09. tbl. 90. árg. 2004
Umræða og fréttir
LÍ ræður hagfræðing til starfa
Að undanförnu hafa farið fram umræður innan læknasamtakanna um nauðsyn þess að Læknafélag Íslands komi sér upp staðgóðum hagtölum á sviði heilbrigðis- og kjaramála. Hefur í því sambandi verið rætt um að stofna hagdeild LÍ. Á formannafundi í vor lagði stjórn LÍ fram tillögu um að gera tilraun til þriggja ára með að ráða hagfræðing til starfa sem fyrst og var hún samþykkt með fyrirvara um samþykki aðalfundar LÍ í haust.
Nú hefur Vilborg H. Júlíusdóttir hagfræðingur verið ráðin til starfa á skrifstofu LÍ frá og með 15. september. Vilborg er cand oecon frá Háskóla Íslands og starfaði hjá Þjóðhagsstofnun á árunum 1987 til 2002. Á árunum 2002 til 2003 var hún forstöðumaður hagdeildar Tryggingastofnunar en hefur frá árinu 2003 verið hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins.
Vilborg er boðin velkomin til starfa.