01. tbl. 94. árg. 2008

Umræða og fréttir

Tæknipistill 3: Minna þekktir krókar og kimar LÍ-vefsins

Davíð B. ÞórissonÉg sit heima hjá mér með nýlagað Lavazza kaffi og ákveð með sjálfum mér að nú sé kominn tími til að skoða króka og kima nýju Læknafélagssíðunnar. Mér skilst að það sé margt þar að finna sem ekki blasir við manni við fyrstu sýn.

 

Innskráning

Þegar ég opna síðuna er ég ekki innskráður og ég er að sjálfsögðu búinn að gleyma leyniorðinu. Með því að smella á litlu örina hægra megin við innskráningarreitina tvo fæ ég upp síðu þar sem ég get látið senda mér leyniorðið með tölvupósti. Heppilegt að ég var nýlega búinn að uppfæra netfangið, annars hefði ég þurft að trufla hressu dömurnar á skrifstofu LÍ! Skömmu síðar fæ ég leyniorðið í pósthólfið mitt. Ég skrái mig inn með kennitölu og leyniorði og þar sem ég er núna að vinna á minni eigin fartölvu sem enginn annar á að hafa aðgang að, leyfi ég mér að haka við "muna aðgang næst". Þá opnast vefurinn næst með mig fyrirfram innskráðan, það er býsna þægilegt.

Ef notandi skráir sig inn á opinni tölvu er auðvelt að eyða sjálfvirkri innskráningu, einfaldlega með því að skrá sig út í stað þess að bara loka vafranum.

 

 

Athugasemdir

Eftir innskráningu er ég strax færður á forsíðu FUL og sé þar nýjustu fréttir, umræður og atburði sem tilheyra svæðinu (ég var áður búinn að velja þessa stillingu á "mín síða". Það er nú eitthvað lítið um að vera þarna svo ég smelli á stóra Læknafélagsmerkið (uppi til vinstri) og fæ þá forsíðu LÍ-svæðisins. Þar sé ég talsvert meira enda virðist þar vera einhvers konar samansafn nýs efnis af öllum svæðum. Já heyrðu, þetta er athyglisvert - fyrir framan sumar fréttirnar sé ég litla talblöðru. Ég hafði ekki tekið eftir þessu áður en augljóslega er blaðran fyrir framan þær fréttafyrirsagnir þar sem félagsmenn hafa tjáð sig með athugasemdum. Ég var aldrei alveg sammála Gunnari Ármannssyni í seinasta föstudagsmola hans og ég sé að það eru fleiri svo ég smelli á fréttina og bauna á hann nokkrum línum, hann er nú sennilega vanur því, lögfræðingurinn sjálfur! Það virðist vera frekar einfalt þetta athugasemdakerfi, bara skrifa og smella á "vista"... skrýtið að kollegarnir hafi ekki tjáð sig oftar um málin - sennilega ekki jafnfeimnir og ég!

 

 

Umræður

Mig langar samt að skrifa aðeins meira um annað mál sem mér er umhugað um - staðsetning nýja spítalans ... algjör vansinna að setja spítalann svona langt frá miðpunkti höfuðborgarinnar. Ég er líka með myndir til að rökstyðja mál mitt og langar að birta og heyra skoðanir kollega. Hér ríkir sem betur fer málfrelsi svo ég stofna nýja umræðu eftir að hafa kynnt mér ferlið á leiðbeiningasíðunni.

Leiðbeiningarnar er alltaf auðvelt að nálgast, hvar sem þú ert staddur á vefnum með því að smella á hnappinn efst til hægri.

Ég sé að það eru nokkrar leiðir til að stofna nýja umræðu en sú auðveldasta mundi vera að nota fellivalmyndina á gráa, þunna kassanum ofarlega til vinstri sem er merkt "mín valmynd". Nú skulum við sjá, þarna koma upp ansi margir möguleikar sem þarf að skoða, staðsetning og aðgangur. Það er búið að forstilla fyrir mig umræðuna þannig að hún er opin öllum LÍ félagsmönnum svo ég þarf litlu að breyta þarna. Ég ætla að takmarka aðganginn þannig að bara vinnufélagarnir og stjórn LÍ hafi aðgang og vel þess vegna "sérsniðinn aðgangur". Eða nei annars, þetta varðar alla hina og bara betra að fá líflegri umræður - ég breyti aðganginum þannig að allir félagsmenn LÍ geti verið með. Þetta er ótrúlega einfalt, fyrirsögn og svo þrumuræðan mín í textareitina og vista ... Já einmitt - þarna uppi sé ég vinkandi hendi, stórsniðugt! Ég var nefnilega búinn að lesa það að þegar ný umræða er stofnuð eru send skilaboð á alla sem hafa aðgang. Nú vita allir af umræðunni sem ég var að stofna og auðvelt fyrir fólk að komast á hana með því að elta höndina. Æ og ó, þarna varð mér á í messunni. Ég hef verið eitthvað fljótfær með stafsetninguna - ég er alltaf að verða verri og verri með yfsilonin. Þetta er sem betur fer auðvelt að laga - ég smelli á litla strokleðrið og fæ þá upp reit til að breyta textanum. Slapp fyrir horn!

Eins og áður er að finna framhald á pistlinum á vefsíðu LÍ, slóðin er www.lis.is/Items/Default.aspx?b=2595.

dbt@hive.is

www.lis.is



Þetta vefsvæði byggir á Eplica