10. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Veturinn er minn uppáhaldstími

"Ég hef verið hér á Grænlandi í 8 ár," segir Eskild Boeskov yfirhéraðslæknir við sjúkrahúsið í bænum Illulissat þegar blaðamaður Læknablaðsins átti við hann samtal á dögunum á ferð sinni um þessar slóðir.

Illulissat (Ísfjörðurinn), Jakobshavn upp á dönsku, er 5000 manna bær við hinn rómaða ísfjörð sem dregur að sér fleiri ferðamenn árlega en nokkuð annað einstakt náttúrufyrirbrigði á Grænlandi. Ísfjörðurinn stendur fullkomlega undir nafni þar sem hann er 80 kílómetra langur og 1500 metra djúpur og fullur af borgarísjökum sem Grænlandsjökull dælir jafnt og þétt út í fjörðinn. Það tekur hvern jaka um tvö ár að mjakast út fjörðinn og losna úr viðjum og halda til hafs og þegar rætt er um magnið af ís þá er það ekkert smáræði. Meðalþykkt íssins í firðinum er um 1000 metrar og einhver reiknaði út að meðalstærð hvers borgarísjaka væri slík að nægði til að fullnægja vatnsþörf allrar Danmerkur í ca. einn mánuð. Það er töluvert af vatni.

Samtal okkar Eskilds snýst þó ekki um ísinn í firðinum heldur starf hans sem læknis í Illulissat og héraðinu í kring sem reyndar er svo stórt að jafnast á við þriðjung af Íslandi eða þar um bil. "Vegalengdir hér á Grænlandi á milli byggða eru svo gríðarlegar að maður þarf langan tíma til að venjast því," segir Eskild aðspurður um héraðið sem hann sinnir.

 

Seldi stofu, hús og bíl

"Ég starfaði áður sem heimilislæknir í Kaupmannahöfn og hafði rekið eigin stofu í 14 ár. Mig langaði að breyta til og seldi stofuna, húsið og bílinn en hélt konunni og börnunum. Á þeim tíma voru tvö yngstu börnin enn heima og þau komu með okkur hingað en eru nú flutt aftur til Danmerkur. Við komum hingað í fyrstu til að prófa þetta í eitt ár. Við erum hér enn," segir hann brosandi og kveðst ekki reikna með öðru en verða áfram á Grænlandi um ókomin ár. "Ég get vel hugsað mér að ljúka starfsferlinum hér, segir hann."Margir í Danmörku eru mjög forvitnir um Grænland og langar til að koma hingað. Sumir láta verða af því og það er ekki óalgengt að læknar komi hingað og starfi um lengri eða skemmri tíma."

Hann segir meginmuninn á því að starfa sem læknir í Danmörku og á Grænlandi vera fólginn í því að á Grænlandi eru ekki sjálfstætt starfandi heimilislæknar. "Hér eru allir læknar starfandi við sjúkrahúsin í stærstu bæjunum en við sinnum í rauninni að miklu leyti því að sama og heimilislæknar gera. En það verða allir að koma hingað til að fá læknisþjónustu. Við förum ekki í vitjanir út í bæ. Í rauninni er maður að fást við það sama og heima í Danmörku og fólk leitar jafnmikið til læknis hér. Ég hafði ímyndað mér að fólk leitaði jafnvel ekki læknis fyrr en það væri við dauðans dyr en það er alls ekki þannig. Fólk kemur með börnin ef þau eru lasin og starf læknisins hér er í rauninni alls ekki svo frábrugðið því sem ég átti að venjast í Danmörku. Meginmunurinn er að í Danmörku vísar maður sjúklingum til sjúkrahúss eða sérfræðinga en hér fylgir maður sjúklingi eftir, tekur á móti honum og greinir hann, og gerir síðan jafnvel aðgerð á honum ef manni finnst maður vera fær um það. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt því með þessu fæ ég tækifæri til að gera algengar aðgerðir og uppskurði á sjúkrahúsinu, en allt sem er verulega flókið læt ég sérfræðingunum eftir. Við fáum hingað reglulega sérfræðinga frá Nuuk eða frá Danmörku sem gera aðgerðir og það má segja að á hverjum tíma sé gestkomandi sérfræðingur hér á sjúkrahúsinu um lengri eða skemmri tíma. Við höfum 32 legurúm á sjúkrahúsinu og yfirleitt eru 8-10 upptekin af okkar sjúklingum og hin eru notuð til innlagna vegna sérfræðiaðgerða. Þetta gengur mjög vel og nægir okkur ágætlega. Við sendum einnig sjúklinga til sjúkrahússins í Nuuk þar sem eru starfandi sérfræðingar og skurðstofuaðstaða er betri."

Við sjúkrahúsið eru starfandi 5 læknar og segir Eskild það vera mjög ásættanlegt hlutfall miðað við íbúafjöldann. "Heimiilslæknar í Danmörku hafa kannski heldur fleiri á sínum lista en það er ekki alveg sambærilegt þar sem þeir starfa utan sjúkrahúsanna."

Hinar dreifðu byggðir með ströndinni sem tilheyra héraðinu fá reglulega læknisheimsóknir. "Við reynum að vitja hverrar byggðar annan hvern mánuð og þetta gerum við árið um kring. Á sumrin er siglt og á veturna flogið í þyrlu. Í langflestum byggðunum er heilsugæslustarfsmaður sem reyndar er yfirleitt ólærður en hefur komið hingað á sjúkrahúsið á námskeið. Námskeiðið er fólgið í grundvallaratriðum eins og fyrstu hjálp, gefa lyf og að geta gert að sárum og stöðvað blæðingar þar til við getum náð í sjúklinginn ef þess gerist þörf. Annars að sinna tilfallandi veikindum með lyfjagjöf og þá með ráðgjöf frá okkur í gegnum síma."

Það kemur fram í samtali okkar síðar að langflestir þessarra starfmanna sjúkrahússins í hinum dreifðu byggðum eru konur. Kemur líklega fáum á óvart.

 

 

Vantar alltaf lækna

Ekki fer hjá því að áfengisvandann í grænlensku samfélagi beri á góma þegar rætt er um heilbrigðismál þar í landi. Eskild segir að vissulega sé áfengisvandinn mikill og áberandi og hann birtist í ýmsum myndum. "Börnin verða oft illa úti þegar foreldrarnir drekka mikið og það eru of mörg börn á Grænlandi sem njóta ekki þess öryggis sem þau ættu að gera. Á hinn bóginn eru grænlenskir foreldrar afskaplega góðir við börnin sín og áfengisvandinn er böl sem margir glíma við og líða fyrir. Drykkjuvenjur hér eru talsvert frábrugðnar því sem maður á að venjast í Danmörku og víðast hvar í Evrópu. Hér drekkur fólkið þegar það eignast peninga og heldur áfram þar til peningarnir eru búnir og þá er ekki drukkið aftur fyrr en eftir talsverðan tíma. En meðan á drykkjunni stendur verða slys, ofbeldisglæpir eru framdir og börnin eru vanrækt, allt hlutir sem við heilbrigðisstarfsfólkið þurfum að fást við."

Kannski hljómar þetta ekki mjög framandi fyrir íslenskan lesanda sem þekkir eflaust einkenni túradrykkjunnar á þessari lýsingu þó líklega hafi það breyst með auknu framboði áfengis og rýmri opnunartíma veitingastaða á Íslandi seinni árin. Drykkjumynstur Íslendinga hefur færst í hinn samevrópska farveg þar sem ofurölvun er minna áberandi en um leið hefur heildarmagn á hvern íbúa aukist verulega.

"Við meðhöndlum ekki áfengissjúklinga hér á sjúkrahúsinu að öðru leyti en því að við tökum við fólki sem hefur orðið fyrir slysum eða eitrun af völdum áfengisdrykkju."

Eskild segir að það vanti ávallt lækna á Grænlandi. "Okkur vantar reyndar ekki lækna hingað til Illulissat því hingað vilja margir koma vegna landslagsins og veðurfarsins sem er mjög gott. En það er viðvarandi læknaskortur á Grænlandi þó sífellt fleiri Grænlendingar leggi stund á læknisfræði. Mér skilst að núna séu um 25 stúdentar grænlenskir í læknanámi í Danmörku en annað mál er hvort þeir skila sér allir heim aftur. Ef einhverjir íslenskir dönskumælandi læknar lesa þetta þá hvet ég þá til að kynna sér möguleikana á starfi hér á Grænlandi. Það er mikil og góð reynsla að starfa hér."

Menningarleg upplausn og rótleysi Grænlendinga í breyttu samfélagi á eflaust stóran þátt í því að drykkjusýki og geðsjúkdómar með hárri tíðni sjálfsvíga er eitt af daprari einkennunum á grænlensku samfélagi.

"Tíðni sjálfsvíga er óvenjulega há á Grænlandi en ég treysti mér ekki til að segja hvort geðsjúkdómar séu algengari eða meira áberandi hér en annars staðar. Ég verð sannarlega var við þá í mínu starfi hér á sjúkrahúsinu en við því er að búast. Hæst er tíðni sjálfsvíga meðal ungs fólks og þar eru ungir karlmenn í miklum meirihluta. Reyndar hefur tíðnin lækkað eitthvað allra síðustu árin sem er jákvætt en hún er samt alltof há. Hér í Illulissat hafa allt að 9 ungmenni fyrirfarið sér árlega og það er skelfilega hátt hlutfall í ekki stærra samfélagi. Þeir sem hafa rannsakað þetta segja að ungir grænlenskir karlmenn eigi erfitt með að finna sér hlutverk í breyttu samfélagi en konurnar eigi auðveldara með að aðlagast breytingunum. Annað einkenni á grænlensku samfélagi sem ekki hefur breyst er að drengjum er hampað af foreldrum sínum og þeim leyfist nánast allt. Þegar þeir komast af unglingsárum og þurfa að mæta samfélaginu þá reka þeir sig á alls kyns hindranir og eiga mjög erfitt með að sætta sig við mótlæti. Um þetta hafa reyndar alls kyns kenningar verið settar fram og ég ætla ekki að hætta mér út í þann frumskóg. Það sem snýr að mér sem lækni er að aðferðir ungra karlmanna til að svipta sig lífi eru svo afgerandi að það er lítið svigrúm fyrir mistök sem geta þá bjargað lífi viðkomandi. Skotvopn eru algengasta tólið til sjálfsvíga og það er lítið hægt að gera þegar búið er skjóta sig í höfuðið."

Á jákvæðari nótum er að verulegt átak hefur verið gert á undanförnum árum á Grænlandi til að sporna við sjálfsvígum og Eskild segir að það hafi borið góðan árangur. "Fólki sem líður illa stendur fagleg hjálp til boða bæði í gegnum síma og á sjúkrahúsunum og þetta er örugglega að skila sér."

Áhugamaður um hundasleða

Við snúum okkur nú að öðru sem þó snertir starf hans að nokkru leyti en það kemur upp úr dúrnum að hann er mikill áhugamaður um akstur hundasleða og á sjálfur eina 12 sleðahunda sem hann ljómar allur þegar berast í tal. "Illulissat er paradís hundasleðafólksins og hér eru fleiri hundar en fólk. Síðasta talning segir 6000 hundar."

Blaðamaður getur staðfest að sannarlega eru hundarnir margir og næturnar einkennast af spangóli um allan bæ þó flestir hundarnir séu geymdir utan bæjarins enda gilda strangar reglur um hundahald á Grænlandi.

"Allir hundar verða að vera bundnir ef þeir eru orðnir eldri en 6 mánaða gamlir. Allir lausir hundar eru umsvifalaust aflífaðir af hundaeftirlitsmönnum. Sleðahundar eru engin gæludýr. Þeir eru reyndar mjög hændir að eiganda sínum og geta verið mjög kelnir en þeir eru yfirleitt svangir og sérstaklega eru þeir hættulegir börnum. Ástæðan fyrir þessum ströngu reglum eru skelfileg dauðaslys sem urðu hér fyrr á árum og enn fáum við börn sem hafa verið bitin illa af hundum ef þau hafa hætt sér of nærri þeim. Hundarnir bera enga virðingu fyrir börnum og líta nánast á þau sem bráð. En það er önnur saga og sjálfur hef ég mikla ánægju af hundunum mínum og veturinn er uppáhaldstíminn minn hér á Grænlandi."

Eskild Boeskov yfirhéraðslæknir með hluta af bænum Illulissat og mynni ísfjarðarins margrómaða í bakgrunni.

Sleðahundarnir eru engin gæludýr. Þessi hefur tapað öðru auganu.

Algengasti ferðamátinn á Grænlandi er bátur eða þyrla.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica