01. tbl 93. árg. 2007

Umræða og fréttir

Um Læknablaðið. Skilgreiningar - verklag

Skilgreining

Læknablaðið er vísinda- og félagsrit íslenskra lækna. Eigendur blaðsins eru félagar í Læknafélagi Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur. Í útgáfustjórn blaðsins sitja formenn Læknafélags Íslands og Reykjavíkur og sitjandi ritstjóri (ábyrgðarmaður) Læknablaðsins. Læknablaðið birtir fræðigreinar (vísinda­grein­ar) um líf- og læknisfræði og fylgir um meðferð þeirra alþjóðlegum stöðlum læknarita. Læknablaðið birtir einnig efni um heilbrigðismál í víðustu merkingu. Ritstjórn Læknablaðsins tekur ein ákvarðanir um birtingu efnis og fylgir þá sömuleiðis alþjóðlegum stöðlum alþjóðanefndar ritstjóra læknablaða (ICMJE) og að auki codex ethicus lækna. Ritstjórn Læknablaðsins freistar þess að lúta ítrustu reglum um vísindaleg gæði fræði­greina og gæði annars birts efnis þannig að sé íslenskri læknisfræði og íslenskum læknum til sóma.

 

 

1. Ritstjórn

a) Ritstjóri. Ritstjóri er jafnframt ábyrgðarmaður Læknablaðsins og talsmaður þess. Útgáfustjórn Læknablaðsins skipar ritstjóra til tveggja ára í senn. Ráðningu ritstjóra lýkur sjálfkrafa nema að útgáfustjórn endurnýi umboð hans. Ritstjóri skal hafa yfirsýn um efni blaðsins, lesa allt efni fyrir birtingu eða tilnefnir ritstjórnarmenn til þess í sínu umboði. Ritstjóri getur einn sér hafnað birtingu tiltekins efnis og þá í krafti ábyrgðar hans á birtu efni í Læknablaðinu.

b) Ritstjórn. Útgáfustjórn skipar ritstjórnarmenn til tveggja ára í senn. Útgáfu­stjórn ákveður fjölda ritstjórnarmanna og leitast við að skipa í ritstjórn Læknablaðsins lækna með mismunandi mennta- og starfsbak­grunn. Ráðningum ritstjórnarmanna lýkur sjálfkrafa nema útgáfustjórn endurnýi umboð þeirra. Ritstjóri og ritstjórnarmenn bera sameiginlega ábyrgð á ákvörðunum ritstjórnar, þó með þeirri undantekningu, sem getur í síðustu setningu 1a. Ritstjóra og ritstjórn Læknablaðsins ber að kynna sér Helskinkisáttmála WHO um rannsóknir á mönnum, alþjóðleg og siðfræðileg viðmið í Good Clinical Practice (GCP) reglum, gildandi lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, reglugerð um rannsóknir á heilbrigðissviði, viðmið Vísindasiða­nefndar og lög nr. 77/200 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ritstjóri felur ritstjórnarmönnum umsjón með umfjöllun allra aðsendra fræðigreina, jafnan einum ritstjórnarmanni til aðalábyrgðar og öðrum til vara. Ábyrgir ritstjórnarmenn eru í reynd ritrýnar innan ritstjórnar Læknablaðsins. Ábyrgir ritstjórnarmenn skulu finna hæfa ritrýna utan ritstjórnar, aldrei færri en tvo, fyrir hverja aðsenda fræðigrein. Skulu ábyrgir ritstjórnarmenn gera ritstjórn stuttlega grein fyrir niðurstöðu ritrýni á fundum ritstjórnar og taka þar til umfjöllunar sérstök álitamál. Ábyrgir ritstjórnarmenn geta þó lagt til við ritstjórn að tiltekin fræðigrein skuli birt eða henni hafnað án þess að leitað sé ritrýni utan ritstjórnar.

c) Ritstjórnarfulltrúi. Ritstjórn Læknablaðsins ræður ritstjórnarfulltrúa með samþykki útgáfustjórnar. Ritstjórnarfulltrúi verkstýrir skrifstofu blaðsins, þ.m.t. öðrum fastráðnum starfsmönnum þess og annast dagleg málefni þess í umboði ritstjóra og ritstjórnar. Ritstjórnarfulltrúi ber ábyrgð á daglegum fjárhagslegum rekstri. Ritstjórnarfulltrúi starfar í nánu samstarfi við ritstjóra og ritstjórnarmenn. Ritstjórnarfulltrúi annast samskipti milli ritstjórnar og höfunda aðsends efnis.

d) Auglýsingastjóri/ritari. Ritstjórn Læknablaðsins ræður, í samvinnu við ritstjórnarfulltrúa, auglýsingastjóra/ritara, sem annast söfnun auglýsinga í Lækna­blaðið og gerir ritstjórn reglulega grein fyrir stöðu þeirra mála. Auglýsingastjóri/ritari starfar undir daglegri stjórn ritstjórnarfulltrúa. Öll vinna við heimasíðu blaðsins er á hendi ritarans, sömuleiðis samskipti við áskrifendur, auglýsendur, pökkunar- og dreifingaraðila. Ritari sér einnig um símsvörun o.fl. sem tengist Læknablaðinu.

e) Blaðamaður. Ritstjórn Læknablaðsins ræður blaðamann með samþykki út­gáfu­stjórnar. Blaðamaður starfar undir daglegri stjórn ritstjórnarfulltrúa. Blaðamaður skrifar, í samráði við ritstjórnar­fulltrúa og ritstjórn, um heilbrigðismál í víðustu merkingu og annað efni sem ætla má að læknar telji áhugavert.

 

 

2. Vinnureglur Læknablaðsins

a) Vinnulag ritstjórnar: Almennar leikreglur lýðræðis ráða vinnulagi ritstjórnar. Allar tillögur og ályktanir sem ritstjórnarmenn óska eftir að fái umfjöllun í ritnefnd skulu ræddar og um þær greidd atkvæði þar sem meirihluti ræður. Það er skylda ritstjóra að gefa öllum ritstjórnarmönnum kost á að kynna sér, tjá sig um og taka þátt í ákvörðunum um mál sem ritstjóri og ritstjórnarmenn telja að orkað geti tvímælis. Ritstjórnarmaður, sem ekki hefur fengið tækifæri til þess að taka afstöðu til álitamáls er varðar birtingu efnis, telst ekki bera ábyrgð á birtingu eða höfnun þess. Einfaldur meirihluti ritstjórnar er loka­ákvörðun um birtingu eða höfnun efnis, þó með þeirri undantekningu, að ritstjóri getur einn sér hafnað birtingu tiltekins efnis (sbr.1a).

b) Þagnarskylda. Ritstjóri, ritstjórnarmenn og starfsmenn blaðsins skulu halda trúnað um mál er varða inntak og meðferð innsends efnis. Ritstjóri, ritstjórnarmenn og starfsmenn Læknablaðsins ræða ekki við aðra aðila einstakar rannsóknir og rannsóknaniðurstöður áður en þær birtast.

 

3. Hagsmunatengsl og vanhæfi

Ritstjóri úthlutar verkefnum með þeim hætti að ekki reyni á hagsmunatengsl einstakra ritstjórnarmanna í ábyrgð og umfjöllun um aðsent efni. Ritstjóri og ritstjórnarmenn gera ritstjórn grein fyrir hugsanlegum hagsmuna­tengslum sem gætu haft áhrif á störf þeirra og afstöðu í ritstjórn. Í meginatriðum er þá farið að reglum ICMJE. Meti ritstjóri og/eða meirihluti ritstjórnar einhvern úr sínum hópi eða einhvern meðal starfsfólks Læknablaðsins vanhæfan til þátttöku í ákvörðun um tiltekin atriði skal sú ákvörðun undantekningarlaust virt. Ritstjóri og ritstjórnarmenn geta leitað álits útgáfustjórnar og lögmanna lækna­félaganna ef ágreiningur verður um vanhæfi í einstökum málum. Skulu þeir álitsgjafar þá sömuleiðis fara að reglum ICMJE.Þetta vefsvæði byggir á Eplica