11. tbl 93. árg. 2007
Umræða og fréttir
Ályktanir aðalfundar 2007
Á aðalfundi Læknafélags Íslands voru gerðar eftirfarandi ályktanir, um forsendur þeirra má lesa á heimasíðu félagsins.
Ályktun vegna síðbúinnar breytingar á því frumvarpi sem varð að nýjum heilbrigðislögum nr. 40/2007.
Niðurstaða:
Aðalfundur Læknafélags Íslands í Kópavogi dagana 28. og 29. september 2007, skorar á heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því að ákvæði 8. gr. laga nr. 40/2007 verði breytt á þann hátt að engar kvaðir verði settar á einkaaðila sem gera samninga við ríkið um veitingu heilbrigðisþjónustu um hvernig þeir skuli haga stjórnskipulagi sínu.
Ályktun um gildissvið sjúkratrygginga og umboðsmann sjúklinga.
Niðurstaða 1:
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 28.-29. september 2007, hvetur heilbrigðisráðherra til að skilgreina sem fyrst innihald hinnar opinberu sjúkratryggingar á Íslandi, svo enginn vafi leiki á því hvaða réttindi hún veitir þegnunum og hver ekki.
Niðurstaða 2:
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 28.-29. september 2007, skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands, að stofna embætti umboðs-
manns sjúklinga sem gæti réttinda sjúklinga gagnvart stjórnvöldum í heilbrigðis og trygg-ingamálum. Hann hafi eftirlit með að lög um almannatryggingar tryggi á hverjum tíma rétt hinna sjúkratryggðu, að jafnræði sé í heiðri haft í heilbrigðis- og tryggingakerfinu og að yfirvöld vinni í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður bendi einnig á misfellur í heilbrigðis og tryggingakerfinu og segi fyrir um úrbætur og leiðréttingar af hálfu viðkomandi yfirvalda þegar við á.
Ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands 2007 um lækningaminjasafn.
Niðurstaða:
Það er niðurstaða aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi dagana 28. og 29. september 2007 að staðfesta fyrir sitt leyti samning þann, sem liggur fyrir fundinum og formaður félagsins gerði við menntamálaráðherra, Seltjarnarnesbæ, Þjóðminjasafn Íslands og Læknafélag Reykjavíkur þann 27. september s.l. með fyrirvara um samþykki aðalfundar Læknafélags Íslands.
Ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands um þróunaraðstoð.
Niðurstaða:
Aðalfundur Læknafélags Íslands í Kópavogi
dagana 28. og 29. september 2007, felur stjórn félagsins að móta stefnu um stuðning við störf íslenskra lækna og læknanema í þróunarlöndum.
Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Reykjavík dagana 28.-29. september 2007 ályktar að fela stjórn LÍ að falast eftir þátttöku félagsins í sendinefnd Íslands hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO).
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 28.-29. september 2007 hvetur yfirvöld heilbrigðis- og menntamála til að hraða byggingaráföngum Landspítala og heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands svo bæta megi sem fyrst starfsemi spítalans og aðstöðu fyrir sjúklinga
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn
í Kópavogi 28.-29. september 2007 hvetur heilbrigðisyfirvöld til að kanna kosti fjölbreyttari rekstarforma á þeirri starfsemi sem fer fram á Landspítala.
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 28.-29. september 2007 hvetur heilbrigðisráðherra til þess að auka áhrif yfirlækna í stjórnun lækninga á Landspítala og að tryggja að beitt sé málefnalegum sjónarmiðum við ráðningu yfirmanna lækninga á sjúkrahúsinu eins og lög kveða á um.
Í núverandi skipulagi Landspítala hafa áhrif lögskipaðra yfirlækna sérgreina verið rýrð með
óheimilli tilfærslu verkefna þeirra til annarra
stjórnenda, sem valdir hafa verið með ógagnsæjum hætti. Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað ítarlega um þennan vanda og í greinargerð með nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu er tekið undir sjónarmið umboðsmanns og hnykkt á mikilvægi yfirlæknisábyrgðar.
Afar mikilvægt er, að ákvörðunarvald yfirlækna sérgreina verði aukið með þeim hætti, að fjárhagsleg ábyrgð, ráðningarvald og lögbundin fagleg ábyrgð fari saman í rekstri sérgre ina. Samþætting faglegrar og fjárhagslegrar ábyrgðar myndi bæta stjórnun og auðvelda ákvarðanir með aukinni dreifistýringu og minnkaðri yfirbyggingu stjórnkerfis. Þá er afar þýðingarmikið, að allir yfirmenn lækninga verði ráðnir með gagnsæjum hætti byggt á málefnalegum forsendum.
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn í Kópavogi 28.-29. september 2007 felur stjórn félagsins að koma með tillögur fyrir næsta aðalfund þess um skilgreinda aðild læknanema að Læknafélagi Íslands.