07/08. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Yfir tvö þúsund læknar

Tvö þúsundasti læknirinn sem læknadeild Háskóla Íslands útskrifar var í hópi þeirra 36 nýju lækna sem útskrifast frá deildinni í vor. Hefur deildin nú alls útskrifað 2035 lækna frá upphafi. Konur eru 60% hópsins og sagði Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar, þegar hann ávarpaði hópinn í móttöku Læknafélags Íslands, að sama hlutfall kvenna væri í þeim hópi sem þreytti inntökupróf fyrir læknadeildina í vor.

Sigurbjörn Sveinsson, formaður LÍ, bauð þennan nýja hóp lækna velkominn í íslenska læknastétt og sagði þessa athöfn jafnan þá ánægjulegustu sem Læknafélagið stæði fyrir. Eftir ávörp Sigurbjörns og Sigurðar, afhenti Örn Bjarnason viðurkenningar Hollvinafélags læknadeildar sem Edda Vésteinsdóttir og Róbert Pálmason fengu. Þá skirfuðu læknarnir undir læknaeið Hippokratesar.

Formaður Læknafélags Íslands sagði jafnframt í ávarpi sínu að læknum framtíðarinnar væri hætt við þær ýmsu breytingar sem einkenndu okkar daga.

„Fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu mun ráðast af sjúkdómum þjóðarinnar, hvernig þróun verður í vísindum og tækni, hvernig kostnaðaraukningu verður mætt, hvort taumlaus markaðs- og einstaklingshyggja munu ráða öllu um veitingu heilbrigðisþjónustu eða hvort fjöldinn muni una því áfram að axla sameiginlega ábyrgð,“ sagði Sigurbjörn og kvaðst ekki einvörðungu vísa hér til lækna heldur hefðu allir limir á þjóðarlíkamanum sitt hlutverk. „Væntingar og kröfur ráða miklu og vandasamt er að spila úr því sem er til skiptanna, þegar kostnaður eykst hraðar en aflahlutur þjóðar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu ákvarðar eftirspurn. Ákall um jafnræði þegnanna er sanngjarnt við þessar aðstæður, en þessu ákalli er oft erfitt að svara. Og þá koma sölumenn markaðarins með lausnir þar sem grundvöllurinn, mannúðin, hefur gleymst.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica