11. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Um Þórð Sveinsson og upphaf Kleppsspítala. Jóhannes Bergsveinsson

Jóhannes BergsveinssonJóhannes var yfirlæknir áfengisskorar á geðdeild Landspítalans. Hann flutti erindi á þingi í tilefni af 100 ára afmæli Kleppsspítala. Erindið er birt hér örlítið stytt. Jóhannes var beðinn að minnast fyrsta sérmenntaða geðlæknisins á Íslandi, Þórðar Sveinssonar yfirlæknis Kleppsspítala. Höfundur hafði þann fyrirvara að hann væri ekki sagnfræðingur og hefði ekki hitt Þórð í lifanda lífi en hefði hins vegar oft heyrt hans getið og stundum gert grín að vatnslækningum hans á Kleppi. Síðar hafi hann viðað að sér rituðum heimildum um Þórð og ritað um hann grein í tímaritið Geðvernd árið 1999.

kleppur_minni_optVið skulum byrja rúmlega einni og hálfri öld áður en Kleppsspítalinn reis á Íslandi og víkja okkur til þáverandi höfuðborgar Íslands, Kaupmannahafnar. Þar var þá búsettur franskur silkikaupmaður Claudi Rosset að nafni, fæddur í Lyon, en fluttist til Danmerkur þar sem hann efnaðist á innflutningi og sölu á silki, skrautvörum og allskonar glingri, er hann flutti inn frá heimalandi sínu.

Vegna ýmissa tilviljana komst hann í snertingu við aumkunarverðar aðstæður geðsjúkra samborgara sinna, er hafði verið komið fyrir í "Pesthúsinu" svonefnda rétt utan við Vestur-Port. Þar var safnað saman þeim er samfélagið útskúfaði, svo sem langveikum, geðsjúkum og holdsveikum.

Rosset runnu aðstæður þeirra svo til rifja, að árið 1749 hófst hann handa við að miðla íbúum Pesthússins af auðlegð sinni. Í gjafabréfi sínu segir hann m.a.: " . . .en hef þó sérstaklega, úr öllum hinum þurfandi, valið sem mest þurfandi hina núverandi Pesthúslimi, en þá stofnun hef ég þekkt um margra ára skeið og yfir óskaplegri neyð lasburða og aldraðra lima hennar hefur hjarta mitt margoft hrærst, en flesta vantar þá bæði fatnað og rúm...."

Þannig hljóðar lýsing hins franska kaupmanns á aðstæðum geðsjúkra í Kaupmannahöfn um miðja 18. öld. Hún minnir óneitanlega á ýmsan hátt á lýsingu ungs héraðslæknis, Þorgríms Johnsens, á meðferð geðsjúkra á Íslandi er hann ritaði í ársskýrslu sína árið 1871:

Ég leyfi mér við þetta tækifæri að geta þess, að engir sjúklingar hér á landi eru svo illa settir sem hinir geðsjúku þar sem ekki er að finna eitt einasta geðveikrahæli hér á landi, og ég þekki mörg dæmi þess, að vegna þessara aðstæðna og til þess að gera þess háttar sjúklinga hættulausa, hafa menn neyðst til þess að grípa til þeirra villimannalegu aðgerða að loka sjúklingana inni í þröngum kössum með litlu opi fyrir andlitið. Þessir kassar eru síðan fluttir í eitthvert útihús til þess að sjúklingarnir trufli ekki ró annarra.

 

Kleppur

Ný öld var í þann mund að ganga í garð og mikill framfarahugur í mönnum. Nú skyldi ráðin bót á þessu ástandi. Alþingi samþykkti lög um stofnun geðveikrahælis 20. október 1905. Byggingaframkvæmdir við hælið hófust árið 1906 þar sem því hafði verið valinn staður á leigulóð í landi Klepps við Viðeyjarsund.

Jörðin Kleppur byggðist snemma úr landi Laugarness og var austasti hlut þess. Kleppur var talinn til eigna Viðeyjarklausturs í máldaga frá árinu 1234 og varð konungseign við siðaskiptin. Í Jarðabókinni frá 1703 er þess getið að ábúendur á Kleppi séu tveir. Búskapur þar hefur verið erfiður: "Túnin fordjarfast stórlega af sjávargangi. Engjar öngvar," segja Árni Magnússon og Páll Vídalín. Bærinn á Kleppi mun hafa staðið nokkru sunnar en Kleppsspítalinn stendur nú, en á 18. öld varð að flytja hann vegna sjávarágangs.

Árið 1817 keypti Magnús Stephensen Klepp ásamt Viðey. Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti síðan Klepp ásamt Laugarnesi árið 1885 og voru báðar jarðirnar innlimaðar í Reykjavík með lögum frá 1894. Kleppsspítalinn hefur því alla tíð staðið á leigulóð Reykjavíkur.

Byggingu hælisins lauk vorið 1907 og fyrstu sjúklingarnir voru innritaðir 27. maí sama ár. Opnun spítalans á Kleppi undir stjórn Þórðar Sveinssonar, yfirlæknis, var á sinni tíð merkisatburður í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Fram til þess tíma hafði meðferð geðveikra víða á Íslandi verið hin ömurlegasta.

 

Þórður Sveinsson

Þórður Sveinsson var bóndasonur úr Húnavatnssýslu, fæddur að Geithömrum í Svínadal 20. desember 1874. Hann ólst þar upp þegar hart var í ári, hafís fyrir landi og harðindi. Foreldrar hann voru fátækir, eignuðust sjö börn, en aðeins tvö komust til manns. Sjálf urðu þau ekki langlíf. Móðir hans dó 34 ára gömul þegar Þórður var 8 ára, og faðir hans dó 51 árs gamall á fermingarári Þórðar.

Þórður var aðframkominn af berklum sem barn, löngum rúmfastur, seinþroska, pasturslítill og kjarklaus. Þegar hann fór að reyna að vinna fyrir sér dugði hann illa til líkamlegra verka og varð að lúta því að vera rekinn úr vinnu. Hann þótti þó gott efni í fjármann, enda hafði hann á uppvaxtarárum sínum mesta yndi af kindum. Hann mun í eðli sínu hafa verið bóndi og unnandi allrar náttúru, enda kom það fram síðar.

Líf Þórðar tók aðra stefnu því fjárhaldsmaður hans sótti um vist fyrir hann í Möðruvallaskóla. Þangað fór Þórður árið 1893 og var þar í tvo vetur. Þar breyttist allt viðhorf hans til náms og framtíðar. "Ég fékk kjark og traust á sjálfum mér," segir hann í viðtali við Valtý Stefánsson, og frá Möðruvöllum fór ég eftir tveggja vetra nám, allur annar en ég kom þangað." Hann var nú ráðinn í því að halda áfram námi og sneri sér að því af þeim eldlega áhuga, dugnaði og kappi, sem honum var gefið í ríkum mæli, og sóttist námið vel, þrátt fyrir önnur fjölbreytt áhugamál.

Þórður var þrjú ár í Latínuskólanum, en las 5. og 6. bekk utan skóla á einum vetri, og settist síðan í Læknaskólann. Þar ætlaði hann að ganga undir fyrrihlutapróf að þrem árum liðnum, en fékk ekki því um það voru ákvæði að það próf mætti ekki taka eftir styttri tíma, en þrjú og hálft ár. Tók hann svo fyrrihlutann í janúar 1905, en seinni hlutann fjórum mánuðum seinna.

Á námsárum sínum í Reykjavík tók Þórður mikinn þátt í ýmsum þjóðmálum og menningarmálum, er þá voru á dagskrá, ritaði í blöð um bókmenntir og stjórnmál af mælsku og djörfung, enda fékk hann snemma þá viðurkenningu, að hann væri traustur bardagamaður, hvort heldur á ritvelli eða í ræðustól. Sjálfur orðaði hann það svo, að hann hefði verið hinn mesti vígastyr á þessum árum. "Ég orti kvæði, skrifaði greinar og flutti ræður, skammaðist og reifst út af pólitík og mörgu öðru enda erti ég marga góða menn og gegna til reiði gegn mér."

 

Áhrifavaldar og fyrirmyndir

Guðmundur Björnsson landlæknir, sem var sívakandi um framfarir í heilbrigðismálum, vildi hafa mann á takteinum þegar geðveikrahælið væri komið upp. Það var fyrir áeggjan hans og Guðmundar Magnússonar prófessors, sem báðir voru sveitungar Þórðar, að hann sigldi haustið 1905 til Danmerkur að kynna sér geð- og taugasjúkdóma. Fyrstu sex mánuðina dvaldi hann í Kaupmannahöfn og starfaði sem kandídat á móttökudeild fyrir geðsjúka.  

Þar var þá yfirlæknir Alexander Friedenreich, dósent í geðlæknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla, ágætlega menntaður maður og vel virtur, skýr og gagnorður. Friedenreich hafði ritað kennslubók í geðlæknisfræði "Kortfattet, speciel psykiatri" (1901) og var í mörg ár notuð fyrir lækna og læknastúdenta. Vafalaust hefur hún verið það grundvallarrit, er Þórður byggði á þekkingu sína í geðlæknisfræði. Þegar bókinni er flett, er athyglisvert að sjá, hve fátæklegt lyfjabúr geðlækna var á þessum tíma og hve oft er þar minnst á ýmiskonar vatnsböð sem meðferðarúrræði.

Fyrirrennari Alexanders Friedenreich sem yfirlæknir og kennari við Kommunehospitalets sjette afdeling var Knud bróðir Nóbelsskáldsins Henriks Pontoppidan. Knud Pontoppidan var góður stílisti eins og bróðir hans og þótti hafa einstaklega skýra hugsun, næman skilning og hrífandi framsetningu í ræðu og riti. Hann var vel látinn af samtímamönnum sínum og hafði hlotið mikið lof fyrir endurskipulagningu á geðdeildinni er miðaði öll að betri og manneskjulegri meðferð sjúklinganna.

Þrátt fyrir þetta varð hann fyrir öldu andúðar er um þessar mundir reis í Norður-Evrópu og á Norðurlöndunum gegn geðlæknum og geðlækningum. Er það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem slíkar öldur hafa risið. Hann var lagður í einelti af nokkrum geðröskuðum fyrrverandi sjúklingum af deildinni og æsifréttablöðum Kaupmannahafnar. Sá hann sig að lokum til þess knúinn að segja af sér yfirlæknisstöðunni. Pontoppidan ritaði vegna þessara hremminga varnarrit, 48-blaðsíðna pésa, er hann nefndi: ,,Sjette Afdelings Jammersminde? og er enn í dag á ýmsan hátt athyglisverð og lærdómsrík lesning. Eftir að hann sagði af sér við Kommunehospitalet var hann við geðveikrahæli hjá Árósum og breytti þar mörgu til batnaðar, en árið 1901 varð hann prófessor í réttarlæknisfræði og gegndi þeirri stöðu til ársins 1913.

Meðan Þórður stundaði nám í Kaupmanna-höfn hefur hann vafalítið sótt fyrirlestra hjá Pontoppidan og orðið fyrir áhrifum af honum. Sjálfsagt hefur líka eimt eftir af áhrifum hans á geðveikrahælinu í Árósum, en þangað flutti Þórður eftir dvölina í Kaupmannahöfn og var kandídat við hælið í hálft ár. Í framhaldi af því fór hann til München þar sem hann var við nám í fjóra mánuði.

Þegar Þórður var við nám í München mun yfirlæknir hans þar hafa verið hinn frægi þýski geðlæknir Emil Kraepelin, en um hann og notkun hans á böðum til lækninga segir Alexander Friedenreich m.a. í kennslubók sinni "Kortfattet, speciel psykiartri":

Karböð erta sjúklinginn sjaldnar [en innpökkun í vot lök], þótt það komi fyrir og þau hafa í seinni tíð, sérstaklega í Þýskalandi verið mikið notuð. Lengd baðtíma er oft langur, ekki aðeins klukkutímum saman heldur dögum saman, og einstaka ákafir áhangendur þeirra eins og Kraepelin nota þau dag eftir dag mánuðum saman, í ár eða lengur og þykir verst að þeir geta ekki haft sjúklingana í vatninu einnig á næturnar.

 

 

Kleppur undir stjórn Þórðar

Þegar byggingu Klepps lauk vorið 1907 fór því fjarri að spítalinn væri svo úr garði gerður að viðunandi gæti talist. Þar var t.d. hvorki vatnsleiðsla né vatnsból er dygði. Safna þurfti rigningarvatni eða bera vatn að langar leiðir. Það er einkennilegt til frásagnar nú, að Þórður, sem fyrsti yfirlæknir á Kleppi, skyldi þurfa að leggja fram fé á eigin ábyrgð til lagningar vatnsleiðslu þangað úr aðalvatnsæðinni frá Gvendarbrunnum, svo bætt yrði úr vatnsskorti spítalans. Þannig var það nú samt og má teljast undarleg tilviljun þegar hafðar eru í huga vatnslækningar Þórðar og sá vatnsaustur, er af þeim hlýtur að hafa leitt.

Þegar Þórður kom heim úr námsferð sinni tók hann við forstöðu og rekstri hins nýja spítala. Jafnframt tók hann til við að kenna réttarlæknisfræði og geðlæknisfræði við Læknaskólann í Reykjavík. Virðist mega ætla, að þar hafi hann að nokkru stuðst við sína dönsku kennara, Friedenreich og Pontoppidan, en svo og Kraepelin.

Fór hann þá jafnan á milli á reiðhjóli þótt ekki væri leiðin þá jafn greiðfær á milli Klepps og miðborgar Reykjavíkur og hún er í dag. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir í viðtali við Þórð í tilefni af sjötugsafmæli hans: ?Inn á milli töluðum við um landsins gagn og nauðsynjar, dægurmál þjóðarinnar, einkum framfaramál landbúnaðarins. Fjármennska hefir t.d. aldrei horfið úr huga Þórðar og hvergi hefir honum fundist hann fyllilega eiga heima á lífsleiðinni, nema þar sem hann hefir hefir haft búskap og jarðarafnot.

Þórður Sveinsson var ekki aðeins efni í góðan fjármann, heldur stórbónda. Hann var hygginn búmaður, hafði miklar mætur á búskap og staðgóða þekkingu í þeim efnum. Vílaði hann ekki fyrir sér að taka í þjónustu sína stórvirk jarðvinnslutæki svo sem þúfnabana þann er til landsins kom árið 1921.

"Búrekstur á Kleppi hafði hann á hendi framan af, auk læknisstarfanna, og er það mál þeirra er til þekktu, að það starf hafi hann leyst af hendi með mestu prýði," segir Sigurjón Jónsson í minningargrein um Þórð. "Gerði hann þar stórfelldar jarðabætur stundum í lítilli þökk stjórnvalda, breytti óræktarmýrum í töðuvöll og sýndi svo mikla hagsýni við allan rekstur búsins og stjórn vinnubragða að til fyrirmyndar var." Búpeningurinn var sauðfé, hestar og kýr og gaf góðan arð, enda störfuðu sjúklingar talsvert að búskapnum, en á þeim árum voru þeir flestir komnir úr sveit og því vanir alls konar bústörfum. "Á vetrum unnu konur og karlar við tóvinnu, karlar þeyttu snældur og það var spunnið, kembt og prjónað," segir Agnar sonur Þórðar þegar hann rifjar upp endurminningar frá Kleppi.

Aðferðir Þórðar við lækningar voru umdeildar, bæði meðal lækna og almennings. Sýnist manni nú, að gætt hafi talsverðra fordóma og misskilnings varðandi lækningatilraunir hans og hann oft verið hafður fyrir rangri sök. Föstu- og vatnskúrar, svo og heit böð, virðast hafa verið þær helstu aðferðir, sem hann beitti, og, á þeim virðist hann hafa haft óbifanlega trú við ýmsum sjúkdómsmyndum geðveiki.

Þórði var veitt sérfræðingsleyfi í tauga- og geðsjúkdómum árið 1923. Sama ár flutti hann erindi í Nýja Bíói og fjallaði þar um vatnslækningar, útskýrði þær og varði. Seinna kom erindið út í pésa, að sumu leyti ekki óáþekkum varnarriti Pontoppidans "Sjette Afdelings Jammersminde". Þar segir Þórður meðal annars: "Það er ómögulegt fyrir mann, sem er sannfærður um að hægt sé að gera gagn, og veit aðferðina til þess, að gera það ekki. Sá væri ekki heiðarlegur læknir, sem gerði það ekki . . . Læknar hafa mjög skiptar skoðanir um meðferð á sjúkdómum; er slíkt ekki nema eðlilegt og venjulega ekki við því að amast, enda verður hver læknir að fara svo með sjúklinga sína, sem þekking hans og samviska segir til um."

Þórður virðist ekki hafa haft neina tröllatrú á lyfjameðferð, reyndar hvorki við geðveiki né líkamlegum sjúkdómum, ef marka má umsögn Agnars sonar hans. Þó er ekki allskostar rétt að segja, að Þórður hafi einvörðungu beitt vatnslækningum og föstukúrum. Hann beitti einnig sállækningum á sinn hátt, í formi viðtalsmeðferðar - ræddi við sjúklingana, fræddi þá, hvatti og uppörvaði.

Farast Agnari svo orð um viðtalsmeðferð föður síns: "Áhugi hans á að veita sjúklingum hjálp var mjög ríkur, og svo eldheit var umhyggja hans fyrir þeim, að þeir höfðu varla frið fyrir lækninum þegar hann var hættur störfum á Kleppi og sat fjötraður við stól heima í stofu, fullur andlegs þreks og fjörs, með símann í hendinni að ráðleggja sjúklingum sínum, örva þá og hvetja."

Varla hefur áhuginn verið minni meðan hann naut ennþá allra sinna krafta. Við skulum hafa í huga að árið 190, þegar Þórður var í námsferð í Þýskalandi, mun jafnvel sjálfur Freud ennþá hafa beitt vatns- og rafmagnslækningum við sjúklinga, er þjáðust af Hysteri, eða að minnsta kosti verið nýlega hættur því.

 

 

Kennsla

Þórður Sveinsson hefur vafalaust verið tilþrifamikill kennari. Flestum, er um hann rita, ber saman um að hann hafi verið skarpgreindur og fjölhæfur. Fjörugur og gæddur ríkri kímnigáfu. Honum er lýst svo að hann hafi verið góður ræðumaður og hafði skemmtilegar og eftirtektarverðar líkingar á takteinum, er hann skilgreindi mál, sem til umræðu voru.

Ræður hans héldu athygli manna og voru minnisstæðar. Hann var rökfimur og fljótur að finna veilur í meðferð mála og málflutningi. Hreinn í afstöðu og hispurslaus, en þó velviljaður. Hinn skýrasti og skemmtilegasti maður í viðræðum, tilsvörin hnyttin og gáfuleg. Upptendraðist oft af nýjum hugmyndum, sem sumar entust honum lengi.

"En þegar ég kom inn í stofuna til hans, sat hann keikur og eldfjörugur í stól sínum og var að tala við gesti, bar ótt á, og hafði margt í huga í einu, talaði í sömu andránni um afturhald í trúmálum, erkibiskupinn sáluga í Kantaraborg, fjöruskjögur og aðra vanheilsu í íslensku sauðfé." Þannig lýsir Valtýr Stefánsson honum.

Þórður kenndi geðlæknisfræði og réttarlæknisfræði við Læknaskólann og síðar læknadeild Háskóla Íslands frá 1907-1919. Þá varð hann að hætta kennslu í læknadeild vegna heilsubrests. Hann átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur í 10 ár. Þar átti hann m.a. sæti í rafmagnsnefnd, er lét gera áætlun um virkjun Sogsins, en jafnframt að gera gangskör að því rannsaka nýtingu jarðhita í nánd við Reykjavík til orku- og hitaframleiðslu. Hann var einn af forystumönnum spíritista hér á landi, máttarstólpi Sálarrannsóknafélagsins frá 1918 til dauðadags og þekktur sem slíkur utan landssteinanna. Honum var veitt prófessorsnafnbót árið 1928 og hlaut ýmsar fleiri viðurkenningar.

 

 

Starfs- og ævilok

Þórður Sveinsson lét af störfum sem yfirlæknir á geðsjúkrahúsinu að Kleppi 1. janúar 1940. Hann hafði þá starfað þar í rúmlega 31 ár. Síðustu 11 ár hafði Nýi-Kleppsspítalinn, er tók til starfa 1929, starfað á Kleppslóðinni við hliðina á Gamla-Kleppi, en undir stjórn annars yfirlæknis, dr. Helga Tómassonar.

Spítali sá sem tók til starfa á Kleppi árið 1907 var í takt við það þjóðlíf, sem þá var lifað og lifað hafði verið nær óbreytt um aldaraðir á Íslandi. Öld mestu breytinga og framfara í allri Íslandssögunni var þá rétt að hefjast og næstu tveir áratugir áttu eftir að skila breytingum og framförum, sem fæsta hafði þá órað fyrir. Húsakostur sjúkrahússins er tók til starfa árið 1907 og sú meðferð sem þar var beitt var til að byrja með í góðu samræmi við þjóðlífið og tíðarandann.

Hinar hröðu breytingar og framfarir, sem í vændum voru, breyttu því eins og öðru. Þeir voru ólíkir menn, yfirlæknarnir Þórður Sveinsson og Helgi Tómasson, með ólíkan bakgrunn og stíl. Segja mætti að þeir hafi báðir verið börn síns tíma, stórbóndinn Þórður fulltrúi þeirrar aldagömlu bændamenningar, sem fór halloka á þeirri öld sem í vændum var, og vísindamaðurinn dr. Helgi fulltrúi nýrra tíma, er nú héldu innreið sína.

Báðir tóku þeir rúmlega þrítugir við yfirlæknisstarfi. Mikill munur var þó á starfsreynslu þeirra, Þórður hafði að baki 14 1/2 mánuð, en Helgi 65 mánuði og doktorspróf að auki. En þeir voru báðir mannúðlegir og vildu veita sínum sjúklingum þá bestu læknishjálp, er þeir kunnu og treystu.

Þegar Þórður hætti, var hann farinn að líkamlegum kröftum vegna sjúkdóms í hrygg og afleiðinga lærbrots, er hann hafði hlotið nokkrum árum áður. Andlega var hann þó í fullu fjöri þar til hann lést, tæplega 72 ára, hinn 21. nóvember 1946.

 

Kleppur um miðja síðustu öld.Þetta vefsvæði byggir á Eplica