03. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Vald eða frelsi. Birna Jónsdóttir

Birna JónsdóttirVald er vandmeðfarið. Þrískipting ríkisvalds í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald er hornsteinn lýðræðis eins og við þekkjum það. Reyndar er einnig talað um fjórða valdið: fjölmiðlavaldið - eða upplýsingavaldið. Ég fór að hugleiða þessa hefðbundnu - og eldgömlu þrískiptingu valdsins þegar Læknafélag Íslands (LÍ) fékk til umsagnar breytingar á lögum um landlækni sem miða að því meðal annars að útgáfa starfsleyfa til heilbrigðisstétta, ásamt ýmiss konar vottorðaútgáfu sem þeim fylgir, verði flutt frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að annars staðar á Norðurlöndum sjái ýmsar undirstofnanir ráðuneyta um útgáfu starfsleyfa og vottorða vegna þeirra en samning frumvarpa og reglugerða er varða starfsleyfi séu hjá ráðuneytum. Breytingin er jafnframt talin ákjósanleg út frá sjónarmiðum um réttaröryggi. Umsækjandi um starfsleyfi getur borið ákvörðun landlæknis undir ráðuneytið og þannig látið fjalla um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum.

Það var þegar hér kom í lestrinum sem þrískiptingin kom upp í hugann. Kemur til greina að LÍ gefi út lækningaleyfi? Bæði almennt og sérfræðingsleyfi? Víðast hvar í Evrópu eru það læknafélög viðkomandi landa sem gefa út lækningaleyfi. Við sem alist höfum upp í norrænu umhverfi höfum ekki þessar væntingar sem í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru viðteknar. Símenntun er sums staðar skilyrði til viðhalds lækningaréttinda, jafnvel með endurtekningu prófa. Mat á endurmenntun er gjarnan í höndum læknafélaga. Námskeið og fundir eru metnir, sem og önnur framlegð lækna og þátttaka í vísindastörfum. Víða gefa læknafélög félagsmönnum sínum upp æskileg viðmið, til dæmis telur Evrópska röntgenlæknafélagið lágmark að afla sér 250 punkta á fimm ára tímabili. Þó gerir félagið sér grein fyrir að hér er um ábendingar að ræða og einstakir félagsmenn einungis beittir siðferðilegum hópþrýstingi. Enginn vafi er á því að hér liggja fyrst og fremst hagsmunir sjúklinga til grundvallar. Fræðslustofnun LÍ hefur hug á að koma upp skráningarkerfi fyrir sína félagsmenn þar sem þeir geta haldið utan um eigin skrá á heimasíðu félagsins. Ef LÍ setur viðmið og er með ramma sem auðveldar okkur skráningu, höfum við gengið til góðs. Við getum svo tekið til umfjöllunar hvort við viljum stíga skrefi lengra og setja útgáfu lækningaleyfa í hendur félaginu okkar. Landlæknir getur í kjölfarið metið í hvaða tilvikun leyfissviptingar er þörf og þannig er valdinu dreift frekar.

Grundvallarmannréttindi fela í sér rétt hvers manns til sjálfræðis og frelsi er því nátengt. Er ég ekki þess umkomin að meta sjálf hvenær og hvort ég læri aftur og eða meira? Vissulega kann svo að vera en engu að síður teljum við læknar ástæðu til hvatningar eins og fram kemur í lögum félagsins þar sem tilgangur félagsins er meðal annars að stuðla að aukinni menntun lækna.

Frelsishugleiðingar í tengslum við sjálfræði flytur mig svo yfir í fjórða valdið, vald fjölmiðla og upplýsinga. Til að taka ákvarðanir sem einstaklingur í þjóðfélaginu og sem fagmaður þarf óhlutdrægar upplýsingar. Til þess að geta sinnt skyldu okkar sem fagfólk verðum við látlaust að innbyrða ógrynni upplýsinga. Nýlega hóf Íslensk erfðagreining sölu til manna á upplýsingum um erfðamengi og fær fólk í leiðinni upplýsingar um tiltekna tengingu við hátt í annan tug sjúkdóma. Aristóteles skipti vísindum eða vísindalegri þekkingu í þrennt: þekking þekkingarinnar vegna skipar fyrsta flokk, vísindi sem hafa markmið annan flokk og þriðja flokk skipa vísindi þau sem beinast að breytni manna og líferni og má nefna siðvísindi. Læknisfræðin hefur þá stöðu til dæmis að mati Páls Skúlasonar heimspekings að falla í alla flokkana þrjá. Siðfræðiráð LÍ hefur nýlega sent stjórn álit sitt á sölu á erfðaupplýsingum. Þar er vitnað í yfirlýsingu frá "The American Society of Human Genetics" sem meðal annars hvetur fagfélög til að upplýsa félagsmenn um hvers konar prófanir það eru sem einstaklingum stendur til boða að kaupa beint frá framleiðendum, hvaða upplýsingar prófanirnar gefi og hverjar séu takmarkanir þeirra. Í tilfelli Íslenskrar erfðagreiningar eru það ekki heilbrigðisstarfsmenn sem sjá um sýnatöku og ákvörðun um framkvæmd prófsins er án þeirra milligöngu. Engum blöðum er um það að fletta að upplýsingarnar sem hægt er að fá frá ÍE eru læknisfræði, eining ríkir ekki um hvort hér sé um heilbrigðisþjónustu að ræða.

Ég vil eindregið hvetja félagsmenn til að kynna sér álit Siðfræðiráðs sem birt er á heimasíðu LÍ, www.lis.isÞetta vefsvæði byggir á Eplica