06. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Lækningaminjasafn Íslands. Sigurður Böðvarsson

r01-fig1[1]Á aðalfundi Læknafélags Reykjavíkur 29. mars sl. var samþykkt ályktun er heimilaði stjórn félagsins að leggja allt að 25 milljónir króna til uppbyggingar lækningaminjasafns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ályktunin var svohljóðandi:

Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur, haldinn 29. mars 2007, heimilar stjórn félagsins að leggja allt að 25 milljónir króna til byggingar lækningaminjasafns í Nesi við Seltjörn. Upphæðin verði aldrei hærri en sú upphæð, sem Læknafélag Íslands kann að leggja fram í sama skyni. Framlagið er háð því skilyrði, að Seltjarnarnesbær gangist fyrir uppbyggingu og rekstri lækningaminjasafnsins með þátttöku ríkissjóðs lögum samkvæmt.

Forsaga málsins er sú að Jón heitinn Steffensen, prófessor emeritus, arfleiddi Læknafélag Íslands að umtalsverðum hluta eigna sinna til uppbyggingar lækningaminjasafns í Nesi við Seltjörn árið 1990. Í erfðaskrá sinni fól Jón Læknafélagi Íslands umsjón þessara eigna og ábyrgð á því að þær kæmu að þeim notum sem til var ætlast. Málið hefur síðan verið til umræðu og athugunar og árið 1997 var gengist fyrir opinni hönnunarsamkeppni um nýja safnbyggingu. Árið 2000 keypti Læknafélag Íslands húsnæði á Seltjarnarnesi að Bygggörðum 7 og afhenti ríkinu að gjöf í þeim tilgangi að bjarga safnmunum frá skemmdum í ónýtum útihúsum í Nesi. Þá þegar var ljóst að um bráðabirgðagjörning væri að ræða og undanfara lækningaminjasafns eins og þáverandi menntamálaráðherra ítrekaði við afhendingu gjafarinnar. Verulegur skriður komst loks á málið árið 2006 þegar Alþingi heimilaði vegna breytinga á skipulagi Seltjarnarness, að fyrrnefnd fasteign að Bygggörðum 7 yrði seld og söluandvirðinu ráðstafað til að reisa safnbyggingu fyrir Lækningaminjasafn Íslands í námunda við Nesstofu á Seltjarnarnesi. Söluandvirði þeirrar eignar er nú áætlað um 120 milljónir króna. Á undanförnum vikum hefur tekist samkomulag um stofnkostnað, byggingu og rekstur húsnæðis fyrir Lækningaminjasafn Íslands og menningartengda starfsemi á milli Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur, menntamálaráðuneytis, Seltjarnarnesbæjar og Þjóðminjasafns Íslands. Heildarkostnaður við hina nýju safnbyggingu er áætlaður um 345 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir 25 milljón króna framlagi frá LR með fyrirvörum eins og fyrr er getið og 25 milljón króna framlagi frá Læknafélagi Íslands með fyrirvara um samþykki aðalfundar sem haldinn verður að hausti. Seltjarnarnesbær leggur til lóð undir safnið við Nesstofu og bærinn og ríkissjóður munu fjármagna þær 295 milljónir sem á vantar. Framlag læknafélaganna er endanlegt og munu frávik í byggingarkostnaði ekki breyta þeim. Seltjarnarnesbær mun bera ábyrgð á byggingu safnsins og annast stjórn og rekstur þess eftir að starfsemin hefst í nýju húsnæði. Safninu er ætlað að vera miðstöð safnastarfsemi á sviði lækna- og heilbrigðisvísinda og bera ábyrgð á söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun á þeim munum og minjum sem snerta sögu lækninga á Íslandi. Í safnstjórn munu sitja tveir menn tilnefndir af Læknafélagi Íslands, einn af Þjóðminjasafni og tveir án tilnefningar samkvæmt ákvörðun Seltjarnarnesbæjar.

Hvað varðar fjárframlög læknafélaganna er ljóst að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða. Ég tel að þessu fé sé vel varið. Það er til í sjóðum félaganna og þessi ráðstöfun mun ekki hafa áhrif á starfsemi þeirra. Öllum má ljóst vera mikilvægi þess að hlúa að sögu og menningu læknisfræðinnar á Íslandi. Þá er ekki síður mikilvægt að efla vöxt og viðgang læknastéttarinnar á Íslandi í nútíð og framtíð. Lækningaminjasafn Íslands yrði mikilvægur vettvangur þessa verkefnis.

Útsýni yfir Gróttu. Arkitektastofan YRKI hannaði safnið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica