09. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Heilsa og starfsumhverfi lækna rannsakað

Liður í fjögurra landa könnun á vinnutengdri heilsu og starfsumhverfi lækna

Í október næstkomandi mega allir læknar með gilt lækningaleyfi sem búsettir eru hér á landi eiga von á að fá boð um þátttöku í rannsókn sem nefnist Umgjörð og heilsa í starfi lækna. Þarna er um að ræða rannsókn sem fram fer samtímis í fjórum löndum og hefur það meginmarkmið að bera saman vinnu­tengda heilsu lækna, starfsumhverfi og stofnanamenningu á milli fjögurra háskólasjúkrahúsa í jafnmörgum löndum. Á Íslandi nær rannsóknin til allra lækna og mun því einnig gefa upplýsingar um starfsumhverfi eftir tegund og staðsetningu innlendra heilbrigðisstofnana. Ennfremur er aflað upplýsinga um heilsu og lífsstíl íslenskra lækna.

Að íslenskum hluta rannsóknarinnar standa Land­læknisembættið, Læknafélag Íslands, Landspít­ali, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og Rannsóknastofa í vinnuvernd við Háskóla Íslands. Verkefnið er hýst hjá landlækni og fyrir því fer Lilja Sigrún Jónsdóttir læknir og verkefnisstjóri en Þorgerður Einarsdóttir lektor er formaður rannsóknarhóps íslenska verkefnisins. Blaðamaður Læknablaðsins hitti þær að máli ásamt Ólöfu Sigurðardóttur lækni en hún var formaður Félags kvenna í læknastétt á Íslandi þegar það átti frumkvæði að því að hrinda þessu verkefni af stað hér á landi.

"Meginmarkmiðið með erlenda verkefninu er að skoða vinnuskipulag og umhverfi lækna á fjórum háskólasjúkrahúsum og líðan þeirra lækna sem þar starfa. Hér á Íslandi bætast við nokkrar almennar spurningar um heilsu og lífsstíl," segir Lilja. Þorgerður bætir því við að í raun séu þetta tvö verkefni því íslenska rannsóknin nær til allra lækna, ekki bara þeirra sem starfa á Landspítala.

Fjölmennt bakland

Lilja segir að læknar fái send gögn til að svara spurningalista sem verður á ensku og þeir verði beðnir að svara á heimasíðu verkefnisins á netinu. Enskur titill þess er Health and Organization among University Hospital Physicians in four European Countries - The HOUPE Study. Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og St. Olav´s Hospital í Þrándheimi munu auk Íslands leggja listann fyrir á netinu á ensku og er það fyrst og fremst gert til að forðast skekkjur í niðurstöðum sem gætu skapast af mismunandi þýðingum hugtaka. Hjá Azienda Ospedaliera Universita í Padova á Ítalíu verður listinn lagður fyrir á pappír og þýddur á ítölsku.

"Meirihluti spurninganna er sameiginlegur fyrir öll löndin en íslensku sérspurningarnar snúast um almenna heilsu lækna og hvernig þeir hugsa um hana. Hvert land hefur svo sitt ábyrgðarsvið innan rannsóknarinnar og sjáum við hér um samspil vinnuskipulags og heilsu, Þrándheimur um þagnarskyldu lækna og áhrif hennar á líðan, Stokkhólmur um starfsframa innan háskólasjúkrahúsa og loks ætla þeir í Padova að kanna tíðni sjálfsvígshugsana lækna en sá hluti er takmarkaður við ítalska og sænska hópinn," segir Lilja.

Ólöf segir að fjöldi lækna hafi tekið þátt í að móta verkefnið og semja spurningar, bæði sjúkrahúss- og heilsugæslulæknar úr Reykjavík og af landsbyggðinni. Í verkefnisstjórninni sitja fulltrúar þeirra stofnana sem að rannsókninni standa og áður voru taldar upp en auk þess er starfandi rannsóknarhópur sem í eiga sæti 11 læknar. Verndari verkefnisins er Sverrir Bergmann en hann var hvatamaður að rannsókn sem gerð var á heilsu og starfsumhverfi lækna á Landspít­ala meðan hann var formaður Læknaráðs. Þá rannsókn gerði Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlits ríkisins og er úrvinnsla hennar enn í gangi.

Auk spurningalistanna verða gerðar ýmsar athuganir á aðstæðum í hverju landi, lögum, reglum, ytri umgjörð og innra skipulagi starfseminnar á sjúkrahúsunum fjórum. Niðurstöðurnar verða birtar í lokaverkefnum nema í meistaranámi og í ritrýndum tímaritum. Þorgerður mun stýra meistaranámsverkefnum þar sem aðaláhersla verður lögð á vinnuskipulagið og samanburð milli landa en Guðbjörg Linda Rafns­dóttir á Rannsóknastofu í vinnuvernd mun leiða eitt meistaraverkefni þar sem gerður er samanburður milli hópa innanlands, bæði eftir tegundum vinnustaða og búsetu í þéttbýli eða dreifbýli. Loks verður eitt verkefni boðið 3. árs nema í læknisfræði en það snýst um heilsufar, líðan og lífsstíl lækna á Íslandi. Stefnt er að því að halda málþing haustið 2005 þar sem fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar.

Kröfurnar minnka ekki

En hvers vegna þarf að rannsaka heilsu lækna? Eru þeir ekki fullfærir um að passa upp á hana sjálfir?

"Erlendar rannsóknir og eldri íslenskar rannsóknir hafa sýnt að svo virðist ekki vera. Til dæmis kom fram í einni þeirra að dánartíðni lækna var hærri en annarra starfsstétta hér á landi. Svíar hafa tekið eftir því að fjarvistir kvenkyns lækna hafa aukist verulega á síðustu árum, bæði vegna veikinda og eins vegna þess að þær hætta snemma að vinna og fara á eftir­laun. Menn spyrja sig því hvort vinnuskipulag eigi einhvern þátt í þessu," segir Lilja.

Þær nefna einnig til sögu breytt viðhorf og sjálfs­mynd lækna þar sem yngra fólk í læknastétt sætti sig ekki við óhóflegan vinnutíma sem hefur viljað einkenna læknisstarfið. Þorgerður segir að kröfurnar séu ekki að minnka því uppbygging háskólasjúkrahúsa hafi hert á kröfunum. Það er ekki nóg að standa sig í klínísku starfi heldur þarf líka að sýna lit í rannsóknum og kennslu.

Lilja bendir á að rannsóknin nú sé að hluta hliðstæð þeirri sem áður var gerð á Landspítalanum en þar hafi mismunur í vinnuálagi lækna á milli deilda verið allnokkur. "Nú verður spennandi að sjá hvort þetta er séríslenskt fyrirbæri eða hvort þetta er einkenni á tilteknum tegundum deilda. Af því má eflaust læra sitthvað um skipulag vinnunnar," segir hún.

Þær eru sammála um að það verði forvitnilegt að bera saman þessi fjögur sjúkrahús. Ólöf nefnir einkum samanburð við sjúkrahúsið í Þrándheimi sem er af svipaðri stærð og Landspítali. "Það verður líka spennandi að sjá hvaða munur er á líðan og starfsumhverfi lækna á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum hér á landi og milli þeirra sem starfa á landsbyggðinni, í þéttbýlinu og þeirra sem starfa sjálfstætt á eigin stofu," segir hún. "En það er mjög mikilvægt að hvetja alla lækna til að sýna þessu framtaki áhuga með þátttöku því rannsóknin er háð því að þátttaka sé góð."

Forsvarsmenn rannsóknarinnar Umgjörð og heilsa í starfi lækna, frá vinstri: Ólöf Sigurðardóttir, Þorgerður Einarsdóttir og Lilja Sigrún Jónsdóttir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica