10. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Frá Landlækni. Tilkynning um bólusetningu inflúensu

Þrígild bóluefni gegn inflúensu A og B hafa verið framleidd fyrir veturinn 2007-2008 samkvæmt ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO Weekly Epidemiological Record 2007;82:69-74).

Í byrjun árs 2007 bauð sóttvarnalæknir út kaup á 60.000 skömmtum af árlegu inflúensubóluefni til næstu fjögurra ára (2007-2010). Á þessu ári verða keyptir 30.000 skammtar af Fluarix® (GlaxoSmithKline) og 30.000 skammtar af Vaxigrip® (Sanofi Pasteur).

Heilbrigðisstofnanir og aðrir þar til bærir aðilar geta pantað bóluefni hjá Parlogis hf. sem annast dreifingu þeirra. Allir sem panta bóluefni hjá Parlogis hf. þurfa að greiða fullt kostnaðarverð (jafnaðarverð) bóluefnanna.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.

Sóttvarnalæknir mælist til þess að ofangreindir forgangshópar fái bóluefnið sér að kostnaðarlausu. Til að svo megi verða þarf einungis að krefja þessa einstaklinga um greiðslu fyrir umsýslukostnaði en sóttvarnalæknir greiðir verð bóluefnisins. Á reikningi til sóttvarnalæknis þarf að koma fram nafn og kennitala hins bólusetta, dagsetning bólusetningar, nafn bóluefnis og hvaða áhættuhópi einstaklingurinn tilheyrir. Æskilegt er að reikningurinn verði á excel formi og sendur með tölvupósti á: juliana@landlaeknir.is

Heilbrigðisstofnunum er heimilt að taka komugjald vegna bólusetningarinnar samkvæmt birtri gjaldskrá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

Sóttvarnalæknir vill einnig minna á tilmæli um bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum hjá eftirtöldum hópum:

  • Einstaklingum 60 ára og eldri, á 10 ára fresti.
  •  Einstaklingum með aspleniu eða aðra ónæmisbælandi sjúkdóma á 5 ára fresti.

Upplýsingar um kennitölu hins bólusetta og tímasetningar pneumókokkabólusetningar þurfa að berast til sóttvarnalæknis.Þetta vefsvæði byggir á Eplica