02. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Sjóður aldanna - úr handriti frá 18. öld

- óbrigult ráð við kvefi

Á handritadeild Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns eru varðveitt nokkur handritasöfn sem geyma sitthvað frá forfeðrum okkar. Jón Sigurðsson forseti Hins íslenska bókmenntafélags var ötull handritasafnari og handrit sem hann bjargaði frá glötun eru merkt honum, JS. Eitt þeirra er númer 227 í safni hans, samtals 81 blað eða 162 blaðsíður. Handrit þetta er í smáu broti, svokölluðu oktavóbroti (táknað 8vo), skrifað um 1750. Þar er að finna ýmsan samtíning og hollráð í erli dagsins. Hér á eftir fara nokkur þeirra:

 

Við hósta og hæsi - ... tak það rauða af hænueggi og drekk á tóman magann.

Við hæsi - Tak pipar mulinn og haf í munni þér lengi og svelg með munnvatni þínu.

Um augun - Sá sem vill halda heilsu augna sinna, hann varist eldreyk, of mikla amorselsku, megnan grát, mikinn drykkjuskap, of mikinn miðdagssvefn, óhóflegar vökur, og þá fæðu sem verkar innan vessa.

Að stilla samlyndi hjóna - Tak tóugall og myl það smátt, lát í drykk fyrir hjónin svo þau viti ei, og mun þá batna.

Einerber hafa þessar dygðir - ... 1) Sá maður sem þau etur um alla sína ævi verður aldrei bráðdauður. Engin óleyfileg lostasemi á stríðir þann sína ævi. 2) Þau hreinsa líkamann af illu blóði. ... 4) Þau gjöra allan líkamann varman og sætan anda. ... 9) Þau styrkja mannsins heila. 10) Þau skipta fagurlega og jafnan hugviti manns. 11) Þau hressa sýnina. ... 13) Þau gjöra klára raustina. ... 15) Þau burt drífa vind úr maga. 16) Þau láta mat vel kokkast. ... 19) Þau duga við nýrnaverk. ... 21) Þau gjöra góða lukt í munni manns.

Á myndinni sem er af blaði 67v (versósíðu, þ.e. síðunni á bakhlið blaðs 67) sjást meðal annarra eftirfarandi ráð:

Við kvefi - Taka skal sokka þá sem maður hefur lengi í verið, skóleikna, og lykta svitalyktina úr þeim, 2 eða 3 morgna sem mest maður má, svo mun kvefið minnka.

Við minni - Tak saltpétur og myl vel og menga við vín, og drekk þar af, það það mun gjöra gott minni.

JS 227 8vo, 67v.Þetta vefsvæði byggir á Eplica