01. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Tveir úrskurðir siðanefndar LÍ

Úrskurðirnir eru birtir í Læknablaðinu skv. tilmælum siðanefndar

Ár 2007, föstudaginn 7. desember, kom Siðanefnd Læknafélags Íslands saman í fundarsal í húsakynnum Læknafélags Íslands að Hlíðasmára 8, Kópavogi. Nefndina skipa Allan V. Magnússon, formaður, Ingvar Kristjánsson læknir og Stefán B. Matthíasson læknir.

Fyrir var tekið erindi stjórnar Læknafélags Íslands frá 26. október 2005 vegna ummæla Kára Stefánssonar í Kastljósþætti 2. nóvember 2005.

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dagsettu 24. nóvember 2005 skýrði formaður Læknafélags Íslands frá því að stjórn félagsins hefði ákveðið á fundi sínum hinn 22. nóvember 2005 að óska eftir því við Siðanefnd Læknafélags Íslands að hún tæki til umfjöllunar og úrskurðar, eftir því sem við ætti, kvörtun vegna háttsemi sem kynni að stríða gegn siðareglum Læknafélags Íslands.

Segir síðan að sú háttsemi sem kvartað sé undan sé hvort Kári Stefánsson læknir hafi með ummælum sínum um Jóhann Tómasson, sem hann lét falla í lok sjónvarpsviðtals í Kastljósi þann 2 nóvember 2005 þar sem hann sagði m.a., samkvæmt því sem fram kemur í þættinum sjálfum sem Siðanefnd hefur fengið afrit af, ... "etja Jóhanni á foraðið" ... og: "Einhverra hluta vegna þá hef ég fest þarna einhvers staðar inni í heilabúinu á honum og hann virðist eiga erfitt með að koma mér þaðan út," gerst brotlegur gegn siðareglum lækna.

Stjórn Læknafélags Íslands hefur ekki látið mál þetta til sín taka að öðru leyti en því að óska álits Siðanefndar á því hvort Kári Stefánsson hafi gerst brotlegur gegn siðareglum lækna með einhverjum af ummælum sínum um Jóhann Tómasson lækni í fyrrnefndu viðtali.

Af hálfu Kára hefur verið tekið til varna og þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum Læknafélags Íslands.

Eftirfarandi orðaskipti áttu sér m. a. stað í Kastljósþætti í sjónvarpinu 2. nóvember 2005:

J.V (fréttamaður): Ég er eiginlega að spyrja að því hvort að þú hafir eitthvað beitt þessa ritnefnd einhverjum þrýstingi til þess að gera eitthvað í þessu máli?

K.S: (Kári Stefánsson): Nei, það hef ég ekki. Og það er ekkert á hennar valdi að gera nokkurn skapaðan hlut í þessu máli. Mér finnst þetta hljóma, sko ef ég svona tek skref afturábak og velti því fyrir mér hvers vegna birta þeir svona grein þá fæ ég raunverulega ekki séð að baki því búi nokkur skapaður hlutur sem að skiptir máli. Það má vera að þarna séu einhverjar hreytur af deilunni um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði, það má vel vera að þarna sé þreyttur ritstjóri, þreyttur ábyrgðarmaður sem nennir þessu ekki lengur og er að bíða eftir að einhver ýti honum til hliðar því að ég fæ ekki séð að hann fái nokkurn skapaðan hlut út úr þessu að etja Jóhanni á foraðið, manni sem er búinn að skrifa eins og ég segi tugi greina um mig í Morgunblaðið þar sem er alveg ljóst og þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að Jóhanni Tómassyni er ekkert sérstaklega vel við mig. Einhverra hluta vegna hef ég fest þarna einhvers staðar inni í heilabúinu á honum og hann virðist eiga erfitt með að koma mér þaðan út. Ég held að það hljóti að vera mjög erfitt .... Skelfing hlýtur að vera erfitt að vera með mann eins og mig á heilanum."

 

Lögmaður Kára Stefánssonar gerir þá aðalkröfu að máli þessu verði vísað frá Siðanefnd Læknafélags Íslands en til vara að Siðanefndin úrskurði að Kári hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur LÍ.

Samkvæmt gögnum málsins komi fram að stjórn Læknafélags Íslands hafi vísað málinu til siðanefndar í tilefni af bréfi Páls Þorgeirssonar læknis til stjórnarinnar dags. 10. nóvember 2005, þar sem hann reki meint ummæli Kára Stefánssonar í umræddum Kastljósþætti. Páll hafi síðan skrifað annað bréf beint til siðanefndarinnar dags. 21. desember 2005 með "viðbótarábendingum" í fjórum liðum. Jafnframt fylgdi erindinu "eftirprentun af síðasta hluta umrædds Kastljósviðtals við Kára Stefánsson".

Ekki sé hægt að ráða af erindi Siðanefndar til undirritaðs að fyrrgreindar "viðbótarábendingar" Páls Þorgeirssonar læknis séu til umfjöllunar hjá nefndinni og sé því ekki frekar fjallað um þær, heldur einungis litið til þeirra ætluðu ummæla Kára Stefánssonar sem rakin eru í bréfi nefndarinnar til lögmannsins frá 23. nóvember 2006.

Aðalkrafa um frávísun málsins sé byggð á því að alls sé óvíst hvaða ummæli hafi verið höfð uppi í umræddum sjónvarpsþætti. Kári Stefánsson muni eftir því að hafa komið fram í þættinum en ekki nákvæmlega hvað hann hafi sagt. Í ljósi þessa sé ósannað hvaða ummæli Kári hafi haft uppi í sjónvarpsþættinum og því rétt að vísa málinu frá.

Hér beri einnig að líta til þess að Jóhann Tómasson hafi ekki haft uppi neinar kröfur í málinu og ekkert liggi frammi um umboð til Páls Þorgeirssonar til að koma fram fyrir hans hönd. Þótt stjórn LÍ geti beint málum til Siðanefndar að eigin frumkvæði sé rétt að túlka siðareglurnar þannig að það komi helst til álita þegar enginn aðili sé til að sækja mál. Meginreglur laga um aðildarskort eigi því að leiða til frávísunar, hvort sem litið er til reglna réttarfarslaga eða stjórnsýslulaga.

Þá geri hvorki kærandinn Páll eða stjórn LÍ tilraun til þess að útskýra hvað það sé í ætluðum orðum Kára Stefánssonar sem sé aðfinnsluvert og hann hafi ekki hugmynd um það heldur. Orðin sem fallið hafi séu ekki stóryrði á neinn mælikvarða.

Telji nefndin sannað að Kári Stefánsson hafi haft uppi þau ummæli sem Páll Þorgeirsson eignar honum er þess krafist að Siðanefnd úrskurði að ummælin hafi ekki brotið gegn siðareglum LÍ.

Jóhann Tómasson læknir hafi veist að Kára Stefánssyni með afar rætnum og ósmekklegum hætti í grein sinni í 9. tbl. Læknablaðsins 2005. Sú grein hafi hleypt af stað miklu fjölmiðlafári sem Kári Stefánsson hafi í engu átt upptök að, m.a. hafi grein Jóhanns verið fyrsta frétt í aðalfréttatíma Ríkissjónvarpsins hinn 20. september 2005. Í framhaldi af henni hafi Kára Stefánssyni verði boðið í viðtal í Kastljósi, væntanlega til að bera af sér ásakanir Jóhanns um að hann væri óhæfur læknir sem ekki hefði gilt lækningaleyfi og það væri hneyksli að hann hefði verið fenginn til að leysa af í sumarleyfum á LSH. Í slíkri umfjöllun sé mjög nærtækt að velta fyrir sér hverju það geti sætt að ritstjóri Læknablaðsins hafi birt slíka grein og hvað hafi rekið greinarhöfund til að rita hana, m.a. í ljósi þess að hann hafði áður ritað fjölmargar greinar af svipuðum toga þar sem hann veittist að Kára með ósæmilegum hætti.

Kári hafi væntanlega reynt eftir bestu getu að útskýra málið. Ummælin sem höfð eru eftir honum séu frekar lágstemmd og eðlileg miðað við stöðu málsins á þeim tíma sem þau eiga að hafa fallið. Í þessu sambandi beri að líta til meginreglna laga um heimildir þeirra sem verði fyrir ærumeiðingum til að bera hönd fyrir höfuð sér, m.a. með orðhefnd, þótt því sé ekki haldið fram hér að þau ummæli sem Kára eru eignuð séu svo sterk að fallið geti undir lagalega skilgreiningu á hugtakinu orðhefnd, þótt heimil væri. Það er því ljóst að ummæli Kára Stefánssonar um Jóhann Tómasson lækni hafi á allan hátt verið mun hófstilltari en tilefni hefði verið til, miðað við þær ærumeiðingar sem hann hafði áður mátt þola af hendi Jóhanns. Af þessum atvikum öllum sé ljóst að engin ástæða er til að óttast að meint ummæli Kára hafi brotið gegn siðareglum LÍ.

Málið var að svo búnu lagt í úrskurð Siðanefndar og taldi lögmaður Kára Stefánssonar ekki ástæðu til að fram færi frekari sönnunarfærsla fyrir nefndinni eða munnlegur málflutningur.

 

NIÐURSTAÐA

Nefndin hefur aflað sér afrits upptöku á umræddum Kastljósþætti og lítur hér aðeins til þeirra ummæla sem greind eru í bréfi nefndarinnar til lögmanns Kára Stefánssonar frá 23. nóvember 2006. Þykja ekki efni til að vísa máli þessu frá nefndinni að fengnum þessum gögnum þar sem ummæli Kára Stefánssonar komu fram í umræddum þætti.

Með úrskurði Siðanefndar Læknafélags Íslands, uppkveðnum nú í dag, kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að Jóhann Tómasson læknir hafi með tilteknum ummælum um starfsbróður sinn Kára Stefánsson sem er að finna í grein Jóhanns í Læknablaðinu gerst brotlegur við Siðareglur lækna. Þau ummæli voru tilefni þess að umrætt viðtal við Kára Stefánsson átti sér stað.

Í 3. mgr. 22. gr. Siðareglna lækna er að finna eftirfarandi ákvæði:

Lækni er skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum, í ræðu og riti og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.

Það er álit Siðanefndar að með orðunum "... etja Jóhanni á foraðið ... " sé gefið í skyn að Jóhann Tómasson hafi skrifað grein sína að undirlagi annarra og er það auk orðalagsins "Einhverra hluta vegna þá hef ég fest þarna einhvers staðar inni í heilabúinu á honum og hann virðist eiga erfitt með að koma mér þaðan út" niðrandi í garð Jóhanns og telur lækni ekki sæmandi að tala svona um starfsbróður sinn. Telur nefndin það engu máli skipta hér að Jóhann Tómasson hafði viðhaft ummæli um Kára sem nefndin telur brjóta gegn siðareglum lækna í umræddri grein. Samkvæmt þessu telur nefndin að Kári Stefánsson hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. 22. gr. siðareglna lækna í umræddum þætti hinn 2. nóvember 2005.

Af hálfu stjórnar Læknafélags Íslands hefur engin krafa komið fram um að Kári Stefánsson verði beittur viðurlögum vegna brots á siðareglum lækna og telur nefndin í ljósi þess að ekki séu efni til þess að áminna lækninn vegna þessa brots hans.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Læknirinn Kári Stefánsson braut gegn siðareglum lækna með eftirfarandi ummælum í viðtali í Kastljósþætti sjónvarpsins 2. nóvember 2005:

... "etja Jóhanni á foraðið" ... og "Einhverra hluta vegna þá hef ég fest þarna einhvers staðar inni í heilabúinu á honum og hann virðist eiga erfitt með að koma mér þaðan út".

 

Allan V. Magnússon

Ingvar Kristjánsson

Stefán B. Matthíasson

 

 

 

 




Ár 2007, föstudaginn 7. desember, kom Siðanefnd Læknafélags Íslands saman í fundarsal í húsakynnum Læknafélags Íslands að Hlíðasmára 8, Kópavogi. Nefndina skipa Allan V. Magnússon, formaður, Ingvar Kristjánsson læknir og Stefán B. Matthíasson læknir.

Fyrir var tekið erindi stjórnar Læknafélags Íslands frá 26. október 2005 vegna greinar Jóhanns Tómassonar í 9. tbl. 91. árgangs Læknablaðsins.

 

ÚRSKURÐUR

Með bréfi dagsettu 26. október 2005 skýrði settur formaður Læknafélags Íslands frá því að stjórn félagsins hefði ákveðið á fundi sínum hinn 25. október 2005 að óska eftir því við Siðanefnd Læknafélags Íslands að hún tæki til umfjöllunar og úrskurðar, eftir því sem við ætti, kvörtun vegna háttsemi sem kynni að stríða gegn siðareglum Læknafélags Íslands.

Segir síðan að sú háttsemi sem kvartað sé undan sé hvort Jóhann Tómasson læknir hafi í grein sem hann hafi fengið birta í 9. tbl. 91. árgangs Læknablaðsins 2005 "Nýi sloppur keisarans" gerst brotlegur gegn siðareglum lækna með einhverjum af ummælum sínum um Kára Stefánsson lækni.

Greinin hljóðar svo:

"FORSTJÓRI Íslenskrar erfðagreiningar stendur vaktina þessa dagana í afleysingum á taugasjúkdómadeild Landspítalans." Þannig byrjaði Bogi Ágústsson stórfrétt ríkissjónvarpsins mánudaginn 18. júlí síðastliðinn. Daginn áður höfðu bæði stóru dagblöðin boðað tíðindin á forsíðu.

Þessi afleysing Kára Stefánssonar á taugadeild Landspítala var slíkt dómgreindarleysi og reginhneyksli að efast verður alvarlega um hæfi stjórnenda hins ríkisrekna heilbrigðiskerfis. Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi, útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi, sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum, eru því sennilega ólögleg.

Ferill Kára í verklegu og klínísku námi í læknadeild Háskóla Íslands og á kandídatsári var með endemum. Um það getur heill her skólafélaga hans vitnað og fjölmargir aðrir. Þar á meðal núverandi landlæknir, þá formaður félags læknanema. Kári fékk lækningaleyfi með undanþágu í júní 1977, þar sem hann var látinn undirrita eið, í vitna viðurvist, um að ljúka héraðsskyldu við fyrsta tækifæri, enda "væri mér ljúft að heita því að gera það að loknu sérnámi". (Sjá Guðni Th. Jóhannesson: "Kári í jötunmóð".)

Kári hefur ekki starfað sem læknir á Íslandi frá árinu 1977.

Í nærfellt áratug hefur hann ekkert starfað sem læknir. Þar áður vann Kári einkum við rannsóknir. Engu að síður er hann ráðinn til að "standa vaktina" á taugadeild Landspítala í fimm daga. Stekkur svo burt í miðju kafi til að opna hlutabréfamarkað í New York. Hvernig getur svona gerzt á æðstu heilbrigðisstofnun íslands? Er þetta leikhús? Það voru ekki gæði og traust sem þarna réðu ferð. Ekki einu sinni margrómað frelsi fólks til að velja sjálft lækni. Er ekkert gæðaeftirlit með ráðningum lækna? Beztu og færustu læknum þykir erfitt að taka upp þráðinn eftir nokkurra mánaða hlé. Hvað segir yfirstjórn spítalans? Gaf hún leyfi fyrir þessari ráðningu? Eins og sérstaklega var tekið fram í fréttatilkynningu að stjórn deCODE hefði gert. Hvað segir landlæknir? Veitti hann frekari undanþágu á lækningaleyfinu?

Kári talaði um "elegant tillögu" Elíasar Ólafssonar yfirlæknis taugadeildar. I sjónvarpinu 18. júlí sl. hafði hann eftir Elíasi "að þetta væri sniðug aðferð til þess að gera þessa góðu samvinnu ennþá betri, milli spítalans og Íslenskrar erfðagreiningar".

Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Er það aðferðin til að bæta enn frekar samvinnu íslenskrar erfðagreiningar og Landspítala að bjóða Kára vinnu á taugadeild? Skuldar taugadeildin Kára eitthvað? Hvað kemur næst?

Við sem störfum sem læknar alla daga vikunnar hljótum að spyrja. Megum við eiga von á svona þjónustu við sjúklinga okkar, þegar við vísum þeim á Landspítala að vandlega athuguðu máli? Eru engin takmörk fyrir því hve hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi ætlar að leggjast lágt í siðleysinu?

 

Stjórn Læknafélags Íslands hefur ekki látið mál þetta til sín taka að öðru leyti en því að óska álits Siðanefndar á því hvort Jóhann Tómasson hafi gerst brotlegur gegn siðareglum lækna með einhverjum af ummælum sínum um Kára Stefánsson lækni í fyrrnefndri grein í Læknablaðinu.

Af hálfu Jóhanns hefur verið tekið til varna og þess krafist að hann verði sýknaður af kröfum Læknafélags Íslands.

Af hálfu Jóhanns var þess krafist að siðanefndarmaðurinn Þórður Harðarson viki sæti við meðferð málsins. Hafði hann, sem er varamaður, verið kvaddur til starfa í nefndinni af formanni vegna óskar Ásgeirs B. Ellertssonar læknis um að taka ekki sæti í nefndinni við meðferð máls þessa. Þórður óskaði eftir að verða leystur frá starfa sínum í nefndinni að framkominni þessari kröfu og var orðið við þeirri ósk. Þá óskaði varamaður Birgir I. Guðjónsson eftir því að taka ekki sæti í nefndinni vegna starfstengsla við Jóhann Tómasson en þeir starfa á sömu heilsugæslustöð.

Nefndarmennirnir Allan Vagn Magnússon og Stefán B. Matthíasson kvöddu því Ingvar Kristjánsson lækni til starfa í nefndinni án þess að það sætti andmælum eða athugasemdum af hálfu aðila en þeim gafst kostur á að koma þeim að.

Þá hefur Jóhann Tómasson beint kæru að 21 nafngreindum læknum en þar er þess krafist að siðanefnd LÍ kveði á um að kærðu hafi brotið gegn siðareglum LÍ og finni að háttsemi þeirra og veiti þeim formlega áminningu. Þessi kæra verður tekin til meðferðar í öðru máli.

Í greinargerð lögmanns Jóhanns, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., kveður hann upphaf máls þessa vera til þess að rekja að Jóhann Tómasson, læknir, ritaði grein í Læknablaðið 9. tbl. 2005 undir fyrirskriftinni ?Nýi sloppur keisarans?. Grein þessi hafi einnig birst á vefsíðum LÍ, svo sem annað efni í Læknablaðinu. Tilefnið hafi verið að birst höfðu fréttir í fjölmiðlum um vikuráðningu læknis til afleysinga á taugasjúkdómadeild Landspítalans. Hinn 17. júlí 2005 muni tvö af stóru dagblöðunum hafa birt tíðindin á forsíðu sinni og í ríkissjónvarpinu hafi frétt hafist með þessum orðum Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar stendur vaktina þessa dagana í afleysingum á taugasjúkdómadeild Landspítalans. Muni hafa staðið til að Kári Stefánsson læknir leysti af á greindri deild í eina viku. Fyrrnefnd auglýsingamennska af hálfu læknisins sé brýnt brot á upphafsákvæði 20. gr. siðareglna LÍ þar sem segi að lækni sé ósæmandi að vekja á sér ótilhlýðilega athygli. Jóhann Tómasson hafi hins vegar verið að gæta skyldu sinnar skv. 3. mgr. 5. gr. siðareglna LÍ þar sem segir að lækni sem fær vitneskju um aðstæður sem hann telur faglega óviðunandi sé skylt að gera grein fyrir þeim skoðunum sínum. Jóhann hafi talið eðlilegast að gera grein fyrir þessum skoðunum sínum á viðeigandi stað, sem sé Læknablaðið, sem muni berast til flestra eða allra lækna í landinu. Hafi hann vakið athygli á því að Kári Stefánsson hefði "skilyrt, takmarkað lækningaleyfi útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977." Þær tvær setningar sem lögmaðurinn lýsir sem tilefni Siðanefndar máls þessa eru sem hér segir:

Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi og útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum eru því sennilega ólögleg.

Margvísleg viðbrögð hefðu orðið við þessum ummælum, annars vegar hjá stjórn Læknafélags Íslands og hins vegar hjá Kára Stefánssyni. Lögmaður Kára Stefánssonar hafi ritað ábyrgðarmanni Læknablaðsins bréf 12. september 2005 og talið að í greininni hafi verið veist að Kára Stefánssyni og starfsheiðri hans sem læknis og telji hann ummæli Jóhanns vera "svigurmæli". Hinn 21. nóvember 2005 hafi Læknablaðið sent Jóhanni Tómassyni upplýsingar um og kynnt honum að grein hans hefði verið ritskoðuð og teknar tvær setningar úr greininni á vefsíðu. Jafnframt hafi honum verið send bréfaskipti (föxuð) um málið sem fyrirhugað hafi verið að birta í blaðinu í desember 2005. Hinn 21. nóvember 2005 hafi Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur ritað Kára Stefánssyni bréf þar sem vísað sé í grein Jóhanns og sagt að þar sé gefið í skyn að Kári stundi lækningar án tilskilinna leyfa. Síðan segi orðrétt "þetta hefur reynst að vera rangt. Þú ert beðinn afsökunar á því að þessi ummæli skyldu hafa birst í Læknablaðinu. Þau verða umsvifalaust fjarlægð úr netútgáfublaðsins. Greinin í heild er til umfjöllunar hjá siðanefnd LÍ að beiðni stjórnar LÍ og mun nefndin skera úr um hvort þörf sé frekari aðgerða." Hér kveður lögmaður Jóhanns Tómassonar ekki vera farið með rétt mál. Landlæknir Sigurður Guðmundsson hafi vitað eða átt að vita að það lækningaleyfi sem hann vitni til í yfirlýsingunni og hafði verið gefið út 10. júní 1977 hafi þá fyrst orðið gefið út þegar Kári Stefánsson hefði undirgengist að uppfylla skilyrði lækningaleyfis að lokinni námsdvöl í Ameríku. Með þessu vottorði virðist Sigurður Guðmundsson, læknir, hafa stuðlað að þeirri trú stjórnar Læknafélags Íslands og fleiri að Kári Stefánsson hefði raunverulega haft skilyrðislaust lækningaleyfi allt frá 1977. Lögmaðurinn telur að sú undanþága sem Kári Stefánsson fékk til að unnt væri að veita honum lækningaleyfi 1977 eigi sér ekki neina lagastoð og hafi allir aðrir læknar sem útskrifuðust um svipað leyti úr læknadeild HÍ orðið að gegna læknisskyldu sinni í héraði eins og kallað er, áður en þeir hafi getað hafist handa um framhaldsnám í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta skipti miklu máli þar sem verið hafi verið að breyta reglum í Bandaríkjunum um aðgang erlendra lækna að framhaldsnámi þar og hafi það getað seinkað framhaldsnáminu og gert það hjá þeim sem orðið hafi að fara að lögum og gegna héraðsskyldu. Undan því hafi Kári Stefánsson hins vegar komist með heitvinningu sinni hjá landlæknisembættinu. Samkvæmt þessu teljist sannað að lækningaleyfi Kára Stefánssonar hafi verið skilyrt þótt það kæmi ekki fram í lækningaleyfinu sjálfu, enda hefði það þá verið ógilt. Í stað þess að færa skilyrðið inn í lækningaleyfið hafi það verið sett á sérstakt skjal og Kári Stefánsson látinn vinna það heit að standa við skilyrðið. Það hafi Kári Stefánsson ekki gert að því er best sé vitað og hafi því enn ekki uppfyllt skilyrðið, en hann geti að sjálfsögðu gert það þótt síðar verði. Almennt lækningaleyfi sé forsenda sérfræðilækningaleyfis og hefði því ekki átt að veita Kára Stefánssyni það leyfi nema að uppfylltu skilyrðinu.

 

 

NIÐURSTAÐA

Af hálfu Jóhanns hefur verið bent á ákvæði 3. mgr. 5. gr. siðareglna lækna sem tók gildi í september 2005. Segir þar að lækni sem fái vitneskju um aðstæður sem hann telur faglega óviðunandi sé skylt að gera grein fyrir þeim skoðunum sínum.

Umfjöllun Jóhanns um þá ákvörðun að Kári Stefánsson leysti af lækna á taugadeild Landspítalans felur í sér mjög hvassa gagnrýni á þá ráðstöfun. Kemur þar fram mikil vandlæting greinarhöfundar á ráðstöfun þessari sem hann er augljóslega mjög ósáttur við. Kári Stefánsson hefur kært ritstjóra Læknablaðsins til siðanefndar vegna þess að greinin var birt í blaðinu og telur að í greininni veitist höfundur að sér og starfsheiðri sínum sem læknir.

Til þess ber að líta að því eru takmörk sett hverjar skorður læknum eru settar þegar þeir fjalla um störf starfssystkina sinna. Of þröng túlkun gæti leitt til þess að menn teldu sér ekki fært að fjalla um menn eða málefni af ótta við að verða sakaðir um brot á siðareglum stéttarinnar og telur Siðanefnd að það sé til þess fallið að hamla eðlilegri umræðu.

Því telur nefndin að ekkert hafa verið því til fyrirstöðu að fjallað var um ráðningu Kára Stefánssonar til afleysinga á taugadeild Landspítalans í grein í Læknablaðinu umrætt sinn. Verður enda að játa höfundi svigrúm í þessu efni með vísan til grunnraka þeirra sem liggja að baki ákvæðis 3. mgr. 5. gr. siðareglna lækna.

Enda þótt nefndin telji að greinarskrifin í heild sinni feli ekki í sér brot á siðareglum lækna segir þar á einum stað:

Ferill Kára í verklegu og klínísku námi í læknadeild Háskóla Íslands og á kandídatsári var með endemum.

Orð þessi verða engan veginn talin fela í sér háttvísi í umtali greinarhöfundar um starfsbróður sinn og fela þau í sér brot á 3. mgr. 22. gr. siðareglna lækna þar sem segir:

Lækni er skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum, í ræðu og riti og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.

Þá segir í greininni:

Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi, útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi, sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum, eru því sennilega ólögleg.

Leyfi það sem hér ræðir um er gefið út af heilbrigðisráðherra og ekkert kemur fram um að ráðherra hafi bundið það skilyrðum eða takmörkunum. Er því sú fullyrðing að Kári Stefánsson hafi skilyrt, takmarkað lækningaleyfi röng, enda þótt greinarhöfundur álíti að læknirinn hefði ekki fullnægt þeim skilyrðum sem giltu um útgáfu lækningaleyfis í júnímánuði 1977. Þá segir að önnur lækningaleyfi sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi veitt Kára Stefánssyni séu sennilega ólögleg. Þetta er til þess fallið að rýra traust og álit starfsbróður Jóhanns og telur Siðanefnd að ummæli þessi feli í sér brot á fyrrgreindu ákvæði siðareglna lækna.

Að öðru leyti telur Siðanefnd greinarskrif læknisins ekki fela í sér brot á siðareglum lækna.

Af hálfu stjórnar Læknafélags Íslands hefur engin krafa komið fram um að Jóhann verði beittur viðurlögum vegna brots á siðareglum og telur nefndin í ljósi þess að ekki séu efni til þess að áminna lækninn vegna þessa brots hans.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Læknirinn Jóhann Tómasson braut gegn siðareglum lækna með eftirfarandi ummælum í grein hans sem birtist í 9. tbl. 91. árgangs Læknablaðsins:

"Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi, útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi, sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum, eru því sennilega ólögleg."

"Ferill Kára í verklegu og klínísku námi í læknadeild Háskóla Íslands og á kandídatsári var með endemum."

 

Allan V. Magnússon

Ingvar Kristjánsson

Stefán B. Matthíasson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica