07/08. tbl 93. árg. 2007

Íðorð 200. Lungað úr nóttinni

p01-hofnyFramlag Bibbu á Brávallagötunni rifjaðist upp við lestur á tilkynningu, sem dreift var á deildir LSH nýlega. Bibba sýndi okkur að það getur verið varasamt að skreyta mál sitt með orðum, orðatiltækjum eða málsháttum, sem maður hvorki skilur né kann nógu vel. Í umræddri fréttatilkynningu var því lýst að ákveðinn viðburður yrði skipulagður þannig að hann tæki „kvöldið og lungað úr nóttinni“. Hvort þetta orðaval vakti almenna athygli starfsmanna LSH veit undirritaður reyndar ekki, en í nánasta umhverfi hans fór af stað umræða um þessa ambögu. Ástæða er til að deila niðurstöðu hennar með öðrum.

Lungi

Þeim sem þátt tóku í umræðunni var ljóst að rangt er að nota hvorugkynsnafnorðið lunga í tilgreindri setningu. Þar hefði átt að nota karlkynsnafnorðið lungi og segja í staðinn að viðburðurinn tæki „kvöldið og lungann úr nóttinni“. Ekki var öllum þó ljóst hvað orðið lungi merkir. Leitað var ásjár Íslenskrar málstöðvar, sem upplýsti að það merkti: kjarni, það besta af einhverju. Samkvæmt Orðsifjabókinni er uppruni óviss, en tengist hugsanlega líffærisheitinu lunga og hefur þá upphaflega merkt það mýksta úr einhverju, sbr. lungamjúkur. Samkvæmt því er „lunginn“ úr einhverju besti hluti þess, en á síðari árum hefur orðið merkingarleg tilhliðrun og er lunginn nú gjarnan talinn vera mesti eða meiri hluti þess sem um er rætt.

Netleit

Undirritaður gerði að bragði einfalda netleit og fann strax fjölmörg dæmi um notkun karlkynsnafnorðsins lungi í nútímamáli. Algengast var að það væri notað í tengslum við lýsingu á tímabili: lungann úr deginum, vetrinum, sumrinu, árinu, öldinni, ævinni eða starfstímanum. Langoftast var talað um lungann úr slíku tímabili, en einnig mátti þó finna dæmi um lungann af einhverju, svo sem lungann af deginum eða lungann af öldinni. Síðartalda samsetningin kom þó frekar fyrir í umræðu sem ekki fjallaði um ákveðin tímabil: „lungann af athugasemdum mínum“, „lungann af slíkri sölu“ og „lungann af verkum þeirra“. Í lýsingum á íþróttaviðburðum var ýmist talað um lungann af leiknum eða lungann úr leiknum. Hvað rangt er eða rétt er í þessu, skal ekki rætt hér, en áhugavert er að skoða þróun ýmis konar orðanotkunar í skrifum manna eða daglegu tali.

Jáeindaskönnun

Pétur Hannesson, yfirlæknir á röntgendeild LSH, sendi fyrirspurn og bað um íslenskt heiti á samsettri rannsóknartækni, sem á ensku hefur fengið heitið positron emission tomography/computed tomography (PET/CT) og tilheyrandi sambyggðum rannsóknartækjum. Sjálfur hafði hann heyrt notað heitið jáeindaskanni um fyrra tækið, positron emission tomograph.

Positron nefnist jáeind í Íðorðasafni lækna og var undirritaður því fjótur að samþykkja heitið jáeindaskanni. Rannsóknaraðferðin fær með sama lagi íslenska heitið jáeindaskönnun.

Samsettu heitin

Það er alltaf álitamál hversu löng og nákvæm fræðiheiti eiga að vera. Íslenska hefðin er sú að leitast við að hafa hin íslensku heiti stutt, en um leið gagnsæ og lýsandi. Ekkert er þó að því að geyma löng og nákvæm heiti í orðabókum til jafns við hin styttri, en nota liprari styttingar í daglegu starfi. Samkvæmt því má geyma formlega heitið jáeindaskanni og tölvusneiðmyndatæki í Íðorðasafni lækna, og nota í dagsins önn styttra heitið, jáeinda- og tölvusneiðtæki. Rannsóknaraðferðin er á sama hátt nefnd jáeindaskönnun og tölvusneiðmyndataka. Ef til vill má þá í daglegu starfi tala um að rannsaka innri líffæri með jáeinda- og tölvusneiðingu.

Tracer

Í öðrum tölvupósti barst fyrirspurn um íslenskt heiti í stað enska nafnorðsins tracer í læknisfræðilegu samhengi. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs gefur fimm mismunandi merkingar: 1. leitarmaður, sá sem rekur feril e-s, eftirgrennslari; 2. eftirlýsing, eftirgrennslan; 3. teikniáhald; 4. glóðarkúla, byssukúla með efni sem brennur og skilur eftir sig slóð; 5. sporefni, t.d. flúrlitur eða geislavirk samsæta frumefnis, sem notað er til að rekja tiltekið efnafræðilegt, líffræðilegt eða eðlisrænt ferli. Það er þessi síðasta merking sem nú er til umræðu. Íðorðasafn lækna geymir samsetninguna tracer element, sem fær þar íslenska heitið sporefni og er vafalaust sömu merkingar. Undirritaður treystir sér ekki til að bæta um betur.

Struma

Frá norskum prófessor barst fyrirspurn um það í hvaða kyni fræðiheitið struma væri notað á íslensku. Undirritaður kvaðst telja það hvorugkyns, strúmað, þegar því væri slett í íslensku læknamáli. Spurt er: Tala einhverjir íslenskir læknar um strúmann?Þetta vefsvæði byggir á Eplica