandi.

Þú getur nærri, hvað ég hefi haft góðan tíma, á því, að Kaupmannahafnarpóstinn las ég fyrst 28da Desembris, en svörin til Gríms hefi ég ekki séð, því í ferðalögum mínum vóru þau send upp í Fljótsdal og eru þar enn.

Vetur var hér öndvegi til nýárs, einkum til fjarða, en feykilega óstaðviðrasamur. Nú er nær því haglaust yfir Héraðið allt og mesta fannfergi. Varð ég að fara út á heiðarendann við trébrú og hef verið í þrjá daga hingað að kafa jafnaðarlega hné- og mið-læris-blotasnjó, en dregið höfum við skíðin, sem NB eru lánsfé. Það ætli ég bændur dugi hér vel, þótt innistaða verði í þrjá mánuði, en þá fer þeim mörgum að líða verr.

Ég held þetta nú nóg og meira um ferðalög. (2)

Kjaramál heilsugæslulækna 1980

Þegar ég fékk bréf um skipun til þess að vera heilsugæslulæknir í Árbæ, á vordögum 1979, höfðu heilsugæslulæknar um langt skeið fengið greidd laun samkvæmt tvískiptu launakerfi. Annars vegar voru menn á föstum launum frá ríkinu og hins vegar unnu þeir læknisverk samkvæmt gjaldskrá sem samið hafði verið um við Tryggingastofnun ríkisins (TR) ? í áföngum ? allt frá fjórða tug aldarinnar. Þrátt fyrir að hvort tveggja, gjaldskráin og föstu launin, hafi verið afar bágbornar tekjulindir á þessum tíma tókst einstaka heilsugæslulæknum landsbyggðarinnar samt sem áður að ná dágóðum samanlögðum mánaðargreiðslum og þá með því, fyrst og fremst, að vera einir á samfelldri vakt alla daga mánaðarins. Þessar háu heildargreiðslur voru oft misskildar sem góð kjör lækna. Þeir heilsugæslulæknar sem skiluðu venjulegri dagvinnu við eðlilegt vinnu- álag og stunduðu engar vaktir voru láglaunamenn læknastéttarinnar á þessum tíma.

Afar lélegar vaktagreiðslur og sífellt versnandi gjaldskrá voru kannski stærstu vandamálin í starfskjörum heilsugæslulækna þegar ég hóf afskipti af samningamálum árið 1980. Mönnum var ljóst að slæm starfskjör heimilislækna á Íslandi gætu haft mjög neikvæð áhrif á framþróun heimilislækninga í landinu almennt. Launakjör stóðust engan veginn samanburð við kjör annarra sérfræðinga í læknastétt hér á landi. Þessi staðreynd hafði auðvitað miður góð áhrif á nýliðun í okkar fagi. Ungliðar stefndu frekar á grænni beitilönd sjúkrahúsanna. Það vantaði lækna í heilsugæsluna. Heilsugæslan stóð illa í samkeppni á vinnumarkaði lækna.

Uppbygging heilsugæslustöðva í dreifbýli hófst við gildistöku nýrra laga um heilbrigðisþjónustu árið 1973. Bæði þing- og sveitarstjórnarmenn dreifbýlisins börðust af ákafa og dugnaði fyrir uppbyggingu þessa nýja kerfis. Í dreifbýli spruttu upp glæsilegar stöðvar en víða var þrálátur læknaskortur. Reykjavíkurborg var látin sitja á hakanum, afskipt og utangátta. Í höfuðborginni átti heilsugæslan afar veikt pólitískt bakland frá upphafi en hins vegar sterka andstæðinga - til dæmis í læknastétt. Meðal annars þess vegna var fyrsta heilsugæslustöðin í Reykjavík ekki sett á laggirnar fyrr en 1977 (Árbæ) - fjórum árum eftir gildistöku laganna. Og það er ekki fyrr en árið 2006 sem heilsugæslukerfið náði að spanna öll hverfi borgarinnar með tilkomu stöðvar í Glæsibæ. Og enn skortir marga heimilislækna á svæðinu.

Fram til ársins 1977 var heimilislæknisþjónusta við borgarbúa í höndum lækna úr ýmsum sérgreinum læknisfræðinnar sem ráku stofur sínar víðs vegar um borgina. Þessir kollegar störfuðu samkvæmt svokölluðum númerasamningi sem gerður var við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Samkvæmt honum fengu þeir fastar greiðslur fyrir ákveðinn fjölda skráðra skjólstæðinga ? númera ? en auk þess fengu læknarnir í sinn hlut framlag sjúklinga vegna viðvika ? bæði á stofu og í vitjunum. Með tilkomu heilsugæslustöðva dró smátt og smátt úr umfangi númerakerfisins gamla og nú er svo komið að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur tekið að sér rekstur þess sem eftir lifir af þessu gamalgróna kerfi.

 

 

Læknastríðið 1985

Þegar menn fóru að skoða betur starfskjör heimilislækna fljótlega eftir stofnun FÍH fyrir þrjátíu árum varð ljóst að starfskjörin voru hreint afleit, enda höfðu samningar þeirra rýrnað verulega um langt árabil. Óánægja heimilislækna óx á þessum árum og svo illa var komið árið 1985 að þess voru dæmi að sérmenntaðir heimilislæknar fluttust aftur til námslandanna vegna óviðunandi starfskjara á Íslandi. Þannig birtist í janúar 1985 viðtal í Morgunblaðinu við Þórð Theódórsson heimilislækni sem taldi sig ekki geta unað við starfskjörin og var því á leið aftur til Svíþjóðar (3).

Við skoðun á gjaldskrá heilsugæslulækna þetta sama ár, 1985, kom í ljós að hún þyrfti að hækka um heil 130% til þess eins að ná þeirri stöðu sem hún hafði á árunum 1962-63. Einnig lá fyrir á þessum tíma að fastlaunasamningur heilsugæslulækna hefði veslast upp ? á löngum tíma. Þannig voru heilsugæslulæknar á þrefalt lægra kaupi á vöktum utan dagvinnu miðað við kollegana á sjúkrahúsunum. Kjör íslenskra heimilislækna voru í rúst.

Það er því ekki að undra að um 80% allra heilsugæslulækna landsins skuli hafa gripið til þess óyndisúrræðis í janúar 1985 að segja upp stöðum sínum þegar fyrir lá að starfskjör lækna yrðu ekki lagfærð með endurteknum árangurslausum viðræðum við Indriða G. Þorláksson, formann samninganefndar ríkisins og fulltrúa TR.

En hver urðu fyrstu viðbrögð hins opinbera við uppsögnum læknanna? Jú, Matthías Bjarnason heilbrigðisráðherra stöðvaði strax allar inniliggjandi umsóknir heilsugæslulækna um námsferðir og einnig allar greiðslur dagpeninga til þeirra sem voru á förum í námsferðir næstu daga. Lítið annað gerðist. Ekkert heyrðist frá samninganefnd ríkisins mánuðum saman. Indriði var í sumarleyfi og staðgengill hans hafði ekki frétt af uppsögnum læknanna.

Þetta sama ár fór gjaldskrá heilsugæslulækna fyrir gerðardóm í fyrsta skipti þar sem ekki tókust samningar. Gerðardómur ákvarðaði nýtt sérstakt einingaverð gjaldskrár heimilislækna og gjaldskrá var hækkuð um 24%. Inni í hækkuninni voru greiðslur fyrir símtöl sem voru felld inn í greiðslur fyrir viðtöl á stofu. Ekki kom til þess í þetta sinn að læknar hættu störfum sínum því heilsugæslulæknum tókst að ná samkomulagi við Albert Guðmundsson fjármálaráðherra og Indriða þann 10. ágúst 1985, nokkrum klukkustundum áður en uppsagnir tækju gildi. Með þessum samningi náðu heilsugæslulæknar fram nokkurri leiðréttingu, m.a. á vaktagreiðslum og einstaka heilsugæslustöðvar í dreifbýli fengu torfærubifreið til afnota.

Uppsagnir lækna vegna kjaramála eru neyðarréttur manna í mikilli kreppu. Það eru auðvitað ekki nein smáátök sem eiga sér stað þegar heimilislæknar fara í stríð við þjóð sína með uppsögnum. Það að læknar séu neyddir til að yfirgefa skjólstæðinga sína með uppsögnum vegna þess að ráðamenn hafi ekki haft vit á að tryggja læknum mannsæmandi kjör, hlýtur fyrst og fremst að vera áfellisdómur yfir stjórnvöldum enda klár vísbending um algert stefnuleysi í launamálum. Það tók langan tíma fyrir margan lækninn að jafna sig eftir átökin árið 1985, þeim fannst sér vera misboðið.

 

 

Þróun mála

Árið 1980 voru starfandi sjö heilsugæslulæknar og 26 númeralæknar í Reykjavík. Í nóvember sama ár var ákveðið að skipta Reykjavík í 14 heilsugæslusvæði. Gert var ráð fyrir því að á svæðunum mundu starfa alls um 46-60 læknar og um 60 hjúkrunarfræðingar. Í allmörg ár var uppbygging heilsugæslu höfuðborgarinnar í höndum stjórnenda Reykjavíkurborgar og það var ekki fyrr en um áramótin 1989-90 að ríkið tók alfarið við rekstri heilsugæslustöðva í Reykjavík. Sú staðreynd að heilsugæslan var lengi vel bæði í höndum ríkis og borgar og einnig hitt að kjaramál lækna voru bæði í höndum ríkisins og TR gerði að verkum að það reyndist þeim mun erfiðara að halda utan um starfskjör heilsugæslulækna. Meðal annars þess vegna rýrnuðu þau þetta mikið á þessu tímabili.

Árið 1989 var gerður enn einn fastlaunasamningurinn við ríkið. Í þeim samningi földu menn hluta kauphækkunar til háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu með því að bjóða upp á 1,5% af föstum launum til reglubundinnar greiðslu í rannsóknar- og þróunarsjóð viðkomandi aðildarfélags BHMR. Öfugt við önnur aðildarfélög BHMR tóku heilsugæslulæknar Ólaf Ragnar Grímsson fjármálaráðherra á orðinu og gerðu alvöru úr því að stofna Vísinda- og þróunarsjóð fastráðinna lækna. Þessi sjóður varð undanfari Vísindasjóðs FÍH. 1,5% af föstum launum lækna árið 1989 þótti ekki stór upphæð á sínum tíma, en með launaþróun hefur prósentutalan skilað miklu og ákvörðun um að gera alvöru úr 1,5 prósentinu reyndist happadrjúg. Vísindasjóði FÍH hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg eins og sést af því að nú hefur verið ákveðið, í tilefni þrjátíu ára afmælisins, að veita úr sjóðnum tugmilljóna styrkjum næstu fimm ár.

 

 

Læknaskortur í dreifbýli

Á árinu 1990 var afar slæm staða í heilsugæslunni víða á landinu. Norðausturhornið var löngum læknislaust og einnig áttu menn í miklum erfiðleikum með að manna heilsugæslustöðvar á Vestfjörðum. Guðmundur Bjarnason, þáverandi heilbrigðisráðherra, bað mig að fara á norðausturhornið, kanna stöðuna og koma helst með hugmyndir um úrbætur. Þetta ferðalag leiddi til svokallaðra staðarsamninga fyrir einstaka svæði. Staðarsamningurinn sem síðar gilti fyrir Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker gekk út á það að þrír læknar þessa svæðis þyrftu ekki að skila meiru en átta mánaða vinnu hver á ári. Þannig var svæðið ávallt mannað tveimur læknum, en einn alltaf í fríi. Aðalástæða mönnunarvanda á norðausturhorninu var sambland af félagslegri einangrun, miklu vaktaálagi og lágu kaupi. Sumt af þessu er enn óleyst.

 

 

Prófessoratið

Árið 1991 ákvað fjármálaráðuneytið að fallast á skipun Jóhanns Ágústs Sigurðssonar í 100% starf sem forstöðumaður kennslu á heilsugæslustöðvum, gegn 50% fastra launa. Seinna meir var það fyrir tilstilli heilsugæslulækna sjálfra að samþykkt var prófessorsstaða í heimilislækningum. Sú sam-þykkt kom til fyrir þær sakir, fyrst og fremst, að FÍH bauð menntamálaráðuneytinu að borga prófessorsstöðuna í tvö ár að því tilskildu að ríkið tæki við eftir það. Fyrrnefndur 1,5%-sjóður FÍH tók hér þátt í að gera prófessorat í heimilislækningum að veruleika.

Læknastríðið 1996

Árið 1995 var gerð könnun á högum íslenskra heimilislækna. Alls var könnunin lögð fyrir 178 lækna og af þeim svöruðu 139. Á höfuð-?borgarsvæðinu var 47,5% af hópnum en utan af landi voru 52,5%. Á þessum tíma voru 71,2% af hópnum sérfræðingar í heimilislækningum. Það kom fram í þessari könnun að 41,6% af læknunum höfðu aldrei tekið sér samfelldar sex vikur í orlof á árunum þremur þar á undan. Á tímabilinu frá 1990 til 1995 höfðu starfskjör heilsugæslulækna versnað verulega. Auðvelt var að sýna, svart á hvítu, að starfskjör hefðu ekki haldið í við starfskjaraþróun margra annarra hópa. Meðal annars kom í ljós við könnun sem gerð var á vegum BHMR í febrúar 1995 að heilsugæslulæknar hefðu dregist verulega aftur úr prestum og öðrum stéttum starfandi fyrir ríkið. Á þessu tímabili varð mönnum það enn ljósara en áður að áhugi ríkisvaldsins á uppbyggingu heilsugæslunnar var afar lítill. Þetta varð til þess að heilsugæslulæknar söfnuðu liði, réðu ráðum sínum og lögðu fram kröfur. Kröfurnar voru kynntar heilsugæslulæknum með heimsóknum á heilsugæslustöðvar um mestallt land. Áform heilsugæslulækna voru þessi:

 

  •  Í fyrsta lagi var ætlunin að gera samkomulag við heilbrigðisráðherra um uppbyggingu heilsugæslunnar í nútíð og framtíð. Móta heilsugæslunni klára framtíðarsýn og styrkja hana faglega.

 

  •  Í öðru lagi var ætlunin að snúa sér að því loknu að starfskjörum heimilislækna á landinu.

 

Árið 1996 náðist samkomulag við heilbrigðisráðherra, Ingibjörgu Pálmadóttur, um aðgerðir til styrktar heilsugæslunni á landsvísu. Við það samkomulag var ekki staðið - því miður. Það varð læknum ljóst hægt og bítandi.

Í kjölfar samkomulagsins sneru menn sér að kjaramálum. Menn sættu sig ekki við óbreytt kjör og vildu róttækar breytingar. Stefnt skyldi að því að ná sömu kjörum og aðrir sérfræðingar í læknastétt. Ekkert minna væri viðunandi. Og samningaviðræður hófust. Nú var Gunnar Björnsson tekinn við af Indriða. Heilsugæslulæknum varð ljóst að menn myndu aldrei ná saman í viðræðum við samningaborð. Til þess hafði samninganefnd ríkisins ekki umboð. Ríkissáttasemjari vissi þetta líka.

Heilsugæslulæknar voru því neyddir í kjarastríð við stjórnvöld. Þann 1. febrúar höfðu allflestir heilsugæslulæknar landsins sagt upp störfum. Kjarasamningar tókust ekki og uppsagnirnar tóku gildi í ágúst. Það var skollið á allsherjarstríð. Ríkisvaldið hafði þannig neytt heilsugæslulækna landsins í áður óþekkt átök. Enn hafði stefnuleysið í kjaramálum opinberra starfsmanna verið afhjúpað. Ríkisvaldið treysti sér ekki til að leiðrétta hróplegt ósamræmi í starfskjörum íslenskra lækna við samningaborðið. Ríkisvaldið kaus stríð - og fékk það. Og stríðinu lauk ekki fyrr en 11. september sama ár. Þá var gerður nýr fastlaunasamningur. En hann var aukaatriði. Aðalatriðið var samkomulag um að heilsugæslulæknar færu undir kjaranefnd. Losnuðu undan samningaviðræðum sem gætu aldrei leyst vandann. Þetta samkomulagsatriði varð lykill að lausn þessarar erfiðu deilu. Og tíminn leið.

Þann 3. mars 1998 kom svo fyrsti úrskurður kjaranefndar. Úrskurðurinn olli vonbrigðum. Mönnum fannst hann ganga of skammt. En við sem þekktum betur til vorum hins vegar viss um að það tæki kjaranefnd lengri tíma að ná markmiði sínu - og langþráðu markmiði okkar allra - að gera starfskjör heilsugæslulækna sambærileg við starfskjör annarra sérmenntaðra lækna á Íslandi. Væntingar mínar voru alla tíð þær að kjaranefnd yrði að úrskurða okkur sömu launakjör og aðrir sérfræðingar í læknisfræði hér á landi búa við. Síðan væri sjálfsagt að yfirgefa kjaranefnd og leggja kjarabaráttu okkar í hendur Læknafélags Íslands, þannig að frá þeim tíma yrði sameiginlegur kjarasamningur gerður fyrir alla lækna á Íslandi.

 

 

Finale

Árið 1998 birti ég grein í Fréttabréfi FÍH undir fyrirsögninni "Finale"

Í þeirri grein kveð ég endanlega kjaramál heilsugæslulækna sem virkur þátttakandi. Þá fannst mér nóg komið - kominn tími til að kveðja. Í upphafi greinarinnar skrifa ég eftirfarandi:

"Tryggvi Ásmundsson, okkar ágæti kollega, hefur sagt eitthvað á þá leið, að væri maður ekki þegar létt patólógískur, áður en maður álpaðist til að taka að sér formennsku í hvers konar samninganefnd fyrir íslenska lækna yrði maður það eftir örskamman tíma. Auðvitað vissi ég vel hvað Tryggvi var að fara þegar ég heyrði hann segja þetta, enda þurfti ég ekki annað en að gerast svolítið intróvert til að kannast við tilfinninguna."

Ég vissi þegar ég tók að mér forystu í kjaramálum heimilislækna að slíkt hlutverk væri afar vanþakklátt og að vissu leyti niðurdrepandi. En þetta er bara eitt af því sem einhver verður að taka að sér. Það var auðvitað fyrst og fremst vegna löngunar til þess að fá að starfa við mannsæmandi kjör sem heimilislæknir á Íslandi að ég tók hlutverkið að mér. Þegar ég lít yfir farinn veg sé ég fyrir mér næstum 30 ára tímabil - tímabil sveiflna upp og niður - en þó á leiðinni upp. Í dag er ég frekar sáttur. Starfskjör heilsugæslulækna eru viðunandi að því leyti að þau eru nú svipuð kjörum annarra sérfræðinga í læknastétt hér á landi. Það var markmiðið.

En málið á sér fleiri - og nýrri - hliðar. Kjör lækna á Íslandi hafa alls ekki haldið í við launaþróun fjölda háskólamenntaðra manna á einkamarkaði. Þetta þekkja flestir. Status praesens er því sá að þótt ég sé ánægður með það, per se, að heilsugæslulæknum hafi loks tekist að ná sínu gamla markmiði, að búa við sömu starfskjör og aðrir kollegar á landinu, hef ég vaxandi áhyggjur af því að nú sé svo komið að íslenskir læknar skuli ekki einu sinni vera hálfdrættingar í launum í samanburði við hratt stækkandi hóp ungra háskólamanna sem starfa í fyrirtækjum íslenska fjármálageirans og ýmsum öðrum útrásarfyrirtækjum.

Það er að mínu mati eðlislæg og innbyggð krafa hágæðalæknisstarfs að vera ávallt með hæst launuðu störfum sérhvers þjóðfélags. Læknisfræðin verður því ætíð að standast alla samkeppni um besta fólk vinnumarkaðarins. Ef læknisstarfið tapar samkeppnisstöðu sinni til lengdar á vinnumarkaði íslenskra háskólamanna er vá fyrir dyrum. Það má alls ekki gerast. En hvernig geta íslenskir læknar náð aftur sínum launastatus? Varla fyrir tilstilli íslenska ríkisvaldsins, stjórnsýslu sem virðist enn stefnulaus í kjaramálum háskólamanna í ríkisþjónustu - já reyndar í kjaramálum allra opinberra starfsmanna. Það gerist því ekki við borð samninganefndar ríkisins. Og ekki fara læknar enn og aftur í stríð við íslenska þjóð. Það er liðin tíð. Þá virðist mér aðeins ein leið fær. Útrás íslenskrar læknisþjónustu. Útrás hágæðaþjónustu íslenskra lækna. Á forsendum lækna.

 

 

Heimildir

1. Læknar á Íslandi, fyrra bindi, útg. 1970.
2. Ferðir um Ísland á fyrri tíð - Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, 1981.
3. Morgunblaðið í janúar, 1985.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica