01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Heimsókn í Fjölsmiðjuna. Gríðarlega góður árangur

Á besta stað í Kópavogi, við Kópavogsbraut 5-7, er rekin starfsemi sem lítið lætur yfir sér en lyftir sannkölluðu Grettistaki á hverjum degi. Fjölsmiðjan undir stjórn Þorbjörns Jenssonar er vinnustaður ungmenna á aldrinum 16-24 ára sem hafa af ýmsum orsökum flosnað uppúr skóla og/eða gengið illa á fóta sig á vinnumarkaði. Blaðamaður Læknablaðsins heimsótti Fjölsmiðjuna einn dag fyrir jólin og hreifst mjög af því jákvæða og líflega andrúmslofti mannbætandi uppbyggingar sem þar ríkir.

"Eigum við ekki að ganga um staðinn svo þú vitir betur hvað ég er að tala um," er það fyrsta sem Þorbjörn segir við mig þegar ég er kominn inn fyrir dyrnar á Fjölsmiðjunni. Ég þigg það en bið hann samt að segja örlítið frá forsögunni, og hvað Fjölsmiðjan sé. Það kemur á óvart að heyra að Fjölsmiðjan hefur starfað um fimm ára skeið, þar hafa um 300 ungmenni starfað um lengri eða skemmri tíma og starfsemin stækkar sífellt, verður umfangsmeiri og tekur til fleiri starfsgreina.

Vinnustaður en ekki skóli

"Frumkvöðlar að stofnun Fjölsmiðjunnar var fólk frá Rauðakrossi Íslands sem hafði kynnst svipuðu starfi í Danmörku við svokallaða produktionskóla sem þar hafa verið starfræktir um árabil. Við sækjum fyrirmyndina þangað en höfum reyndar farið okkar eigin leiðir við uppbygginguna en erum í góðu sambandi við produktionskólann Elsesminde í Óðinsvéum. Við viljum reyndar ekki kalla þetta skóla, heldur vinnustað, enda er það réttnefni," segir Þorbjörn um leið og hann opnar dyr að trésmíðaverkstæðinu. "Við Fjölsmiðjuna eru sjö deildir, trésmíða-, bíla-, hússtjórnar-, raf-, kennslu-, hönnunar-, skrifstofu- og pökkunardeild og framundan er að stofna sjávarútvegsdeild en Fjölsmiðjan hefur nýlega fest kaup á 150 tonna bát sem gerður verður út frá Hafnarfirði," bætir hann við.

Allt starf Fjölsmiðjunnar byggist upp á samstarfi ungmennanna og starfsfólks Fjölsmiðjunnar sem reyndar er rangt að aðskilja með þessum hætti enda leggur Þorbjörn áherslu á að hann og hans fólk séu samstarfsfólk ungmennanna, leiðbeinendur að vísu en alls ekki starfsfólk sem annist skjólstæðinga. "Þetta er grundvallaratriði í hugmyndafræðinni að baki Fjölsmiðjunni, hér vinna allir saman og hér hafa allir rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri."

Ungmennin sem leita til Fjölsmiðjunnar eiga það sameiginlegt að hafa flosnað upp úr skóla- kerfinu í lok grunnskóla eða á framhaldsskóla-?stigi og ekki náð að fóta sig í atvinnulífinu. Þunglyndisvandamál geta verið til staðar og sumir eru að ná sér á strik eftir meðferð við neyslu fíkniefna.

"Við bjóðum þeim að velja sér deild sem hentar þeim og þeirra áhugasviði. Við erum í góðu samstarfi við ýmsa aðila, svo sem Vinnumálastofnun, menntamálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu," segir Þorbjörn og útskýrir að samstarfið við Vinnumálastofnun felist í því að ungmennin fái greidd laun sem svari til fullra atvinnuleysisbóta séu þau 18 ára eða eldri, en þau sem eru 16-18 ára fá 80% af atvinnuleysisbótum.

Samstarf við stofnanir og fyrirtæki

"Þau geta einnig sótt skóla með vinnunni héðan og fá aðstoð til þess. Sumum hentar að taka lítið í einu, þau ráða kannski ekki við fulla skólasókn af ýmsum ástæðum og þá tökum við tillit til þess. Hér er miðað við þarfir hvers og eins og hraðinn ákvarðast af því."

Starf deildanna byggist á samstarfi við ýmsa aðila og má nefna að einn stærsti viðskiptavinur trésmíðadeildar er BYKO sem Fjölsmiðjan setur saman smáhýsi fyrir. Þorbjörn sýnir mér stoltur myndir af stórum timburhúsum sem vaskir smiðir deildarinnar hafa byggt, ýmist í einingum til samsetningar á byggingarstað eða í heilu lagi á staðnum. Í rafdeildinni hafa starfsmenn meira en nóg að gera við að yfirfara og lagfæra raftæki fyrir Sorpu og Góða hirðinn en deildin sér einnig um að rífa ónýtan tölvubúnað fyrir Efnamóttökuna. "Það er ótrúlegt hvað hér kemur mikið inn af góðum tækjum sem oft þarf lítið að gera við og eru síðan seld aftur í Góða hirðinum," segir Þorbjörn. Bíladeildin sér um alþrif á bílum fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga og þegar mér datt í hug að spyrja hvort þeir gætu tekið bílinn minn í langþráða klössun þá var allt upppantað framað jólum. Kennsludeildin veitir einsog nafnið bendir til stuðning við þá sem vilja taka upp þráðinn í skólagöngunni og ljúka tíunda bekk grunnskólans eða stunda fjarnám við framhaldsskóla. Í skrifstofu- og tölvudeild er gerður upp tölvubúnaður sem seldur er aftur í Góða hirðinum og pökkunardeildin sér um pökkun og frágang allrar kornvöru fyrir Heilsuhúsið. Hönnunardeildin er nýjasta deildin innan Fjölsmiðjunnar þar fer fram mikil hugmyndavinna sem er síðan komið í framleiðslu og í verð. Ekki lítið starf það.

Í hússtjórnardeildinni sem er í rauninni stórt eldhús sem sér um matseld fyrir alla starfsmennina, 60 talsins, er ljúfur bökunarilmur í loftinu. Deildarstjórinn og yfirkokkurinn Jónas Hallgrímsson, býður mér að bragða á nýbökuðum smákökum sem seldar eru á lágmarksverði þeim sem á annað borð vita af þeim kostakjörum.

"Það eru kannski ekki mjög margir út í þjóðfélaginu sem vita af Fjölsmiðjunni enda höfum við lítið gert af því að auglýsa okkur. Þegar Fjölsmiðjan tók til starfa fyrir fimm árum þá var ekki vitað hver þörfin væri fyrir svona starfsemi. Það kom fljótt í ljós að hún var mikil og félagsmála- og heilbrigðisyfirvöld voru alls hugar fegin þar sem algerlega hafði skort úrræði fyrir þennan hóp. Starfsemin hefur vaxið mjög og nú er svo komið að við getum ekki tekið við fleirum nema fara út í verulega stækkun. Við viljum fara varlega í það."

 

 

Áttatíu prósent árangur

Þegar grennslast er fyrir um árangur af starfinu segir Þorbjörn brosandi að markmiðið sé að gera starfsmenn Fjölsmiðjunnar að góðum starfsmönnum sem hvaða fyrirtæki getur verið stolt af. "Það sem þessir krakkar þurfa fyrst og fremst á að halda er sjálfstraust. Þegar þau hafa fengið það eru þeim flestir vegir færir. Þau koma hingað niðurlút og með lélega sjálfsmynd, segjast ekkert geta og ekkert kunna, sem er alrangt því öll hafa þau hæfileika og kunnáttu sem hægt er að vinna með. Þau þurfa að tileinka sér sjálfsaga og mæta á réttum tíma til vinnu, þau þurfa að læra samskipti við aðra á vinnustaðnum og læra að taka leiðsögn. Við leggjum áherslu á að vinna með þeim, hér eru engir verkstjórar í þeim skilningi, við vinnum öll saman og berum virðingu hvert fyrir öðru. Þetta er lykilatriði. Þegar þetta hefur tekist eru þau tilbúin að takast á lífið að nýju. Um 80% þeirra krakka sem hér hafa farið í gegn hafa náð þeim árangri að geta í kjölfarið farið að gera það sem hugur þeirra stendur til."

Rafdeildin

Trésmíðadeildin

Pökkunardeildin

Hússtjórnardeildin

Tölvudeildin

Þorbjörn Jensson forstöðumaður FjölsmiðjunnarÞetta vefsvæði byggir á Eplica