12. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Minning um Sigurð Þ. Guðmundsson, lækni

Nýlega var kvaddur hinstu kveðju Sigurður Þ. Guðmundsson læknir sem var einn af máttarstólpum meðal lyflækna á Íslandi í áratugi. Sigurður er okkur félögum hans og samferðamönnum ógleymanlegur fyrir margra hluta sakir. Hann setti mikinn svip á starfsemi Landspítalans og Félags íslenskra lyflækna um langt árabil, brúaði kynslóðabil í kennslu og tilsögn læknanema og ungra lækna og reyndist sjúklingum framúrskarandi fagmaður. Hann naut sín sérstaklega í umfjöllun um flókin úrlausnarefni í greiningu en var einnig fær og úrræðagóður í meðferð.

Sigurður hafði góða söngrödd og söng tenór í Karlakór Reykjavíkur. Þá var hann fastagestur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem við hittumst oft. Kynni mín af Sigurði voru þó fyrst og fremst í kringum golfið en þegar ég fór að reyna fyrir mér í þeirri íþrótt var hann búinn að spila í áratugi og ferðast víða með golfkylfurnar. Honum fór ágætlega að segja til í golfinu þótt það sé oft vandmeðfarið. Mér er sérstaklega eftirminnileg golfferð lækna til North Berwick í Skotlandi vorið 1996 en þar voru þeir Sigurður og Jón Þorgeir herbergisfélagar og manna reyndastir og skemmtilegastir þótt þeir væru komnir vel á sjötugsaldur. Þar var venjan að spila uppá bjór eða jafnvel gin og tónik ef mönnum þóttu sigurlíkur góðar. Sigurður gaf mér ágætis heilræði til að hægja á sveiflunni en það fólst í því að syngja í huganum lagið Dóná svo blá til þess að fá réttan rytma í hlutina.

Myndin sem fylgir með þessu greinarkorni er tekin á veröndinni við golfskálann á Seltjarnarnesi eftir verðlaunaafhendingu í læknamóti 22. ágúst 2003. Þar sést Sigurður glaður og hress að vanda í því fagra umhverfi sem hann kunni svo vel að meta. Þannig vil ég minnast Sigurðar míns merka samferðamanns og vinar.

Steinn Jónsson

 

 

Kveðja frá Félagi íslenskra lyflækna

Sigurður Þorkell Guðmundsson læknir lést 31. október síðastliðinn, 77 ára að aldri. Sigurður útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1957 og stundaði síðan framhaldsnám í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum og í Bandaríkjunum. Að því loknu starfaði hann á Landspítalanum allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Einnig starfrækti hann eigin lækningastofu. Sigurður var mjög farsæll læknir og var dáður af sjúklingum sínum enda sinnti hann þeim afar vel. Þá var hann góður kennari og smitaði gjarnan læknanema og unga lækna með áhuga sínum. Þrátt var erilsaman og langan vinnudag var Sigurður jafnan glaðsinna og því var gott að njóta nærveru hans. Hann hafði þannig jákvæð áhrif á starfsandann á Landspítalanum. Sigurður var alla tíð mjög atorkusamur því auk krefjandi læknisstarfs tók hann ríkan þátt í félagsstörfum og átti sér auk þess ýmis áhugamál sem hann sinnti af ástríðu. Þá gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstörfum í þágu lækna og var meðal annars formaður Félags íslenskra lyflækna 1965-68. Hann var frumkvöðull að vísindaþingum félagsins sem hafa verið haldin reglulega frá árinu 1973. Sigurður var öðrum lyflæknum góð fyrirmynd enda stundaði hann heildræna nálgun við meðferð og umönnun sjúklinga. Honum var vottuð virðing fyrir störf sín er hann var útnefndur heiðursfélagi í Félagi íslenskra lyflækna árið 1998. Tónlist skipaði stóran sess í lífi Sigurðar en var hann var fyrirtaks söngmaður og söng með Karlakór Reykjavíkur um árabil. Enn fremur var hann mjög liðtækur golfleikari.

Ég vil fyrir hönd Félags íslenskra lyflækna þakka Sigurði fyrir störf hans í þágu lyflækninga á Íslandi og votta aðstandendum hans samúð.

Runólfur Pálsson,

formaður Félags íslenskra lyflækna

Á myndinni eru frá vinstri: Steinn Jónsson, Þórarinn Arnórsson, Ólafur Á. Sveinsson, Sigurður Þ. Guðmundsson og Emil Sigurðsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica