02. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Skráningin er lagaskylda. Viðtal við Sigurð Guðmundsson

Á dögunum var haldinn fjölmennur fundur á vegum Læknafélags Reykjavíkur þar sem fundarefni var skráning sjálfstætt starfandi sérfræðinga á upplýsingum í sjúkraskrár Landlæknisembætt- isins. Upphaf þessa má rekja til bréfs er landlæknir sendi út í maí í fyrra þar sem boðað var að upplýsingaskráningin myndi hefjast í byrjun þessa árs. Þegar erindið var svo ítrekað undir lok ársins kom það flatt upp á marga og þótti þeim sem þetta hefði ekki verið nægilega vel kynnt og fyrirvarinn væri of stuttur. Fundurinn var því haldinn til að skýra nánar hvað í þessu fælist og Læknablaðið fékk Sigurð Guðmundsson landlækni til að skýra í nokkrum orðum um hvað málið snýst.

Sigurður Guðmundsson"Landlæknisembættið safnar upplýsingum í ýmsar skrár á landsvísu. Þar má nefna fæðingaskrá, dánarmeinaskrá, smitsjúkdómaskrá, lyfja- skrá, slysaskrá og krabbameinsskrá. Einnig er safnað upplýsingum frá sjúkrahúsum landsins, eins konar útskriftarskrá, samskiptaskrá úr heilsugæslunni. Allt þjónar þetta þeim tilgangi að hafa sýn yfir hvað heilbrigðisþjónustan er að gera og hverjum hún sinnir, og út frá þessu er síðan reynt að meta árangurinn og umfangið. Það gefur einnig augaleið að upplýsingar af þessu tagi eru ómetanlegur fjársjóður fyrir faraldursfræðilegar rannsóknir af ýmsum toga. Í þessum skráningum hefur hins vegar verið stórt gat og það snýr að sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Einu upplýsingarnar um hvað þeir eru að gera og hverju þeir sinna birtast í reikningum sem þeir senda til Tryggingastofnunar. Þar eru vissulega upplýsingar um sjúklinginn en engar upplýsingar um tilefni heimsóknarinnar eða hver niðurstaðan af heimsókninni varð; engin sjúkdómsgreining eða upplýsingar um úrlausn nema að mjög litlu leyti. Það er satt að segja dálítið merkilegt að hugsa til þess að ríkið hafi áratugum saman samið við sérfræðinga án þess að nokkurn tíma hafi í rauninni legið fyrir hvað þeir eru að gera; um hvað raunverulega er verið að semja. Spjótin hafa staðið á okkur um hríð að fá þessar upplýsingar frá sérfræðingunum á sama hátt og við fáum þær frá öðrum aðilum."

Sigurður segir að hugmynd hafi kviknað fyrir 4-5 árum að tengjast upplýsingaöflun Tryggingastofnunar þar sem svo litlu hafi í raun þurft að bæta við til að fylla út í myndina. "Þetta gekk einhvern ekki nógu vel upp og ég hef satt að segja ekki skýringu á því en við ákváðum sem sagt að fara aðra leið og gera þetta sjálfstætt og sendum út bréf til sérfræðinganna í maí í fyrra. Viðbrögð þeirra voru almennt mjög góð og síðan tóku gildi lög 1. september sl. þar sem þessi upplýsingaöflun er orðin lagaskylda. Í lögunum eru sérstaklega tilteknar sjö skrár sem safna skuli upplýsingum í án samþykkis sjúklinga. Í kjölfarið sendum við út bréf í desember þar sem óskað var eftir ákveðnum lágmarksupplýsingum sem höfðu verið skilgreindar árið 2002 fyrir sjálfstæða sérfræðinga og heilsugæsluna. Sumum fannst þetta allbratt af stað farið og eftir á að hyggja má vel vera að þetta hafi mátt vera betur undirbúið af okkar hálfu. Hugsanlega hefðum við átt að skilgreina betur einstaka hópa áður en bréfið var sent út. Það var greinilegt að þetta kom flatt upp á suma og ég hugsa að flestir þeirra séu einyrkjarnir í hópi sérfræðinga, þeir sem ekki hafa skipulagt skráningarkerfi einsog stærri stofurnar þar sem fleiri sérfræðingar eru saman um rekstur. Við þurfum því að finna leið til að mæta mismunandi aðstæðum allra en um leið uppfylla lagaskylduna sem á okkur hvílir."

Sigurður bætir við að viðræður við Tryggingastofnun hafi verið teknar upp aftur og það hafi komið fram greinileg ósk á fundi LR að hafa þetta skráningarkerfi sem einfaldast. "Við viljum auðvitað hafa þetta eins einfalt og kostur er og koma í veg fyrir tvíverknað. Samstarf við Tryggingastofnun um þessa upplýsingaöflun myndi eflaust gera það. Við eigum í rauninni þegar fyrirmynd að slíkri skráningu þar sem er lyfjagagnagrunnurinn. Þar fær Tryggingastofnun þær upplýsingar sem hún þarf á að halda og við okkar."

Á fundinum kom fram að sérfræðingar horfa til þess að þetta taki upp dýrmætan tíma þeirra og vilja að þessi viðbótarskráning sé metin á þeim forsendum. "Menn spyrja auðvitað hver eigi að borga þetta og við getum lítið annað en vísað til samninga sérfræðinga við ríkið. Það má sannarlega segja að það sé hluti af verki læknis að skrá niður hvað var gert í hverju tilviki. William Mosler sagði fyrir hundrað árum að það sem ekki er skráð hefur ekki verið gert og það á enn við í dag."

Niðurstaða fundarins var að sögn Sigurðar á jákvæðum nótum og reynt yrði að koma til móts við óskir sérfræðinganna um að einfalda skráninguna eftir því kostur er. "Við tökum okkur þann tíma sem þarf til að gera þetta almennilega en þó þarf þetta að komast í gagnið innan árs. Lögin hafa þegar tekið gildi og á döfinni er ný ríkisstofnun, Sjúklingatrygging, sem á að annast kaup á allri heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins af öllum sem veita hana, hvort sem það eru sjúkrahús, heilsugæsla eða sjálfstætt starfandi sérfræðingar. Ef þessi stofnun á að gegna hlutverki sínu verður hún að hafa aðgang að þessum upplýsingum frá öllum aðilum heilbrigðisþjónustunnar. Það er alveg ljóst."

"Þarf að komast í gagnið á næstu 12 mánuðum," segir Sigurður Guðmundsson landlæknir um skráningu upplýsinga frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica