06. tbl 93. árg. 2007

Íðorð 199. Hjákenni

jonheid2Paraneoplastic syndrome

Sigríður Ólína Haraldsdóttir, lungnalæknir, sendi tölvupóst og sagðist vera að skrifa texta um lungnakrabbamein, þar sem meðal annars yrði fjallað um paraneoplastic syndrome. Íslenskt heiti fannst ekki í Íðorðasafni lækna. Undirritaður fletti þegar upp í tiltækum læknisfræðiorðabókum til að finna skilgreiningu eða lýsingu á fyrirbærinu. Eftir þá athugun varð til þessi almenna lýsing: Heild einkenna og teikna sem byggist á óbeinum og fjarlægum áhrifum æxlisvaxtar en ekki af staðbundinni íferð eða útþenslu æxlisins eða meinvarpa frá því. Þær breytingar á eðlilegri líkamsstarfsemi, sem fram koma, geta stafað af því að æxlin framleiði lífrænt virk peptíð eða prótín eða komi af stað ónæmisviðbragði gegn boð- eða byggingarefnum líffæra.

Paraneoplastic

Þetta lýsingarorð er búið til úr gríska forskeytinu para-, sem hefur ýmsar merkingar í hinum mismunandi samsetningum þess: við hliðina á; hliðar-; nálægt; hjá-; grenndar-; líkt; sýndar-; auka-; aðskilinn; utan-; afbrigðilegur, og gríska lýsingarorðinu neoplastic: sem tilheyrir eða á við um æxli. Þetta má túlka þannig að fyrirbæri, sem lýst er sem paraneoplastic, sé, beint eða óbeint, til hliðar við, utan við eða aðskilið frá æxlisvextinum, sem það tengist. Einkenni frá fjarlægum stöðum ættu að geta fallið undir slíkt.

Hjákenni

Undirritaður setti fljótt fram þá hugmynd að tala um æxlisvaxtarheilkenni, sem yrði þá heiti á þessu fyrirbæri, hvað sem liði beinni orðhlutaþýðingu, svo sem hjá-, hliðar- eða utanæxlisheilkenni. Sigríði Ólínu líkaði þetta ekki nógu vel og kom á móti með tillögu að nýyrði: æxlishjákenni. Þetta er allrar athygli vert og er hér með lagt fram til umræðu og athugasemda, stuðnings eða gagnrýni. Benda má á að íslenska heitið heilkenni er búið til úr orðunum heild og einkenni (sjá Læknablaðið 1995; 81: 498).

Remission

Margrét Árnadóttir, nýrnalæknir, óskaði eftir umræðu um íslenskt heiti í stað latneska heitisins remissio. Nafnorð þetta er myndað úr forskeytinu re- (aftur-, endur-, til baka) og sagnorðinu mittere (senda, sleppa), þannig að remittere merkir: senda til baka, senda aftur, láta ganga til baka, draga úr, slaka á, hætta við, láta af hendi. Heitið remissio er í læknisfræði notað 1. um það þegar dregur úr sjúkdómseinkennum, þegar sjúkdómsbati verður eða 2. um þann tíma sem slíkt gerist. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs gefur nokkrar þýðingar á enska nafnorðinu remission: 1. eftirgjöf, uppgjöf. 2. sóttarhlé, þrautahlé, rénun. 3. fyrirgefning. Íðorðasafn lækna gefur þýðingarnar: 1. léttir, linun. 2. sóttarhlé, sjúkdómshlé.

Bati, afturbati

Samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu merkir nafnorðið bati: afturbati, bötnun, betrun og nafnorðið afturbati merkir á sama hátt: bati (eftir veikindi). Hvorugt gefur til kynna fullkomna lækn- ingu, sbr. orðatiltækið fyrr bati en albati. Það gerir enska heitið remission ekki heldur. Undirritaður leggur því til að þessi orð, bati og afturbati, verði notuð um það þegar dregur úr sjúkdómseinkennum eða þegar sjúkdómsbati verður. Því miður hefur orðið afturbati stundum fengið á sig neikvæðan blæ, en vonandi verður hægt að líta framhjá slíku. Á sama hátt verði talað um bata- eða afturbataskeið þegar vísað er til tímans þegar slíkt gerist.

 

Partial remission

Margrét var einnig að fást við heiti sem notuð eru til að aðgreina mismunandi mikinn bata, complete remission og partial remission. Í þessum samsetningum má tala um algjöran eða fullkominn bata eða afturbata og bata að hluta eða hlutabata. Hið lipra heiti albati kemur einnig til greina. Afturbati að hluta er þyngra í vöfum og einnig samsetningin hlutaafturbati.

 

Föst fylgja

Hildur Harðardóttir, kvensjúkdómalæknir, bað um endurskoðun á heitum sem lýsa meinvefjafræðilegum tegundum fastrar fylgju. Hildur var ekki fyllilega sátt við eitt af þeim heitum sem birt eru í Íðorðasafni lækna, að placenta percreta nefndist niðurgróin fylgja. Hún lagði til að tekið yrði upp íslenska heitið gegnumgróin fylgja, sem undirritaður tók vel en vildi einnig gefa kost á styttingunni gegngróin fylgja. Með þessari breytingu verða heitin á fastri fylgju þannig: placenta accreta (fylgja föst við legvegg en totur ganga ekki inn í vöðvahjúp) viðgróin fylgja, placenta increta (fylgja föst við legvegg og fylgjutotur ganga inn í vöðvahjúpinn) inngróin fylgja og loks placenta percreta (fylgja föst við legvegg og totur ganga í gegnum vöðvahjúpinn) gegngróin eða gegnum-gróin fylgja.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica