11. tbl 93. árg. 2007

Ritstjórnargrein

Geðheilbrigðisþjónusta í heila öld. Hannes Pétursson

Hannes Pétursson geðlæknir og prófessor í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands og sviðsstjóri við geðsvið Landspítala

Hannes PéturssonÁ nítjándu öld voru stofnuð geðveikrahæli víða um Evrópu. Formleg geðheilbrigðisþjónusta hófst á Íslandi með stofnun Kleppsspítalans sem opnaður var formlega 26. maí 1907. Fljótlega kom í ljós að húsakostur sjúkrahússins dugði skammt og máttu sjúklingar og starfsmenn búa við veruleg þrengsli um langa hríð. Veruleg lagfæring fékkst með stofnun nýja Klepps árið 1929 en á næstu áratugum sótti aftur í sama farið. Á 7. áratugnum munu um 300 sjúklingar hafa vistast hverju sinni á spítalanum. Reyndar var almennur skortur á sjúkrarýmum hér á landi allt frá því Landspítalinn var reistur 1930 og fram yfir miðja síðustu öld.

Þáttaskil urðu við stofnun göngudeildar Kleppsspítala 1964. Innlögnum var fækkað og reynt var að útskrifa sjúklinga sem fyrst út í samfélagið. Leitað var eftir félagslegum búsetuúrræðum utan sjúkrahússins sem var í takt við þá þróun sem átti sér stað víðast annars staðar. Það var merkur áfangi í sögu geðlækninga á Íslandi þegar geðdeild Borgarspítalans tók til starfa sumarið 1968. Deildin opnaði fyrst klínískra deilda á Borgarspítalanum. Mestu munaði þó um byggingu geðdeildar Landspítalans sem opnuð var 1979 og þá sameinuð Kleppsspítala. Með tilkomu þessara geðdeilda rofnaði áratuga löng einangrun geðsjúkra í landinu. Á árinu 1970 hófst starfsemi geðdeildar Barnaspítala Hringsins. Í fyrstu var opnuð göngudeild en síðar kom legudeild og dagdeild ári síðar. Geðverndardeild fyrir börn hafði áður verið rekin á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Kvenfélagið Hringurinn hefur styrkt deildina á margvíslegan hátt á undanförnum árum. Doktor Matthías Jónasson og Hvítabandskonur komu upp meðferðarheimili fyrir taugaveikluð börn í Reykjavík en geðdeild Borgarspítalans tók við starfseminni 1985. Umfang starfsemi barna- og unglingageðdeildar Landspítalans hefur vaxið verulega á undanförnum árum og m.a. var framangreint meðferðarheimili sameinað BUGL árið 2003. Framundan er frekari efling starfsemi BUGL, meðal annars nýbygging göngudeildar. Margir hafa lagt hönd á plóginn og umtalsvert fé hefur safnast auk þeirra fjármuna sem stjórnvöld leggja til verkefnisins.

Geðdeild Borgarspítalans mótaðist af nálægð við aðrar deildir á sjúkrahúsinu sem bætti samstarf við slysa- og bráðamóttöku. Þann 1. desember 1982 komu geðdeildir í Reykjavík sér saman um skipulag bráðaþjónustu og aukna verkaskiptingu sem bætti þjón ustuna á margan hátt. Árið 1974 var stofnuð sérstök sjúkradeild fyrir geðsjúka á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Bygging geðdeildar á FSA árið 1986 markaði tímamót í geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Árið 1994 voru Landakot og Borgarspítali sameinuð undir heitinu Sjúkrahús Reykjavíkur. Fjárveitingar voru takmarkaðar og reynt var að hagræða í rekstrinum eftir því sem kostur var. Árið 2000 voru þessi sjúkrahús sameinuð Landspítalanum. Taugalækningadeild spítalans flutti í Fossvog og geðdeild A2 flutti á deild 32A við Hringbraut. Hluti húsnæðis geðsviðs var endurnýjað m.a. fyrir vímuefnadeild við Hringbraut. Vettvangsteymi var stofnað á BUGL og síðar við göngudeildir og bráðaþjónustu geðsviðs. Húsnæði og teymi fékkst fyrir átraskanir og stofnuð var endurhæfingarmiðstöð á Kleppi.

Um áratugi hafa geðsjúkir vistast á fjarlægum sjúkradeildum og meðferð og endurhæfing oft verið erfið. Deild á Vífilsstöðum var lokað árið 2002 og starfsemi Gunnarsholts hætt sama ár. Dregið var úr starfsemi Arnarholts á nokkrum árum og starfseminni hætt árið 2004. Jafnframt hefur verið þrýst á um viðeigandi úrræði fyrir geðsjúka.

Ríkisstjórnin ákvað árið 2005 að einum milljarði af andvirði Símans yrði varið til félagslegra búsetuúrræða fyrir geðsjúka. Stefnt er að eflingu þjónustunnar utan sjúkrahúsa og auknum áhrifum notenda og aðstandenda. Brýnt er að auka heilbrigðisþjónustu meðal annars í formi samfélagsgeðlækninga og þverfaglegra vettvangsteyma. Slíka þjónustu þarf að efla verulega á næstu árum þannig að dragi úr þörf fyrir innlagnir á sjúkrahús og þjónustan nái að laga sig betur að þörfum sjúklinga og aðstandenda. Auk þeirra fjármuna sem ríkisstjórnin leggur til þá leggur Öryrkjabandalagið til hálfan milljarð og má ætla að framundan sé umtalsverð uppbygging á samfélagsþjónustu fyrir geðsjúka.

Á næstu árum hefst uppbygging nýs háskólasjúkrahúss. Gert er ráð fyrir 10 rúma geðdeild vegna bráðra geðraskana. Samráð og samstarf geðdeildanna við aðrar starfseiningar á spítalanum mun eflast til muna með sameiginlegum göngudeildum. Síðast en ekki síst þurfa að koma til nýjar og betur búnar sjúkradeildir fyrir geðsjúka og endurnýja þarf eldri einingar. Nauðsynlegt er að sjúklingar eigi kost á einbýlum og að skipulag húsnæðis verði með þeim hætti að það lagi sig sem best að þörfum sjúklinga og starfsfólks.Þetta vefsvæði byggir á Eplica