01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Útgáfa sérfræðileyfa

Innihald sérfræðinámsins skiptir mestu máli

olafurbaldurs[1]Ólafur Baldursson lungnalæknir hefur setið sem fulltrúi læknadeildar HÍ í nefnd sem skipuð var af heilbrigðisráðherra og skyldi endurskoða reglugerð um veitingu sérfræðileyfa. "Þessi nefnd hélt nokkra fundi en hefur ekki verið kölluð saman í nokkuð marga mánuði," segir Ólafur. Hann gegnir stöðu sviðsstjóra á Skrifstofu kennslu, vísinda og þróunar á Landspítala og gegnir til áramóta stöðu framkvæmdastjóra framhaldsmenntunarráðs læknadeildar. "Það eru því ýmsar breytingar á mínum starfshögum sem gætu valdið því að annar yrði skipaður fulltrúi læknadeildar í minn stað á nýju ári."

"Framhaldsmenntunarráð læknadeildar lagði á það áherslu fyrir nokkrum árum að hefja þyrfti endurskoðun reglugerðar um útgáfu sérfræðileyfa, fyrst og fremst vegna þess að eina viðmiðið sem þar er stuðst við er tímaákvæðið, þ.e. hvort viðkomandi hefur starfað nógu lengi á ákveðinni deild til að geta talist sérfræðingur. Það er hins vegar lítið sem ekkert minnst á innihaldið og við höfum haft áhyggjur af þessu í framhaldsmenntunarráði, ekki síst vegna þess að ráðið stóð fyrir gerð marklýsinga í hverri grein og því er heilmikið af lýsingum til fyrir ýmsar greinar, s.s. lyflækningar, skurðlækningar, geðlækningar, bráðalækningar og heimilislækningar og við höfum áhuga á því að skilgreina sérfræðileyfin mun nánar útfrá innihaldi starfsnámsins. Í löndunum í kringum okkur eru menn talsvert lengra komnir í þessu og Bandaríkjamenn einna lengst. Við höfum haft til hliðsjónar marklýsingar frá Danmörku og Svíþjóð og læknadeild hefur ákveðið að láta þýða og staðfæra dönsku reglugerðina um veitingu sérfræðileyfa og í framhaldi af því má leyfa sér að vona að einhver skriður komist á þetta brýna mál."

Ólafur segir að fulltrúar lækna hafi lagt til ákveðið vinnulag í nefndinni sem felur í sér að forsvarsmenn hverrar fræðigreinar séu kallaðir til ásamt fulltrúa hvers sérgreinafélags og þannig sé hægt að samræma sjónarmið fræðigreinarinnar og fagfélagsins. "Nefndin hefur kallað fyrir fulltrúa tveggja greina nú þegar, lyflækninga og heimilislækninga, þannig að vinnan við þetta er komin af stað, en nefndin hefur ekki verið kölluð saman um nokkurt skeið og forræðið fyrir nefndinni liggur í heilbrigðisráðuneytinu."

Ólafur segir að auðvitað sé ekki hægt að bjóða upp á neitt annað en veitingu sérfræðileyfa samkvæmt gildandi reglugerð. "Meðan sú staða er uppi er auðvitað rakið fyrir alla þá sem geta sýnt fram á tilskildan lágmarkstíma á deild að sækja hingað eftir sérfræðileyfi."

Ólafur tekur undir það með öðrum viðmælendum Læknablaðsins að mjög brýnt sé að endurskoða reglugerðina og þá sé vissulega full ástæða til að velta því fyrir sér hvort veita eigi erlendum læknum sem ekki hyggja á störf á Íslandi, íslenskt sérfræðileyfi.

"Þetta er auðvitað pólitísk spurning fyrst og fremst. Er eðlilegt að við séum að meta menn til lækninga- og sérfræðileyfis ef þeir ætla ekki að starfa hérlendis? Það væri hjálplegt að fá breiðari umræðu um þá spurningu, ekki síst meðal stjórnmálamanna."Þetta vefsvæði byggir á Eplica