03. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Félag íslenskra heimilislækna 30 ára

Veita allt að 50 milljónum til rannsókna í heimilislækningum

"Ég er reglulega stolt af Félagi íslenskra heimilislækna sem hefur alla tíð haft mjög sterka faglega sýn og leitast við að auka gæði þjónustunnar og stuðla að farsælli uppbyggingu heimilislækninga á Íslandi. Félag er fólk og við eigum innan okkar raða fjölda frábærra einstaklinga sem hafa verið tilbúnir að gefa af sér og vinna í sjálfboðavinnu að margs konar faglegum málum og eiga miklar þakkir skildar fyrir það," segir Elínborg Bárðardóttir formaður Félags íslenskra heimilislækna en félagið fagnar 30 ára afmæli sínu á þessu ári.

Af þessu tilefni var haldið veglegt teiti í húsakynnum Læknafélags Íslands laugardaginn 2. febrúar.

"Félag íslenskra heimilislækna var stofnað 1978 og hefur í gegnum tíðina gegnt lykilhlutverki fyrir heimilislækningar á Íslandi, verið framsækið í kennslumálum og stutt dyggilega við gæðastarf og rannsóknir heimilislækna. Félagið hefur á þessum tímamótum endurútgefið endurskoðaða marklýsingu um sérnám í heimilislækningum og sú bók kemur nú út ásamt Staðli fyrir starfsemi og starfsaðstöðu heimilislækna en hann var nýlega endurskoðaður og Hugmyndafræði heimilislækninga - Tilraun eftir Ólaf Mixa. Sú bók kom þannig til að Ólafur Mixa átti að skrifa kafla í marklýsinguna um hugmyndafræði heimilislækninga en kom til baka með heila bók og það var bara ákveðið að gefa hana út sem þriðja ritið," segir Elínborg.

Dagsetning afmælishófsins var ekki valin af handahófi heldur miðaðist hún við stofnun prófessorsembættis í heimilislækningum við læknadeild HÍ 2. febrúar 1991 sem Jóhann Ágúst Sigurðsson hefur gegnt frá upphafi.

"Prófessoratið og prófessorinn eru samofið sögu FÍH en félagið barðist fyrir stofnun þess og greiddi laun prófessorsins fyrstu tvö árin," segir Elínborg.

Félagið lætur ekki þar við sitja því í afmælishófinu tilkynnti Elínborg að stjórn og afmælisnefnd félagsins hefði lagt til að veita allt að 35-50 milljónum á næstu árum til rannsókna og fræðistarfa í þágu heimilislækninga á Íslandi.

"Þetta verður gert í samvinnu við vísindasjóð félagsins og er hugmyndin að veita allt að 7 milljónum á ári í starfsstyrki til heimilislækna sem vilja stunda rannsóknir í hlutastarfi eða í fullu starfi til dæmis til doktors- eða meistaranámsverkefna. Þetta verður gert í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og getur vonandi farið af stað í haust en frekari útfærsla verður kynnt á heimilislæknaþinginu sem verður haldið á Grand Hótel 17.-19. október í haust," segir Elínborg Bárðardóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna.

Ólafur Stefánsson, Alma Eir Svavarsdóttir og Katrín Fjeldsted.

Pétur Pétursson og Samúel Jón Samúelsson.

Guðjón Magnússon og Lúðvík Ólafsson.

Haukur Heiðar Ingólfsson, Elínborg Bárðardóttir og Sigríður Dóra Magnúsdóttir.

Lárus Þór Jónsson, Þengill Oddsson og Guðmundur Einarsson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica