10. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Læknar eru málsvarar sjúklinganna

Sigurbjörn Sveinsson lét af embætti formanns Læknafélags Íslands á nýafstöðnum aðalfundi LÍ og hafði þá gegnt formennsku í átta ár. Hann varð góðfúslega við þeirri beiðni Læknablaðsins að líta yfir árin í formannstólnum, hyggja að því hvað stæði uppúr, hvað hefði áunnist og vissulega líka hvað hefði reynst þungt í skauti og erfitt að ráða framúr. "Sem betur fer gleymir maður fljótt því sem miður fer og man það ánægjulega," segir Sigurbjörn þegar hann hugsar til baka í upphafi samtals okkar.

Þátttaka Sigurbjörns af félagsmálum lækna nær þó mun lengra aftur en átta ár því hann átti sæti í stjórn LÍ um fjögurra ára skeið áður en hann tók við formennsku 1999 en hafði þá verið formaður Félags íslenskra heimilislækna árin 1991-1995 og framganga hans þar varð öðru fremur til þess að sóst var eftir honum í stjórn LÍ. Hann vill þó líta enn lengra aftur og rekur upphafið til þess að hann var gerður ráðningarstjóri ungra lækna á námsárum í læknadeild og þar með hafi afskipti hans af félagsmálum lækna hafist. "Það eru nákvæmlega 30 ár síðan í haust," segir hann kíminn. "Reyndar lenti ég í stappi við kennara í deildinni strax á 1. ári þar sem ég var kosinn í þriggja manna nefnd sem gekk á fund prófessorsins í efnafræði þeirra erinda að fá námsefnið skorið niður. Birna Jónsdóttir og Friðrik Kristján Guðbrandsson voru með mér í nefndinni og við áttum daglangan fund með prófessornum sem endaði með því að námsefni í efnafræði var skorið niður um rúmar 200 blaðsíður. Það þótti okkur umtalsverður árangur."

 

Tók því fálega að setjast í stjórn LÍ

Strax árið 1979 var Sigurbjörn kosinn fulltrúi ungra lækna í stjórn LÍ en árið eftir flutti hann út á land og varð formaður Læknafélags Vesturlands og gegndi því embætti í fjögur ár. Árið 1984 tók hann sæti í stjórn Félags íslenskra heimilislækna og sat þar til ársins 1995, síðustu fjögur árin sem formaður eins og áður sagði.

"Aðkoma mín að stjórn LÍ atvikaðist þannig að vorið 1995 komu þeir Páll Þórðarson og Sverrir Bergmann á stofuna til mín og báðu mig að setjast í stjórn LÍ þá um haustið. Þetta var í lok svokallaðrar seinni tilvísunardeilu sem hafði verið harðvítug og erfið læknasamfélaginu. Það var alveg ljóst að þeir Páll og Sverrir voru með þessu að reyna að bera klæði á vopnin og líma saman Læknafélagið eftir hjaðningar misserin á undan. Ég tók þessu fálega til að byrja með en eftir nokkra umhugsun þá fannst mér þetta góð hugmynd og taldi að ég gæti gert gagn í stjórn félagsins."

Varstu þá að hugsa um að sjónarmið heimilislækna hefðu ekki náð eyrum á vettvangi Læknafélagsins?

"Já, ég hafði verið málsvari sjónarmiða lækna sem voru í minnihluta í Læknafélaginu og kollegar mínir meðal heimilislækna töldu margir að Sighvatur Björgvinsson þáverandi heilbrigðisráðherra hefði gengið nærri þeim og þeirra hagsmunum. Andstæðingar tilvísanakerfisins voru líka til í röðum heimilislækna en fyrst og fremst var andstaðan hjá sérfræðingum sem ráku mjög skipulagða áróðursherferð í fjölmiðlum gegn sjónarmiðum okkar heimilislækna. Það var því alls ekki sjálfsagt mál fyrir mig að taka sæti í stjórn LÍ og kannski var maður líka dálítið vígmóður eftir formennskuna í félagi heimilislækna. Kollegar mínir töldu líka að með þessu yrði ég ekki jafn frjáls að því að tala fyrir sjónarmiðum þeirra og ég hafði gert sem formaður FÍH. Það kom líka á daginn að með því að setjast í stjórn svo stórs stéttarfélags sem LÍ er, þá koma önnur sjónarmið upp og maður verður að haga hugsun sinni og gerðum á annan hátt en þegar um þrengri hóp lækna er að ræða."

Eiga læknar ekki alltaf samleið í stéttarlegu tilliti. Eru hagsmunir þeirra í einhverjum tilfellum andstæðir?

"Já, það er alveg hægt að draga fram andstæða hagsmuni en læknum hefur samt tekist í félagslegum efnum að sameinast um stefnu þó sætta hafi þurft sjónarmið og oftast hafa menn séð skóginn fyrir trjánum og látið mestu hagsmuni ráða för. Við sjáum það hins vegar glöggt á stórum heilbrigðisstofnunum að læknar ganga alls ekki allir í sama takti og taka ekki alltaf blíðlega hver á öðrum. Alls staðar þar sem tekist er á um fé til rekstrar verða menn miskunnarlausir. Hins vegar ef starfsumhverfi og starfsöryggi þeirra er ógnað standa læknar saman. Ég er þess fullviss að ef sjálfstætt starfandi sérfræðingar hefðu viðurkennt í tilvísanadeilunni að þeir teldu afkomu sinni fyrst og fremst ógnað þá hefðu heimilislæknar haldið að sér höndum og virt þá baráttu sem sérfræðingarnir stóðu í gagnvart ríkisvaldinu. Það voru taktísk mistök að láta sem þarna væri fyrst og fremst tekist á um pólitíska og hugmyndafræðilega meginreglu. Það hefur svo komið á daginn að sem betur fer nær mikilvægi lækna út yfir kerfi og tilvísanir einsog raunin er núna með hjartalækna og aðra, þannig að stundum gera læknar minna úr sér en efni standa til."

 

 

Gagnagrunnsmálið skók Læknasamfélagið

Formannstími þinn hefur í rauninni einkennst af nokkrum stórum málum. Sum þeirra hafa skekið allt þjóðfélagið en önnur hafa fremur verið innanfélagsmál. Hvar viltu byrja?

"Formannstíð mín hófst á því að vinna félagið útúr gagnagrunnsmálinu. Að sumu leyti er formennska mín ávöxtur þess máls án þess að ég vilji fara nánar út í það. Þegar ég tók við haustið 1999 voru mjög hatrömm átök um þessa viðskiptahugmynd Kára Stefánssonar sem þá var orðin að lögum og átökin náðu langt inn í raðir lækna. Ég var í þeim hópi sem gagnrýndi þessa hugmynd og hafði skrifað blaðagreinar, tekið þátt í umræðum og átt þátt í að móta afstöðu stjórnar LÍ til málsins. Menn vissu því mætavel hvaða rödd þeir voru að kjósa með mig sem formann nýrrar stjórnar félagsins. Samt sem áður lá ekki fyrir að hafa einhvern undir í þessu máli heldur var læknum mikilvægast að friður kæmist á. Að mínu mati var þetta mál alveg að fara með læknastéttina og menn bárust í sannleika sagt á banaspjótum."

Hvernig meturðu þessi átök núna? Voru þau siðferðilegs eðlis eða var tekist á um fjárhagslega hagsmuni?

"Átökin voru tvímælalaust siðferðileg en það má hins vegar vel vera að skoðanir hafi mótast af fjárhagslegum hagsmunum. Slíkt á sér alltaf stað enda slær hjartað þar sem fjársjóðurinn er. Menn töldu hins vegar að verið væri að brjóta meginreglur sem læknar hefðu mótað sér meðal annars innan alþjóðasamtaka lækna með Helsinkiyfirlýsingunni. Átökin stóðu um hvort hægt væri að túlka hana við þessar nýju aðstæður. Fljótlega í ársbyrjun 2000 komst á samningur milli heilbrigðisráðuneytisins og Íslenskrar erfðagreiningar og í kjölfarið virtist ÍE tilbúin til að tala við læknafélagið og við settumst að "samningaborði". Þetta voru gríðarlega erfiðir fundir vegna þess að á milli þessara aðila var nær óbrúanleg gjá og í röðum beggja var það viðhorf uppi að um ekkert væri að semja. Innan nokkurra mánaða ákváðum við Kári Stefánsson að þetta yrðu bara tveggja manna samningafundir þar sem við sátum yfir þessu fram á haustið og ég gekk útfrá því að ekki yrðu gerðir samningar milli ÍE og íslenskra heilbrigðisstofnana fyrr en samkomulag milli LÍ og ÍE lægi fyrir. Áður en það varð gerði ÍE samning við FSA og í kjölfarið sleit ég samningaviðræðum fyrir hönd LÍ við ÍE á grundvelli þess að ÍE hefði ekki efnt loforð sitt við okkur. Ég ætla þó að viðurkenna það að í mínum huga voru þessar viðræður við ÍE komnar út í ógöngur vegna þess að niðurstaða þeirra hefði hugsanlega takmarkað möguleika lækna á að halda minni gagnagrunna og halda uppi rannsóknavinnu inni á stofnunum eins og þeir höfðu gert. Ég hafði áhyggjur af því og með því að slíta viðræðunum taldi ég að ráðrúm gæfist til að hugsa málið. Það gekk eftir og vorið eftir tókum við upp viðræður að nýju sem lauk með samkomulagi í ágúst 2001 með þeirri grundvallarbreytingu á stefnu Íslenskrar erfðagreiningar að það var annars vegar viðurkennt að hægt væri að þekkja einstaklinga í gagnagrunninum og senda fyrirskipun inn í grunninn um eyða upplýsingum um þá að þeirra ósk. Hins vegar að unnið yrði eftir yfirlýsingu alþjóðasamtaka lækna um gagnagrunna sem þá var væntanleg. Þar með töldum við að komið væri á viðunandi siðferðilegt umhverfi um gagnagrunninn með því að fólk gæti skipt um skoðun eftirá og látið þurrka út upplýsingar um sig úr gagnagrunninum. Þar með varð friður tryggður sem hefur orðið varanlegur en það er þó kannski ekki eingöngu vegna þessa samkomulags heldur vegna þess að gagnagrunnshugmyndin reyndist ekki sú arðbæra viðskiptahugmynd sem látið var í veðri vaka að hún myndi verða. Gagnagrunnurinn er hreinlega ekki til og ef hann er yfirhöfuð enn á dagskrá þá eru ekki til neinir peningar til að koma honum á fót. Lögin eru hins vegar ennþá til staðar þrátt fyrir að hafa fengið á sig hæstaréttardóm fyrir að standast ekki stjórnarskrá og þáverandi heilbrigðisráðherra sagðist ætla að láta endurskoða lögin. Við sendum þeim ráðherra erindi og óskuðum eftir að fá að koma að þeirri endurskoðun en úr ráðuneytinu hefur hvorki heyrst hósti né stuna síðan um þetta. Lögin eru úrelt og merkingarlaus í dag."

Gagnagrunnurinn ekki til. Lögin standast ekki stjórnarskrána. Hvað stendur eftir?

"Afskaplega lítið en umræðan sem þetta kveikti var sannarlega gagnleg og jók þekkingu manna og hjálpaði þeim að móta sér skoðanir á siðferðilegum hliðum læknisfræðinnar. Í kjölfar þessa voru sett lög um lífsýnasöfn sem reyndar hvíldu í skugga þessarar umræðu og fóru að mínu mati gölluð í gegnum þingið og vafalítið mun reynsla manna af gagnagrunnsmálinu koma að gagni við endurskoðun þeirra laga."

 

 

Sameining sjúkrahúsanna

Annað stóra málið var sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík.

"Svo sannarlega var það og eitt af stóru verkefnunum snemma í formannstíð minni var að taka þátt í að stjórnir læknafélaganna tækju afstöðu til sameiningarinnar. Það var alveg ljóst hver yrði niðurstaða stjórnmálamannanna og í ljósi þess að læknar eru sífellt vændir um að vera í andstöðu og aldrei pólitískt samstíga við raunveruleikann fannst mér rétt að láta reyna á það að hvort læknar gætu verið á sama máli og stjórnmálamennirnir. Í febrúar árið 2000 varð til sameiginleg yfirlýsing Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur um sameiningu spítalanna; yfirlýsing sem ég er mjög stoltur af í dag og hefur verið stefnumótandi fyrir afstöðu Læknafélagsins til þessa verkefnis. Í grundvallaratriðum studdi yfirlýsingin sameininguna og benti á jákvæðar hliðar hennar, hvernig hægt væri að hagræða, auka gæðakröfur og kannski stytta biðlista. Jafnframt var bent á að sameiningin yrði aldrei raunveruleg nema spítalinn yrði undir einu þaki. Sem nú stefnir í að verði að raunveruleika. Jafnframt var bent á hætturnar á því að þetta yrði eini vinnustaðurinn sem mikill fjöldi lækna gæti starfað á og sjúklingar ættu ekkert val. Ég held að yfirlýsingin hafi verið framsýn og flest sem þar stendur sé þegar komið á daginn, bæði kostir og gallar. Það er því rangt sem okkur hefur verið núið um nasir þegar við höfum gagnrýnt vissa þætti sameiningarinnar að við hefðum alltaf verið á móti henni. Þvert á móti, Læknafélag Íslands hefur frá upphafi stutt sameininguna."

Finnst þér að sameiningin hafi tekist?

"Gangur hennar hefur verið skrykkjóttur en stefnan er jákvæð og byggingarmálin eru í farvegi. En mér finnst jafnframt tímabært að huga að öðrum spítalarekstri, sem yrði einfaldari í sniðum. Spítala sem hefði ekki sömu kennsluskyldu og gæti verið fljótari að sinna verkefnum. Slíkur spítali gæti verið einkarekinn og það þyrfti ekki að stangast á við hagsmuni heildarinnar og sjúkratrygginganna og stefnu stjórnvalda að slík þjónusta væri í boði."

Sameining sjúkrahúsanna þriggja er eitt mál og síðan er stjórnun Landspítala annað mál í rauninni. Læknar spítalans hafa verið ómyrkir í máli um hvernig þeim þyki honum stjórnað. Hvar hefur þú staðsett þig í því máli?

"Ég skil mjög vel þá kollega mína sem hafa haldið uppi gagnrýni á stjórn Landspítala. Ég hef orðið vitni að meðferð einstakra mála þar sem mér hefur ekki fundist rétt vera á málum haldið og síðan liggur fyrir að stjórnunarlegt gap hefur verið á milli æðri millistjórnenda og yfirlæknanna. Óánægja um þau skil er mjög skiljanleg. Stjórn spítalans hefur ítrekað fengið á sig dóma þar sem fram kemur að hún hefur tekið ákvarðanir sem brjóta lög og þarna eru skýrar vísbendingar um að þessi mál eru ekki í því lagi sem ætlast verður til. Það þarf ekki nein undirmál til að draga þetta fram því þetta liggur á borðinu. Þetta styður líka þá skoðun að aðrar umkvartanir sem ekki hafa farið hátt eigi sér einnig stoð í veruleikanum.

Við höfum ennfremur einnig talið að það sé ekki nógu vel staðið að ráðningum æðstu stjórnenda í röðum lækna og það eigi að gera það á opnari og lýðræðislegri hátt en gert er. Angi af því máli er hjá Umboðsmanni Alþingis þar sem við höfum viljað fá úr því skorið hvort rétt sé staðið að ráðningu sviðstjóra lækninga með því að auglýsa ekki stöðurnar."

 

 

Lögin um heilbrigðisþjónustu

Á síðasta þingi voru ný lög um heilbrigðisþjónustu samþykkt. Læknar voru margir mjög ósáttir við þessi lög og þá ekki síst þann hluta þeirra sem fjallar um Landspítala. Hver er þín skoðun á þessum lögum

"Þetta er svolítið erfið spurning þar sem ég tók þátt í að semja hluta laganna. Sumt í frumvarpinu er ég mjög ánægður með og annað er verra og sumt af því kom ekki inn í frumvarpið fyrr en á síðustu stundu og við höfðum ekki tækifæri til að gefa umsögn um. Þetta á til dæmis við um yfirstjórn einkarekinna heilbrigðisstofnana sem hafa samning við ríkið. Eitt af stærstu nýmælunum í þessu lagafrumvarpi er heilbrigðisstéttir þurfa ekki lengur að fá leyfi ráðherrans til að koma á fót heilbrigðisþjónustu heldur þurfa þær eingöngu að mæta faglegum kröfum landlæknis og ráðherrann hefur ekki aðkomu að því nema til að endurskoða þær ákvarðanir landlæknis sem hann synjar. Þetta var orðið gamaldags og stangaðist í raun á við stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna til atvinnufrelsis og að gera samninga sín á milli, það er læknis og sjúklings. Það er allt annað mál og pólitískt að ákvarða hvaða þjónustu ríkið ætlar að veita innan sjúkratryggingarinnar. Ákvæðin um Landspítala eru skýrari í þessum lögum en gömlu lögunum og sjálfstæði Sjúkrahúss Akureyrar sem er tryggt í þessum lögum og getur gegnt hlutverki sínu sem varasjúkrahús Landspítala en það er mjög mikil-?vægt að skilgreina þá stöðu FSA. Umsagnarnefnd Læknafélagsins átti fund með yfirstjórn Landspítala að hennar frumkvæði og nefndin skilaði vönduðu áliti um stöðu yfirlækna en um það hafði verið deilt að þeirra væri ekki getið í frumdrögunum en þau mál fengu viðunandi niðurstöðu sem ég vil meðal annars þakka mjög málefnalegri og skeleggri framgöngu framkvæmdastjórans okkar sem vakti yfir því máli alveg fram á síðustu stundu fyrir okkar hönd."

Heimilislæknar sóttu það fast að fá frelsi til að starfa utan heilsugæslustöðvanna en ekkert hefur gerst í því máli þrátt fyrir að Jón Kristjánsson þáverandi heilbrigðisráðherra hafi gefið út viljayfirlýsingu í árslok 2002.

"Það mál var þæft fram og til baka í ráðuneytinu og ég átti tvo fundi með Jóni Kristjánssyni þar sem hann lýsti vilja sínum til að gera samning við heimilislækna en samninganefnd heilbrigðisráðuneytis kvaðst ekki hafa neitt umboð til að gera slíkan samning. Þetta var þrátt fyrir ítrekaðar viljayfirlýsingar ráðherrans við okkur um að gera ætti þennan samning. Maður hafði það á tilfinningunni að embættismenn ráðuneytisins væru að flækjast fyrir ráðherranum í þessu máli eða kannski var það Framsóknarflokkurinn sem flæktist mest fyrir sjálfum sér því Sif Friðleifsdóttir vildi ekkert við yfirlýsingu forvera síns kannast þegar hún var innt eftir henni. En nú er alveg nýtt hljóð komið í strokkinn með nýjum ráðherra úr nýjum flokki í heilbrigðisráðuneytinu."

 

 

Átökin um Læknablaðið

Við erum komnir að þriðja stóra málinu í formannstíð þinni sem voru átökin um ritstjórn Læknablaðsins haustið 2005.

"Læknablaðsmálið er erfiðasta mál sem ég hef haft með að gera í Læknafélagi Íslands. Þarna fóru hlutirnir alveg hörmulega og þetta mál sem hefði átt að vera sameiginlegt vandamál Læknafélagsins og Læknablaðsins varð að eitri í okkar eigin herbúðum. Það vafði þannig upp á sig að það varð uppgjör í ritstjórn Læknablaðsins sem endaði með því að útgáfustjórn blaðsins sá sér ekki fært að halda því úti með Vilhjálm Rafnsson í ritstjórastóli og það var sorgleg niðurstaða. Undir ritstjórn hans hafði Læknablaðið tekið miklum framförum, hann hafði frumkvæði að breytingum á útliti og umbroti blaðsins og örvaði opna umræðu á síðum þess og menn voru viljugir að skrifa um hugðarefni sín og viðra skoðanir sínar í læknapólitík sem er mjög eftirsóknarvert. Það var þess vegna eftirsjá að Vilhjálmi. Það er mín skoðun að Læknablaðið eigi að vera eins opið og hægt er og það eigi að ganga eins langt og kostur er í að virða tjáningarfrelsi. Það er ekki hægt að gera ítrustu kröfur til ritstjórnar Læknablaðsins sem varðhunda siðareglna lækna. Ef slík mál koma upp verður að taka á þeim á réttum vettvangi."

Ertu að segja að það hafi verið rétt að birta hina umdeildu grein en hins vegar hafi ekki verið hægt að leysa málið sem fylgdi í kjölfarið með öðrum hætti en að segja ritstjóranum upp og endurskipa ritstjórn blaðsins.

"Ég vil ekki fella dóm um hvort það hafi verið rétt að birta greinina. Stjórn LÍ hefur verið núið því um nasir að hafa gengið erinda Kára Stefánssonar í þessu máli. Það er ekki satt. Og því til stuðnings er sú staðreynd að á fyrsta stjórnarfundi eftir að greinin birtist þá tek ég þetta mál upp því mér fannst strax við lestur greinarinnar að það væri ekki allt í lagi sem í henni stæði og það hlytu að koma upp álitamál um brot á codex ethicus. Samkvæmt lögum LÍ ber mér skylda til að taka slíkt mál upp innan stjórnarinnar því hún hefur þá skyldu að fylgja eftir að menn gæti að codex. Af því að við höfum áður haft samband við lækna og bent þeim á að gæta að codex. Þegar ég tek þetta upp á stjórnarfundi voru engin viðbrögð komin fram frá Kára Stefánssyni og ég hafði enga hugmynd um að hann myndi gera athugasemdir við greinina. Ég bað stjórnarmenn að líta á greinina með tilliti til codex en ræddi engin efnisatriði hennar og tók jafnframt fram að þetta væru mín einu og síðustu afskipti af greininni þar sem höfundur hennar væri samstarfsmaður minn á sama vinnustað. Auðvitað kom ég síðar að málinu með því að þurfa sem formaður að fylgjast með því að siðanefnd læknafélagsins fjallaði um málið og það færi rétt í gegnum þann farveg.

Hvað varðar Vilhjálm þá höfðu orðið mikil innri átök í félaginu um þetta mál og ritstjórn blaðsins var óstarfhæf og sagði síðan af sér. Eftir að ég sem formaður LÍ og Óskar Einarsson formaður Læknafélags Reykjavíkur vorum búnir að kanna marga möguleika á því að mynda nýja ritstjórn og þar var Vilhjálmur alltaf inn í myndinni sem ritstjóri, þá kom að þeim punkti að ljóst var að ekki yrði hægt að skipa nýja ritstjórn með hann áfram sem ritstjóra. Þetta var á endanum spurning um að leika list hins mögulega. Þetta var pólitísk niðurstaða og útkoman var þessi."

Hvað var erfiðast í þessu máli?

"Þarna þekktust allir og margir voru vinir og búnir að starfa saman lengi. Það var ekki hægt annað en ræða þetta á persónulegum nótum og við Vilhjálmur höfðum átt mjög gott samstarf alla tíð og ég tók það persónulega mjög nærri mér. Bæði ferlið og niðurstöðuna. En ég vil bæta því við þar sem nú liggur fyrir kæra hjá siðanefnd læknafélagsins frá Kára Stefánssyni á hendur Vilhjálmi Rafnssyni fyrir að birta greinina í Læknablaðinu. Mín skoðun á því er sú að það sé algjörlega fráleitt að saka Vilhjálm um það. Hins vegar eru atriði í greininni sem ég tel vera brot á siðareglum en það er greinarhöfundurinn sem fremur þau brot en ekki ritstjórinn með birtingu greinarinnar. Það á að þurfa meira til en svo að greinar séu ekki birtar. Tjáningarfrelsið á að ganga lengra en ritskoðun. Við settum í framhaldinu nýrri ritstjórn erindisbréf þar sem tiltekið er að ekki sé viðeigandi að læknar tjái sig á síðum blaðsins um hæfni annarra lækna til læknisstarfa. Að öðru leyti hafa eigendur Læknablaðsins, Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur, ekki komið nálægt ritstjórn blaðsins í þau tvö ár sem núverandi ritstjórn hefur starfað."

 

 

Gæfa að hafa gaman af starfinu

Heldurðu að þetta mál hafi orðið til þess að læknar séu meira hikandi við tjá sig um málefni líðandi stundar á síðum blaðsins?

"Ég veit það satt að segja ekki. Ef það er afleiðingin þá er það sannarlega sorglegt. Læknablaðið er ekki eins og það var en nýrri ritstjórn og nýju fólki fylgja önnur efnistök."

Er það einhver spurning hvort læknafélögin eigi að gefa út Læknablað?

"Nei, það er engin spurning og við viljum gefa út faglegt blað sem mætir alþjóðlegum kröfum um hvernig slíkt blað á að vera unnið og hvernig greinakrítik á að haga. Við verðum líka að gefa út félagslegt blað og fyrir allmörgum árum varð það niðurstaðan að gefa þetta út í einu og sama blaðinu. Það er reyndar von mín að með tímanum verði enn eftirsóknarverðara en nú er að birta í Læknablaðinu vísindagreinar og að mönnum þyki það sjálfsagður vettvangur fyrir birtingu slíkra greina. Hins vegar veit ég það að margir læknar lesa félagslega hluta blaðsins með ekki minni athygli en vísindagreinarnar."

Finnst þér læknar taka þann þátt í almennri þjóðfélagsumræðu sem þeir ættu og/eða gætu gert?

"Ég held að þeir geri það í minna mæli heldur en var og mér finnst að þeir eigi þar meira erindi en þeir telja sig eiga sjálfir. Það er eitt af grundvallaratriðum í siðfræði læknisfræðinnar að við erum málsvarar sjúklinga og við berum ábyrgð gagnvart einstaklingnum. Þátttaka í þjóðfélagsumræðu er nauðsynleg og læknir er að sinna hlutverki sínu gagnvart sjúklingi ef hann tekur ábyrga afstöðu í því samfélagi sem báðir eru hluti af. Hvað Læknafélagið varðar þá fer sú skoðun ekki leynt þó hún sé sannarlega í minnihluta að félagið eigi ekki að skipta sér af neinu nema þrengstu hagsmunum lækna í stéttarlegu samhengi. Ég vona að þessi skoðun verði aldrei ofan á í stefnu Læknafélags Íslands."

En hvað fer Sigurbjörn Sveinsson að gera nú þegar tími hans sem formaður Læknafélags Íslands er á enda?

"Framundan hjá mér er að fara í fullt starf sem heimilislæknir. Á læknastofunni líður mér best og ég uni hvergi betur en þegar ég er búinn að loka á eftir mér og sjúklingnum. Ég er svo gæfusamur að hafa mikla ánægju af starfi mínu. Ég er búinn að hlakka lengi til þess. Ég er reyndar kominn í nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytis sem á að athuga greiðsluþátttöku sjúklinga og ég hef sagt við stjórn LÍ að ég sé ekki hættur að hitta fólk og ég er alveg tilbúinn til að hafa skoðanir á fundum lækna í framtíðinni. Ég er ekki búinn að útskrifa sjálfan mig úr Læknafélagi Íslands."

"Hef ekki útskrifað mig úr Læknafélagi Íslands," segir Sigurbjörn Sveinsson fráfarandi formaður.

Þrír fyrrverandi formenn Félags íslenskra heimilislækna ásamt núverandi formanni. Eyjólfur Haraldsson, Lúðvík Ólafsson, Sigurbjörn Sveinsson og Elínborg Bárðardóttir.

Sigurbjörn með Sváfni Leví Ólafsson fimmta ættlið sömu fjölskyldu sem hann hefur stundað frá því á héraðslæknisárum sínum á Búðardal.

Sigurbjörn ásamt eiginkonu sinni Elínu Ástu Hallgrímsson á ferð í Suður-Afríku en þar var þing Alþjóðafélags lækna haldið árið 2006. Í bakgrunni grillir í nýbakaðan forseta samtakanna,

Jón Snædal.

Sigurbjörn ásamt stjórnarfólki LÍ, frá vinstri: Birna Jónsdóttir, Elínborg Bárðardóttir, Sigurdís Haraldsdóttir, Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ, Sigurður E. Sigurðsson og Sigurður Böðvarsson. Á myndina vantar Sigríði Ólínu Haraldsdóttur, Sigurveigu Pétursdóttur og Þórarin Guðnason.

Myndin er tekin að afloknum hinsta fundi undir stjórn fráfarandi formanns við sumarbústað hans á Kiðafelli í Kjós.

Nánir samstarfsmenn í fimm ár. Gunnar Ármannsson framkvæmdastjóri LÍ og Sigurbjörn Sveinsson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica