02. tbl 93. árg. 2007

Ritstjórnargrein

Vangaveltur skurðlæknis að lokinni vel heppnaðri ráðstefnu HÍ um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum

Tómas GuðbjartssonSérfræðingur í hjarta- og lungnaskurðlækningum við Landspítala og aðjúnkt við læknadeild HÍ. Tómas er jafframt fomaður Skurðlæknafélags Íslands og á sæti í ritstjórn Læknablaðsins.

Í byrjun árs fór fram í Öskju 13. ráðstefnan um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Ráðstefna þessi hefur verið haldin annað hvert ár frá 1981, fyrst á vegum læknadeildar, en frá árinu 2003 einnig með þátttöku tannlæknadeildar, og lyfjafræðideildar og hjúkrunarfræðideildar frá árinu 2005. Ég hef aðeins átt þess kost að taka tvisvar þátt í ráðstefnunni, enda lengst af verið fjarri góðu gamni við nám og störf erlendis. Það er óhætt að segja að þessi ráðstefna hafi komið mér þægilega á óvart og hún er aðstandendum til sóma, bæði hvað varðar vísindalegt innihald og skipulag. Alls voru kynnt á ráðstefnunni hátt á þriðja hundrað erinda og voru flest flutt með sjö mínútna löngum erindum og þriggja mínútna umræðna á eftir. Þetta fyrirkomulag reyndist ágætlega. Stutt erindi gerðu fleirum kleift að halda fyrirlestra um rannsóknir sínar en fyrirlestrar voru yfirleitt mjög vel sóttir. Rúmlega 100 erindi voru kynnt sem veggspjöld og nutu þau sín ágætlega á veggjum Öskju. Þó hefði ekki sakað ef veggspjöld hefðu verið kynnt með formlegri hætti, líkt og algengt er á ráðstefnum erlendis. Þetta er til dæmis hægt að gera með því að skipuleggja göngu á milli áhugaverðustu veggspjaldanna, höfundar látnir kynna þau og þeir síðan spurðir spjörunum úr. Skipuleggjendur ráðstefnunnar gætu haft þetta í huga að ári. Gestafyrirlestrar voru einnig áhugaverðir og var komið víða við innan heilbrigðisvísinda, allt frá erfðafræði algengra sjúkdóma til forvarna gegn þunglyndi. Þessi fjölbreytni fyrirlestra er skemmtileg tilbreyting frá þeirri þróun sem orðið hefur innan læknisfræðinnar og leitt hefur af sér sífellt meiri sérhæfingu og þrengingu fræðasviða. Fjölbreytni er einmitt helsti styrkur svona þings og það er ekki á hverjum degi sem okkur spítalalæknum gefst kostur á að kynna rannsóknir okkar fyrir kollegum í óskyldum sérgreinum og grunnrannsóknum, eða að þeir fái að kynna rannsóknir sínar fyrir okkur. Umræður taka á sig fjölbreyttari mynd og möguleikar opnast á alls konar samstarfi.

Ánægjulegast á þinginu var þó að verða vitni að gróskunni í doktorsnámi við þessar deildir Háskólans. Sex doktorsnemar kynntu rannsóknir sínar en þau höfðu öll hlotið styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands á síðasta ári. Verkefnin voru hvert öðru betra og kynningar nemanna til fyrirmyndar. Læknadeild átti þarna glæsilega fulltrúa og ég þori að fullyrða að þessi rannsóknarvinna gefur doktorsvinnu við háskóla í nágrannalöndum okkar ekkert eftir. Vonandi verður framhald á þessari þróun enda tel ég eflingu doktorsnáms vera eitt mikilvægasta verkefni læknadeildar á komandi árum.

Að loknu vel heppnuðu þingi vakna þó spurningar. Til dæmis er áberandi hversu þátttaka er breytileg eftir sérgreinum læknisfræðinnar. Lyflækningar, sérstaklega hjarta-, lungna- og smitsjúkdómalækningar, voru mjög áberandi en minna fór fyrir öðrum stórum greinum, þar á meðal skurðlækningum. Nú er ekki hægt að álykta sem svo að þátttaka á þessu þingi endurspegli rannsóknarvirkni lækna. Engu að síður er ljóst að í sérgreinum skurðlækninga er rannsóknavirkni dræm. Þar hefur ekki orðið sama „sprenging“ í rannsóknum og hjá öðrum greinum og spurningin er hvað valdi þessu. Ekki geta margar sérgreinar á Íslandi státað af jafn mörgum sérfræðingum sem lokið hafa doktorsprófi við erlenda háskóla. Það er einfaldlega vegna þess að erlendis eru rannsóknir stór og mikilvægur hluti af sérnámi skurðlækna. Eðlilegt er að sömu gildi séu viðhöfð hér á landi og að rannsóknir séu stundaðar bæði fyrir og eftir að sérnámi lýkur. Ljóst er að bæði sérfræðingar og unglæknar verða að taka höndum saman og breyta þessu. Sameining spítalanna er að baki og aðstæður til að sinna rannsóknum hafa sennilega aldrei verið jafn ákjósanlegar. Skurðlæknar og unglæknar á leið í sérnám bera því gjarnan við að þá skorti tíma til að sinna rannsóknum og er mikilvægt að endurskipuleggja vinnu þeirra með þetta í huga. Það er framkvæmanlegt og er augnlæknisfræði þar ágætt dæmi. Um er ræða sérgrein þar sem rannsóknir bæði yngri og eldri kollega blómstra. Þetta kom berlega í ljós á nýafstöðnu þingi og ætti að verða öðrum sérgreinum til fyrirmyndar.

Það er full ástæða til að hvetja lækna innan allra sérgreina að taka þátt í þeirri „uppskeruhátíð“ sem Háskólaráðstefnan er. Slíkt styrkir sérgreinarnar og ekki síst læknadeildina. Um leið er þrýst á kennara deildarinnar að sinna rannsóknum og kynna þær á opinberum vettvangi. Það er eðlileg krafa og mikilvægt skref í þeirri viðleitni að efla enn frekar rannsóknir við læknadeildina.Þetta vefsvæði byggir á Eplica