11. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Aðalfundur LÍ 2007

Læknafélag Íslands hélt aðalfund sinn dagana 28. og 29. september í húsnæði sínu við Hlíðasmára í Kópavogi. Var fundurinn vel sóttur og fór fram með góðum skikk. Að venju birtir Læknablaðið þær ályktanir sem fundurinn sendi frá sér.

Hefðbundin aðalfundarstörf fólu í sér lestur skýrslu, ársreikninga og fjárhagsáætlunar, auk annarra viðfangsefna sem LÍ hefur á sinni könnu og gerir skil við þetta tækifæri. Nýr heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn í upphafi og sperrtu menn eyrun við boðskap hans. Á fundinum gekk úr stjórn Sigurbjörn Sveinsson sem stýrt hefur félaginu í 8 ár og setið alls 13 ár í stjórn. Nýr formaður, Birna Jónsdóttir röntgenlæknir sem áður var gjaldkeri félagsins, tók við og var vel fagnað enda fyrsta konan í formannsstóli LÍ. Nýr maður í stjórn er Kristján G. Guðmundsson heimilislæknir.

Það eftirminnilegasta af aðalfundi 2007 að öðrum liðum ólöstuðum var tvímælalaust heimsókn formanns suður-afríska læknafélagsins, Kgosi Letlape, en hann er jafnframt fráfarandi forseti Alþjóðafélags lækna, World Medical Association. Hann ávarpaði fundinn í Hlíðasmára og seinni aðalfundardaginn var haldið málþing í Öskju í Vatnsmýrinni þar sem vandi heilbrigðiskerfa þróunarlanda var gerður að umtalsefni og Letlape hélt aðalerindið þar. Bæði er maðurinn afar mælskur og skýr en ekki minnst er sú veröld sem hann brá ljósi á svo mögnuð og margslungin að vér aumar dekursálir á fróni vorum skekin.

Lýsing hans á heimalandi sínu og aðstæðum þar voru nístandi, þar fær orðið allsleysi fullkomlega nýja merkingu, og vandamál hinnar afrísku álfu er af öðrum toga en við þekkjum. Hann ákallaði samkennd okkar og mennsku og benti góðlátlega á að okkar vellíðan og hagsæld hefði ekki alla daga sem guð hefði gefið mælst jafnmikil og árið 2007, ef við litum um öxl gætum við séð að okkur hefði líka verið komið til bjargar á umliðnum öldum og fram á þennan dag. Án tilstyrks annarra og stuðnings hefðum við sennilega hvorki komist lönd né strönd. Þetta mættum við hugleiða áður en við létum af hendi rakna okkar tillegg til Afríku sem er móðir svo margra og ólíkra barna.

Gestur aðalfundarins Kgosi Letlape formaður suður-afrískra læknafélagsins og Jón Snædal.

Jóhannes Björnsson og Birna Jónsdóttir, hinn nýi formaður LÍ.

Sigurdís Haraldsdóttir, Óskar Einarsson og Þórarinn Guðnason.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra ávarpar fundinn.

Tvíburasysturnar Ósk kvensjúkdómalæknir og Brynhildur augnlæknir, Ingvarsdætur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica