10. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Fylgt úr hlaði

Á Alþingi Íslendinga síðastliðið vor var samþykkt þingsályktunartillaga um skipulagða leit eða skimun eftir krabbameini í ristli og endaþarmi, sem hefja skal árið 2008. Ítarleg greinargerð fylgir þingsályktunartillögunni, þar sem rakinn er hinn vísindalegi bakgrunnur sem styður tillöguna.

Lengi hefur verið deilt um árangur slíkrar leitar og hvaða leitaraðferðum best er að beita. Aðeins ein aðferð hefur verið skoðuð í stórum samanburðarrannsóknum (með þátttöku 240 þúsund einstaklinga), en það er athugun á blóði í hægðum (FOBT) og síðan alristilspeglun (colonoscopy) fyrir þá einstaklinga þar sem blóð finnst. Sýnt hefur verið fram á lækkun í dánartíðni (mortality) í 20-25% tilfella þar sem þessari aðferð er beitt. Niðurstöðurnar hafa leitt til þess að í mörgum löndum Evrópu hefur skimun hafist, bæði með skipulögðum og óskipulögðum hætti og mismunandi rannsóknaraðferðum.

Leitað er að nákvæmari skimunaraðferðum. Alristilspeglun er væntanlega nákvæmasta rannsóknaraðferðin og ef eitthvað finnst, til dæmis kirtilæxli (adenomatous polyp) sem er forstig flestra illkynja meina í ristli, má fjarlægja það í leiðinni. Hér skortir hins vegar vandaðar samanburðarrannsóknir, alristilspeglun til stuðnings sem skimunaraðferð.

Mikilvægt er að hefja skipulagða leit eða skimun eftir þessu krabbameini. Einnig er mikilvægt að halda áfram að leita betri leiða til þess að auðvelda greiningu og meðferð.

Íslendingar eiga að vera þátttakendur í slíku starfi, enda er ályktunin, um skimun eftir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hér fer á eftir, vitnisburður um samstöðu fagfélaga og annarra aðila í baráttunni gegn þessum illvíga sjúkdómi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica