09. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Handbók í aðferðafræði og rannsóknum

Háskólinn á Akureyri hefur gefið út Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum sem er safn 26 ritgerða eftir jafnmarga höfunda. Ritstjórar bókarinnar eru dr. Sigríður Halldórsdóttir og dr. Kristján Kristjánsson prófessorar við Háskólann á Akureyri.

Tæpast þarf að fjölyrða um þörfina á bók sem þessari í þeirri gróskutíð sem nú ríkir í íslenskum heilbrigðisvísindum. Eins og fram hefur komið hér í blaðinu og víðar hafa fjölmörg fyrirtæki, stór og smá, haslað sér völl í íslenskum lífvísindum og starfsfólki í greininni fjölgað ört á síðustu árum.

Í frétt um útgáfu bókarinnar segir meðal annars að ritið innihaldi "ekki eingöngu lýsingar á helstu rannsóknaraðferðum sem notaðar eru í íslenskum heilbrigðisvísindum heldur eru í ritinu einnig lýsingar á mikilvægum undirbúningsskrefum sem lúta að gerð rannsóknaráætlana, s.s. gagnasöfnun, úrtaksgerð, tölfræði og áreiðanleika mælitækja, ásamt köflum um rannsóknarsiðfræði."

Í fréttinni er vitnað til orða dr. Björns Guðbjörnssonar formanns Vísindasiðanefndar sem fagnar því að út sé komin bók um þetta efni sem miðuð er við íslenskar aðstæður að öllu leyti. "Það er fagnaðarefni fyrir rannsóknarnema og kennara þeirra í heilbrigðisvísindum að fá í hendurnar ýtarlega íslenska kennslubók á þessu sviði sem mun auðvelda kennslu og stuðla þannig að enn vandaðri rannsóknavinnu í framtíðinni," segir Björn.

Bókin er gefin út í kiljuformi og er 481 bls. að stærð. Háskólaútgáfan dreifir bókinni og er viðmiðunarverð hennar 3500 krónur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica