03. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Um fjöll og firnindi í fimmtíu ár

„Talaðu við Leif Jónsson. Hann er reyndastur fjallamanna í hópi lækna,“ sagði einn læknir við mig á dögunum þegar ég var að leita mér að viðmælanda um ferðalög og útivist. Ég hringdi í Leif og falaðist eftir samtali. Hann féllst á það en kvaðst þó ekki viss um að hann hefði frá neinu að segja. Þegar við hittumst dró hann upp úr pússi sínu blað sem leit út eins og verkefni í landafræði. „Eftir að þú hringdir þá tók ég saman hvað ég hef komið til margra landa um ævina. Þau eru orðin 68 í öllum heimsálfum. Ekki þó Suðurskautslandið, þangað hef ég aldrei komið.“

Leifur er einn af þessum mönnum sem kallar á mannlýsingu í anda Íslendingasagnanna. Mikill á velli, skeggið grátt, augun snör, herðabreiður og snöggur til svars og skefur ekki utan af skoðunum sínum. Hann hefur farið akandi eða gangandi á tveimur jafnfljótum um hálendi Íslands þvert og endilangt í rúm 50 ár, þekkir það eins og lófann á sér og hefur lent í einni mestu þrekraun sem sögur fara af á síðari tímum og það án þess að næði þjóðarathygli.

Lónið í uppáhaldi

„Fyrsta ferðin sem ég fór ásamt félögum mínum var á páskum 1955 yfir Fimmvörðuháls og í Þórsmörk. Við vorum nokkrir læknanemar og Magnús Hallgrímsson verkfræðinemi sem hefur verið minn dyggasti ferðafélagi í öll þessi ár. 1956 gengum við á skíðum frá Gullfossi og norður yfir Hofsjökul og ofan í Eyjafjörð. Ferðin tók rúma viku og við bárum allan búnað á bakinu. Þetta hefði nú ekki þótt merkilegur búnaður í dag en við keyptum hlífðarfatnað og annað í Sölunefnd setuliðseigna, þetta var úr segldúk og striga og ef rigndi þá blotnaði allt sem blotnað gat. En við létum okkur hafa það og þetta var skemmtileg ferð. Það var mikill munur þegar við fengum pulkur, sleða, til að draga á eftir okkur en veður og færð hér á Íslandi er þó oft þannig að ekki er hægt að ganga á skíðum eða draga sleða. Maður verður að vera viðbúinn því. Í öllum okkar gönguferðum höfum við haft allt með okkur og aldrei treyst á matarbirgðir eða gistingu í skálum.Tuttugu árum síðar fórum við Magnús aftur þessa sömu leið yfir Hofsjökul en þá með nýjum samferðamönnum.“

Síðastliðið vor, 50 árum eftir fyrstu gönguna og 30 árum eftir þá síðari, fengu þeir Magnús og Leifur og flestir félagarnir frá 1956, Gunnar Egilsson af Selfossi, Suðurskautsfara, til að keyra með sig þessa sömu leið og þá má segja allt hafi verið þegar þrennt var orðið. 4Í það skipti fórum við reyndar niður í Bárðardal því ekki var hægt að keyra ofan í Eyjafjörð. En þetta var skemmtileg ferð.“

Leifur liggur ekki á skoðunum sínum þegar spurt er um fjallaferðir landans. „Það eru alltof margir sem vita ekkert hvað þeir eru að gera og hafa engan áhuga á neinu nema keyra endalaust. Stíga varla nokkurn tíma útúr bílnum. Eru með allar græjur og kunna samt takmarkað á tækin sem þeir eru með í höndunum.“

Sumum nægir eflaust að ganga styttri vegalengdir, leggja ekki allt hálendið undir í hverri gönguferð, en Leifur hefur gengið svo víða að varla er hægt að spyrja nema um lengstu ferðirnar. Ein ferð sem hann nefnir er gönguferð norður yfir Vatnajökul og Möðrudalsöræfi, erfið ferð þar sem hálendið norðan Vatnajökuls var nánast snjólaust og lítið gagn að skíðunum í slíku færi.

Hann man sannarlega tímana tvenna í hálendisferðum og saknar þeirra tíma greinilega þegar umferð um hálendið var ekki orðin jafn almenn og nú er. Uppáhaldsvæði hans til dvalar og gönguferða að sumarlagi hefur löngum verið Lónsveitin. „Það er eitt fallegasta svæði landsins, fjölbreytnin í landslaginu er einstök og alltaf jafn gaman að ganga þar um. Ekki má heldur gleyma Hornströndum.“

Þegar hann rifjar upp ferðalög og langdvalir á hálendinu kemur upp í hugann sumarið 1956 sem hann starfaði að landmælingum m.a. með Hauki Árnasyni lækni og Magnúsi fóstra sínum Hallgrímssyni. Verkefnið fólst í því að setja niður mælingapósta fyrir danska landmælingamenn sem beittu þríhyrningamælingum og þurftu því gott skyggni fjalla á milli. „Okkar mælingamaður var lítill karl en eitilharður og stundum þurfti hann að liggja í tjaldi allt upp í tvær vikur áður en létti til og hægt var að mæla. Sumarið áður, rigningasumarið mikla 1955, lá sá sem lengst beið skyggnis, 72 sólarhringa á fjallstindi austan Heklu. Okkar maður hafði stundað mælingar á Grænlandsjökli og fengið viðurnefnið Hansúaq, Hans stóri, Grænlendingarnar voru spaugsamir. Með Hans sumarið 1956 var íslenskur strákur, Jökull Jakobsson, og þeim kom greinilega vel saman þrátt fyrir langdvalir í tjaldinu. Við félagarnir þurftum bara að koma þeim á staðinn og sjá til þess að þeir yrðu ekki hungurmorða meðan þeir biðu eftir heiðskíru veðri. Við höfðum tvo Veapon jeppa til umráða og gátum farið flestra okkar ferða milli þess sem við færðum þeim Hansúaq og Jökli kost og gengum á ýmis fjöll til að setja niður mælingapósta. Þetta sumar byggðist upp líkamlegt þrek og úthald sem ég tel mig hafa búið að allar götur síðan og aldrei hef ég stigið fæti inn í líkamsræktarstöð.“

Gengið fyrir björg

Þann 5. apríl 1989 komst Leifur ásamt félaga sínum Magnúsi Hallgrímssyni lífs af úr mannraun sem teljast verður ein magnaðasta lífsreynsla sem sögur fara af á síðari tímum. Þeir höfðu þá gengið við fimmta mann í skála Jöklarannsóknarfélagsins á Grímsfjalli í Vatnajökli og hugðu á göngu yfir jökulinn norður að Svartárkoti í Bárðardal. Aðrir ferðafélagar voru Hallgrímur sonur Magnúsar, mikill fjallamaður sem síðar kleif Everest sem frægt er orðið, Helgi Ágústsson og Alfred Frederiksen.

Skálinn er staðsettur á hábungu Grímsfjalls og í rauninni aðeins stuttan spöl frá brúninni þar sem Grímsfjall gnæfir þverhnípt nær 300 metra yfir Grímsvötnum. Er þetta einn dulmagnaðasti staður á landinu að sögn þeirra sem þar hafa komið. Leifur ritaði lýsingu á þessari viðburðaríku ferð í Ársrit Útivistar 1993 en annars hafði hvergi verið minnst á þennan atburð opinberlega fyrr. Sögur af þessu einstaka afreki höfðu þó gengið fjallamanna á milli og síðar skrifaði Óttar Sveinsson nánari lýsingu á þessum atburði í eina af Útkallsbókum sínum. Er stuðst við frásögn Leifs frá úr Ársriti Útivistar 1993 þegar þetta er rifjað upp hér.

„Þegar við lögðum af stað frá skálanum var hvasst af suðaustri, þoka og skafrenningur. Skyggni var þannig farið að við sáum ekki tærnar á eigin skíðum. Ég gekk fyrstur og eftir 5 mínútna áttavitagöngu stóð ég skyndilega í lausu lofti og vissi á samri stundu að ég hafði gengið fyrir björg og væri á hraðri leið niður í Grímsvötn. Suðaustanáttin gerði að skafrenning kæfði norður af fjallinu og var öll tilveran þarna grá í gráu og því engin viðmiðun við umhverfið. Ég fann ekki að ég væri á niðurleið, aðeins að ég sveif. Ekki fann ég heldur hvað sneri upp og niður á sjálfum mér, var sem í þyngdarleysi. Nokkrum augnablikum eftir að ég hóf flugið fékk ég bylmingshögg á bakið um herðar og sveif eftir það að mér fannst endalaust. Á því flugi minnist ég aðeins einnar hugsunar.?Hvað kemur næst?. Skyndilega kom snjógusa í andlit mér og varð brátt ljóst að ég var lentur og það með þeirri mýkt að ég hafði ekki orðið þess var. Einnig varð mér ljóst að ég flaut ofan á snjóskriðu sem var á hraðferð niður í vötnin. Höfuðið sneri undan brekkunni og lá ég á bakinu. Ég tók ósjálfrátt nokkur baksundstök til að halda höfðinu ofan á snjónum. Skyndilega nam ég staðar og mér gafst tími til hugsa. Allt var kyrrt, hljótt og hvítt. Ég fann hvergi til og datt eitt augnablik í hug að þetta hlyti að vera himnaríki.“

Menn hafa fyrir satt að Leifur hafi fljótt sannfærst um að hann væri ekki kominn til himnaríkis, bæði fann hann fyrir kulda í andliti og eymslum í brjóstkassa enda trúlegast nokkur rifbein brotin en þarna á þessum stað og þessari stundu var annað mikilvægara. Merkilegt var þó að eftir þetta ríflega 200 metra frjálsa fall fyrir björg var hann með skíðin óbrotin á fótunum og gleraugun á nefinu en kjálkar sleðans sem hann hafði dregið á eftir sér voru mölbrotnir og einna líklegast að hann hafi komið í bak Leifi og valdið högginu. Örstuttu síðar varð Leifur var við hreyfingu ofan við sig og sér þá að þar er Magnús félagi hans kominn og hafði hann hrapað sömu leið þegar snjóhengjan sem Leifur gekk fram af brast undir fótum hans. Var Magnús einnig alheill og fóru þeir nú að velta fyrir sér hvernig best væri að komast til baka. Bundu þeir vonir við að Hallgrímur sonur Magnúsar sem var með í för myndi síga niður í böndum og fikruðu sig því upp að hamrastálinu, „en lentum brátt í sjálfheldu í miklum hamrakór er gnæfði yfir okkur. Á samri stundu heyrðum við skræki mikla ofan úr klettunum um það bil 20 metrum ofan við okkur var þar kominn Hallgrímur. Má nærri geta hversu honum hefur létt að sjá gömlu mennina fjallhrausta í fönninni. Hefði getað búist við flestu öðru. Hann kvaðst hafa sigið 80 metra eða á enda línanna (sem þeir höfðu tiltækar) en síðan klifrað aðra 80 metra í klettum áður en hann sá og heyrði til okkar. Við fórum nú að fikra okkur upp ísuga klettana á mjúkum gönguskíðaskónum. Fannst mér við hafa verið eilífðartíma í þessu brölti er við urðum aftur varir við Hallgrím fyrir vestan og ofan okkur. Hann kom bráðlega til okkar línuenda og var síðan öryggið haft í fyrirrúmi og allt klifur eins tryggt og við var komið. Hengjan á fjallsbrúninni slútti út yfir hyldýpið og nú vorum við á klettasyllu u.þ.b. 10 metrum undir brúninni. Hér námum við staðar augnablik og gerðum okkur þá grein fyrir því að 6 tímar voru liðnir frá því að ég sveif fram af. Allan þann tíma höfðu félagarnir setið uppi á brúninni í hífandi skafrenningi og raunar lítt vitað hvað var að gerast í neðra. Má nærri geta hversu líðan þeirra hefur verið. Nú var síðasti áfanginn eftir og var það mér til happs að ekki sást niður í 200 metra hamrabeltið (Hallgrímskirkjuturn 70 m) og traustir menn á brúninni.“

Upp klifu þeir þremenningar og orðar Leifur það svo að þegar hann settist loks hjá félögunum uppi á brúninni voru „ekki viðhöfð mörg orð en handtakið var þétt“.

Var síðan haldið til baka í skálann og gerði veður svo vont næstu daga að ekki reyndist unnt að sækja þá félaga fyrr en þremur dögum síðar sem kom þó ekki að sök segir Leifur, því „húsakynnin voru góð og nægur matur“. Áframhaldandi skíðaganga var afskrifuð þar sem Leifur hafði misst allan sinn búnað við hrapið. Höfðu þá félagar úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík verið tæpa þrjá sólarhringa á leiðinni en ekkert komist vegna veðurofsans. „Björgunar-sveitarmennirnir voru að vonum vansvefta og þreyttir við komu og lögðu sig í þrjá klukkutíma. Svo var hinn ágæti Grímsvatnaskáli kvaddur og komið af jökli í Jökulheima eftir 6 tíma stapp. Á leiðinni hafði blaðamaður Morgunblaðsins samband við mig um farsíma og vildi ferðasögu. Ég sagðist ekki treysta blaðamanni til að fara rétt með gegnum síma og bauðst til að tala við hann er ég kæmi í bæinn. Blaðamaður taldi það of seint, enginn hefði áhuga á sólarhringsgamalli frétt og skildi þar með okkur.“

Verða lesendur Læknablaðsins að gera upp við sig hvort þeim þykir sagan í frásögur færandi þó nú sé hún orðin nær 18 ára gömul!

 

 

Jöklar í fóstur

Eitt af verkefnum Leifs sem félaga í Jöklarann-sóknarfélaginu hefur verið mæling á skriðjöklum og hann orðar það svo að hafa tekið tvo skriðjökla Hofsjökuls í fóstur.

„Þetta eru Arnarfellsmúlajökull eins og hann heitir fullu nafni og hinn heitir Nauthagajökull og eru upp af Þjórsárverum og þangað hef ég farið á nær hverju hausti í 30 ár að mæla sporða. Með mér í þessu hafa oftast verið kollegarnir Jón Þorsteinsson, Þorvaldur Veigar Guðmundsson og Sigmundur Magnússon. Hin síðari ár hefur Vigfús Magnússon læknir einnig verið með í för og svo alls konar viðhengi, afkvæmi, skyldmenni og kunningjar og oft hefur þetta verið talsverður hópur. Magnús fóstri minn og verkfræðingur var byrjaður á þessum mælingum áður en ég kom inn í myndina og aðrir á undan honum.“

Keyrið þið þá alla leið inn að Hofsjökli?

„Já, við höfum gert það en þegar ég var að byrja á þessu átti ég Landrover og þá fór maður nú ekki lengra en að Nautöldu og síðan fór heill dagur í að ganga með jöklunum því mælingastaðirnir eru nokkrir. Við eigum svolítinn kofa í Nautöldunni og maður miðaði við að vera kominn aftur í kofann fyrir myrkur. Yfirleitt höfum við verið á ferðinni í lok september því þá er farið að sjatna verulega í ám.“

Hin seinni ár hefur Leifur verið betur akandi, á fullbreyttum Toyota Landcruiser 80 sem einnig hefur reynst vel í jöklaferðunum að hans sögn.

Loks verður að nefna annað áhugamál Leifs sem hann hefur lagt drjúgan skerf til en það eru skálabyggingar Ferðafélagsins Útivistar og Jöklarannsóknarfélagsins en þar hefur hann sannarlega verið betri en enginn að sögn þeirra sem til þekkja. Þeir sem gera sér ferð inn í Þórsmörk komast varla hjá því að njóta handverks Leifs og félaga en göngubrúin við lónið, yfir Steinholtsá og aðrar fyrir innan Bása eru þeirra verk. Hið sama má einnig segja um skálann á Fimmvörðuhálsi. Það er ekki annað hægt en spyrja hvernig Leifur hafi fundið tíma í allar þessar ferðir og verkefni samhliða því að stunda mikla og krefjandi vinnu sem læknir. 4Þegar ég var að vinna hafði ég tíma til alls en nú þegar ég er hættur að vinna má ég aldrei vera að neinu. Þetta er furðulegur andskoti.“

Leifur Jónsson læknir.

Tilbúnir til átaka. Á leið upp Blágnípujökul í Hofsjökli 1956. Ljósm. Magnús Hallgrímsson.

Eftir skíðagönguna frá Gullfossi yfir Hofsjökul og niður í Eyjafjörð 1956. Haukur Árnason læknir, Jóhann L. Jónasson læknir, Magnús Hallgrímsson verkfræðingur, Leifur Jónsson læknir, Óli Björn Hannesson læknir. Á myndina vantar Eirík Sveinsson lækni. Ljósm. Kristján Hallgrímsson.

Gengið á Möðrudalsöræfum. Ljósm. Leifur Jónsson

Grímsfjall í Vatnajökli. Ef rýnt er í myndina sjást tvær mannverur á hengjunni ofan á fjallinu. Þar fóru þeir félagar Leifur og Magnús fram af 1989. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Sami hópur 50 árum síðar. Ljósm. Ólafur Hallgrímsson.

Í Laugafelli 2006. Fimmmenningarnir óku yfir Hofsjökul til að minnast göngunnar 50 árum fyrr. Ljósm. Ólafur Hallgrímsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica