05. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Hátíðarávarp formanns SKÍ, í tilefni af 50 ára afmæli Skurðlæknafélags Íslands

31. mars 2007 í hátíðarsal Háskóla Íslands

u08Hæstvirtur ráðherra, formaður Háskólaráðs, formaður Læknafélags Íslands, kollegar og aðrir gestir.

Hvatamaður að stofnun Skurðlæknafélags Íslands og fyrsti formaður var prófessor Snorri Hallgrímsson. Félagið var stofnað 19. mars 1957 á Landspítalanum og voru 17 læknar á stofnfundi. Í ræðu Snorra sem vísað er til í Gjörðabók félagsins segir „að æskilegt væri að skurðlæknar hér á landi hefðu með sér félagsskap, bæði til þess að fylgjast með málum, sem einkum varðar þennan starfshóp lækna, en einnig til að hafa samband við skurðlækna annarra landa, einkum Norðurlandanna.“

Þessi markmið eiga enn við 50 árum síðar, þegar Skurðlæknafélagið er lögformlega orðið stéttarfélag næstum 100 félagsmanna. Á stofnfundi voru samin fyrstu lög félagsins og þar kom fram að „félagar geta þeir orðið sem hafa sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum, beina- og liðasjúkdómum, kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og þvagfærasjúkdómum, svo og þeir, sem eru að ljúka sérnámi í þessum fræðum“. Nú hafa nýjar sérgreinar bæst við, má þar nefna lýtalækningar, heila- og taugaskurðlækningar og hjartaskurð-lækningar.

Við lestur Gjörðabókarinnar, sem gefin hefur verið út í tilefni afmælisins, er áberandi hversu mikill hugur og metnaður í félaginu frá upphafi. Aðstæður til að stunda skurðlækningar þá voru allt aðrar og frumstæðari en við þekkjum í dag. Einangrun skurðlækna var meiri, vinnuálag gríðarlegt og örfáir menn sinntu því sem tugir skurðlækna gera í dag. Við þessar erfiðu aðstæður náðu frumkvöðlar félagsins engu að síður að funda reglulega og þétta hópinn.

Þótt ekki hafi allir verið sammála er samheldni skurðlækna áberandi. Þetta má ekki gleymast í dag á tímum sérhæfingar og síaukins fjölda undirsérgreina. Það er skoðun mín að við skurðlæknar, í hvaða líffæri eða hluta líkamans sem við krukkum, eigum meira sameiginlegt hver með öðrum en við aðrar sérgreinar.

Þegar litið er hálfa öld aftur í tímann er ljóst að gríðarlegar framfarir hafa orðið í skurðlækningum. Með bættum verkfærum er unnt að framkvæma mun flóknari aðgerðir en áður og árangursríkar aðgerðir nútímans á veiku og öldruðu fólki hefðu þótt djarfar fyrir 20-30 árum síðan. Skurðlæknar geta þó ekki þakkað sér einum bættan árangur því framfarir í gjörgæslu- og svæfingalækningum og stórbætt myndgreiningartækni eiga ekki síður þátt í þessari jákvæðu þróun.

Ímynd skurðlæknisins hefur breyst, við erum hluti af stóru teymi, frekar en einhvers konar guðir, líkt og forverar okkar virtust vera á fyrstu árum Skurðlæknafélagsins. Starfið er gefandi en líka krefjandi og langar aðgerðir og tíðar vaktir með bráðaútköllum taka sinn toll. Ekki er sjálfgefið að skurðlækningar séu jafn vinsælar í dag og þær voru. Ungir læknar vilja fjölskylduvænna starf og ríkari áhersla er lögð á frítíma. Því má gera ráð fyrir að í framtíðinni verðum við að hafa meira fyrir því að lokka til okkar bestu ungu læknana. Við þurfum að aðlaga greinina breyttum aðstæðum og kröfum nútímans. Annars dögum við uppi sem eins konar „dínósárar“ í eigin heimi, einir á vakt! Það er nefni- lega ekki sjálfgefið að það sé toppurinn „að vera á tvískiptum“. Michael DeBakey, einn frægasti núlifandi skurðlæknir, á einhvern tíma að hafa sagt að „gallinn við tvískiptar vaktir er að þá sjá unglæknarnir einungis helminginn af nýju tilfellun- um!“ Það er vissulega gaman að svona sögum en staðreyndin er sú að margir hér í salnum upplifðu svipaðar sögur í sérnámi sínu og þá voru þær ekki sagðar í gríni.

Á stórafmæli er eðlilegt að líta til baka og velta fyrir sér hverjar stærstu framfarirnar hafa verið. Þótt erfitt sé að gera upp á milli atburða kemur fyrsta hjartaaðgerðin árið 1986 upp í hugann, fyrsta gallblöðrutakan með kviðsjá árið 1991 og fyrsti nýrnaflutningurinn tveimur árum síðar.

Mikilvægur þáttur í þróun greinarinnar er
hversu víða íslenskir skurðlæknar hafa sótt menntun sína, oft til bestu staða erlendis. Bakgrunnur okkar er því fjölbreyttur og mismunandi viðhorf hafa fengið að njóta sín. Þjálfun í sjaldgæfum aðgerðum er mikilvæg og leggja verður áherslu á að ungir kollegar taki með sér nýjungar þegar þeir snúa heim. Af þessum sökum þykir mér ekki vænlegt að færa sérnám í skurðlækningum alveg hingað til lands, en láta nægja takmarkaðan hluta eins og við þekkjum nú.

Tækninýjungar hafa skilað sér fljótt hingað til lands, meðal annars vegna þeirrar íslensku áráttu að eiga alltaf nýjustu og bestu tækin. Eftir að hafa unnið á stórum sjúkrahúsum vestanhafs og austan get ég vitnað um að skurðstofur hér eru síst verr búnar tækjum en þar og aðbúnaður yfirleitt til fyrirmyndar. Það er einnig ánæguleg staðreynd að erlendir skurðlæknar skuli leggja leið sína hingað til að kynna sér nýjungar, líkt og gerst hefur með magahjáveituaðgerðir með aðstoð kviðsjár.

En hverju má breyta? Að mínu mati þarf að auka hlut kvenna í skurðlækningum. Af tæplega 100 meðlimum í Skurðlæknafélaginu eru innan við 10 konur. Þetta mun breytast á næstu árum enda eru í dag samtals 17 konur skráðar með sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum og fjöldinn allur í sérnámi eða á leiðinni í sérnám. Þetta er ánægjuleg þróun en mætti hafa gerst fyrr.

Annað sem ég tel brýnt er að auka áherslur á rannsóknir skurðlækna. Þarna erum við nokkuð á eftir öðrum sérgreinum. Mikilvægt er að virkja læknanema strax í náminu, til dæmis með rannsóknarverkefnum tengd skurðlækningum. Lækna-
- deild hefur á síðustu árum stóraukið áherslu á rannsóknir og það er farið að skila sér, eins og sést best á þessu þingi þar sem verkefni læknanema skipa stóran sess, til dæmis eru öll þrjú erindin sem valin voru til að keppa um verðlaun frá lækna-
nemum. Vinnuálag er vissulega mikið og okkar ungu læknar bera við tímaskorti til þess að geta sinnt rannsóknum almennilega. Mikilvægt er að endurskipuleggja vinnuna þannig að rannsóknir séu fastur hluti af starfi þeirra, á sama hátt og við kennum þeim að fara með nál og tvinna. Sérgreinin býr vel, fáar greinar eiga jafn marga með doktors- og MS-próf í sínum röðum. En rann-sóknir eiga ekki eingöngu að vera hluti af sérnámi erlendis, heldur einnig þegar heim er komið. Í dag eru allt aðrar aðstæður til að sinna rann-
sóknum en áður, styrkir úr rannsóknarsjóðum og frá hinu opinbera hafa stóraukist og nauðsynlegt að skurðlæknar taki þátt í því rannsóknarvori sem komið er hingað til lands.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem lagt hafa leið sína hingað í dag og samgleðjast á þessum merku tímamótum í sögu Skurðlæknafélagsins.

u09

Þessi fengu hvatningarverðlaun Jónasar Magnússonar á Skurðlæknaþinginu um daginn: Sigríður Birna Elíasdóttir, Tryggvi Þorsteinsson og Hannes Sigurjónsson læknanemar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica