04. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar. Læknar, velkomnir á 21. öldina - virkjum heimasíðuna! Sigurdís Haraldsdóttir

u01-fig1Heimasíðu Læknafélags Íslands var hleypt af stokkunum árið 2003 ásamt undirsíðum fyrir hin ýmsu fagfélög. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera síðuna sem glæsilegasta og undanfarið hafa þónokkrar breytingar verið gerðar sem gera hana notendavænni og er hún nú að mínu mati komin í ágætt horf. Hins vegar hefur umferð um síðuna ekki verið mikil og ljóst að nú þegar umgjörðin er klár, þarf að leggja meiri vinnu í raunverulegt innihald síðunnar.

En hver er tilgangurinn með slíkri síðu, hvað á hún að innihalda og hverjum á hún að gagnast?

Heimasíðan er klárlega góður vettvangur fyrir Læknafélag Íslands til að miðla upplýsingum til sinna félagsmanna. Kjarasamningar, lög félagsins, Codex Ethicus ásamt upplýsingum um stjórn og nefndir er nú þegar að finna á síðunni auk ýmissa annarra gagnlegra upplýsinga. Auk þess hefur framkvæmdastjóri félagsins skrifað skemmtilega og fræðandi pistla um málefni líðandi stundar sem eru orðnir ómissandi á hverjum föstudegi. Nýlega var orlofssíðan opnuð en hún gerir læknum kleift að sækja um orlofsbústaði á rafrænan hátt en auk þess eru sendar út tilkynningar sem auðvelda félagsmönnum að fylgjast með því hvaða bústaðir eru lausir hverju sinni.

Fagfélögin hafa verið misvirk í því að nýta sér sín heimasvæði. Þar má til dæmis taka sér Félag íslenskra heimilislækna til fyrirmyndar en þeir hafa haldið úti öflugri heimasíðu um árabil. Fagfélögin geta nýtt síðu sína til margra hluta, svo sem til að minna félagsmenn á komandi ráðstefnur, námskeið og fundi, halda úti upplýsingum um félögin og setja inn tengla um áhugaverð efni. Einnig er heimasíðan góður vettvangur fyrir hvers kyns umræður þar sem félagsmenn starfa oft á mörgum vinnustöðum. Á heimasíðu Félags ungra lækna hafa menn verið duglegir við að miðla upplýsingum um laus störf auk þess sem settar hafa verið inn upplýsingar um sérnám í útlöndum. Þar hafa læknar getað komið með fyrirspurnir til þeirra sem staddir eru úti í námi.

Þannig er tilgangur heimasíðunnar tvíþættur. Hann lýtur annars vegar að starfsemi okkar stéttarfélags þar sem upplýsingamiðlun til félagsmanna er lykilþáttur. Hins vegar lýtur tilgangurinn að því að efla faglegt starf þar sem heimasvæði fagfélaganna eru í fararbroddi og skiptir þátttaka hvers félagsmanns í umræðum og fleiru miklu máli.

En hver á að stýra því hvað fer inn á síðuna? Ritstjórar hafa verið settir yfir hvert undirsvæði en ljóst er að síðan byggist ekki síður á virkni hins almenna félagsmanns. Allir félagsmenn geta stofnað til umræðna og komið með hugmyndir að efni sem hægt væri að setja inn. Heimasíðan getur því ekki virkað vel nema með þátttöku sem flestra en ritstjórarnir hljóta alltaf að bera ábyrgð á því efni sem fer inn á þeirra heimasvæði.

Ljóst er að leggja þarf meiri vinnu í uppbyggingu heimasíðunnar og móta þarf stefnu um það hvernig hún þjóni best tilgangi sínum. Því hefur verið skipaður starfshópur um málefni heimasíðunnar en jafnframt er það von mín að félagsmenn láti meira til sín taka í uppbyggingu, nýtingu og þróun hennar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica