06. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Úthafskirkjan - Úr ljóðabókinni Á mörkum eftir Valgarð Egilsson

- JPV útgáfa, Reykjavík 2007.

u04-fig1_opt[1]

Úthafskirkjan

María, ljáðu mér möttulinn þinn

Kristur, ljáðu mér kyrtilinn þinn

Sankti Pétur, ljáðu mér

sjóhettuna þína

(Bæn úr Fjörðum)

Ómerkt er leiðin

liðinna frænda

sem liggja hér í jörð

hlið við hlið

við ysta haf

 

og horfin kirkjan

 

er léði þeim styrk

á landi og sjó

á langvetrum hörðum

Það skorti alltaf

skjólflíkur í Fjörðum

Faðir minn er róinn

Ljáðu mér nú hettuna þína

Sankti Pétur, á sjóinn

 

Með eigin viti

þeir vinsuðu kjarnann úr Heilögu Riti

því biskupar óttuðust Illagil

og eggjar Trölladals háar

- sögðu eftir litlu að sælast

sálir í Fjörðum það fáar

 

Þótt grandvara feður og mæður

skjólflíkur skorti

við úthafið yst

var siður allur í ætt við Krist

- er leið að sólstöðum

kom lóan með vorið

og leysti alfennið hvítt

- fagurt er í Fjörðum

þá frelsarinn gefur veðrið blítt;

og laufvindar leika á hausti

 

Í augum hins algenga manns

stund hans

- og staður

Hvort fylgir því helgi

að heita algengur maður?

 

---

 

Kirkja við úthaf

var eignuð dýrlingum fimm

- menn hefðu útlátalítið

af einum séð

og ávarpað Maríu mey

möttulinn hefði hún léð

 

Þeir lofa mest Ólaf kóng

er hvorki sáu hann né heyrðu

þann digra mann

er sjaldgæfa sigra vann

 

og sextán orustu kóngurinn

er sístur var til

var síðan helgur lýstur

 

Víst eru áheit ábatasöm

séu auglýst jarteiknin vel

með vilyrði um himnanna ríki

 

En undarleg sýki

að sækja í það

að sigra fólk hér á jörðu

Ólafur Haraldsson hann átti lítið

erindi út í Fjörðu

 

Hér átti að helga kirkju

við hafið Maríu mey

hinni mildu frú

farið betur við frændanna trú

Hvort fylgir því helgi

að heita algengur maður?

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica