06. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Lyfjamál - Lækkun lyfjakostnaðar á faglegum forsendum

Lyfjakostnaður landsmanna var tæpir 14 milljarðar kr. á síðasta ári. Hlutur ríkisins í þessari upphæð var 9,4 milljarðar króna og hefur aukning síðustu ára verið um það bil 10% milli ára. Að óbreyttu má því gera ráð fyrir að á yfirstandandi ári verði lyfja­kostnaður ríkisins um 10,3 milljarðar króna. Þegar þetta er skrifað bendir reyndar allt til þess að kostnaðaraukningin verði mun meiri þar sem hækk­un á lyfjaútgjöldum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) var um 18% hærri fyrstu fjóra mánuði ársins en á sama tíma í fyrra.

Ábyrg lyfjanotkun - lægri sameiginleg útgjöld

Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur á undan­förn­um mánuðum kannað ýmsar leiðir til að sporna við útgjaldaaukningu vegna lyfjakostnaðar. Í byrjun ársins var til að mynda kynnt sérstakt átak í lyfja­mál­um heilbrigðisstofnana sem einkum snýr að vali lyfja, innkaupum og útboðum. Átakið er liður í langtímaáætlun ráðuneytisins í lyfjamálum en á næstu mánuðum og misserum er ætlunin að end­urmeta alla helstu þætti lyfjamála og heild­ar­­stefnu í málaflokknum. Nú á vormánuðum mun ráðherra skipa nefnd til að móta stefnu í lyfja­málum og heildarendurskoðun lyfjalaganna en við þá stefnumörkun mun nýútkomin skýrsla Rík­is­endurskoðunar væntanlega verða lögð til grund­vallar, en nauðsynlegt er að bregðast við þeirri alvarlegu niðurstöðu að Ís­lend­ingar greiði rúmlega fjórum millj­örðum meira en sam­svarandi fjöldi Dana eða Norðmanna myndi greiða fyrir lyf á ári hverju.

Sparnaður samkvæmt fjárlögum

Til að koma til móts við 450 milljóna króna sparnaðar­kröfu fjárlaga á lyfjaútgjöldum TR ákvað ráðherra að grípa til margþættra aðgerða sem kynntar voru á blaðamannafundi í byrjun apríl. Veigamest í þeim aðgerðum var verðlækkun lyfja sem Lyfjaverðsnefnd vann að. Hins vegar var ekki reiknað með að lyfja­verðslækkunin skilaði nema hluta þessa sparn­að­ar.

Ráðherra kynnti því meðal annars að tekið yrði upp viðmiðunarverð lyfja með sambærileg meðferðaráhrif (analog-viðmiðunarverð) frá og með 1. maí 2004 í þremur kostnaðarfrekustu lyfjaflokkunum, það er lyf við sársjúkdómi, (prótónpumpuhemlar), lyf sem lækka kólesteról (statín) og geðdeyfðarlyf (SSRI). Einnig kynnti ráðherra breytingu á reglugerð um greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði með gildistöku 1. maí 2004.

Breytingin átti að hafa í för með sér að hætt væri almennri greiðsluþátttöku í coxíb-gigtarlyfjum og örvandi lyfjum eins og rítalíni og amfetamíni. Eftir sem áður var gert ráð fyrir að hægt væri að sækja um greiðsluþátttöku almannatrygginga í þessum tveimur lyfjaflokkum út á lyfjaskírteini að gefnum ákveðnum forsendum. Þessi aðgerð átti aðallega að koma böndum á mikla notkun og mjög aukinn kostnað sem orðið hefur að undanförnu í þessum lyfjaflokkum. Í reglugerðinni var einnig gert ráð fyrir að felld yrði niður 30 daga takmörkun á ávísun þunglyndislyfja og lyfja við sársjúkdómi. Þannig átti að koma til móts við þá sem nota þessa tvo lyfjaflokka og má segja að þetta hafi verið verulega ívilnandi aðgerð til mótvægis við upptöku viðmiðunarverðs í þessum lyfjaflokkum.

Reglugerð frestað gegn verðlækkun á lyfjum

Sem kunnugt er ákvað ráðherra að fresta gildistöku þessara aðgerða til 1. ágúst eftir að fyrir lá að Lyfja­verðsnefnd myndi ná fram verulegri lækkun á lyfjaverði og einnig til að tóm gæfist til að meta þann árangur. Áður höfðu farið fram viðræður um þessar aðgerðir við ýmis hagsmunasamtök. Í þeim viðræðum lýstu fulltrúar Gigt­ar­félagsins og gigtarlækna yfir áhyggj­um vegna þeirrar ákvörðunar að hætta al­mennri greiðslu­þátttöku í coxíb-gigtarlyfjum nema gegn lyfjaskírteini. Að undanförnu hefur ráðuneytið í samráði við samtök gigtarlækna og landlækni leitað annarra leiða hvað þessi lyf varðar. Þeirri vinnu er ekki lokið en gera má ráð fyrir að notast verði við eftirfarandi vinnureglur við ávísanir auk þess sem væntanlega verður tekið tillit til varnaðarorða Evr­ópsku lyfjastofnunarinnar sem von er á innan tíðar.

Vinnureglur um ávísanir á cyclo-oxygenasa 2 haml­andi lyfja - (DRÖG)

1. Eftirfarandi tengist mjög aukinni áhættu á fylgikvillum frá meltingarfærum við meðferð með bólgueyðandi gigtarlyfjum.

a) Aldur yfir 65 ára.

b) Fyrri saga um maga- eða skeifugarnarsár, blæð­­ingu frá meltingarvegi eða rof á maga eða skeifu­görn.

c) Notkun lyfja sem auka líkur á fylgivandamálum frá efri meltingarvegi, til dæmis sterar eða blóðþynningarlyf.

d) Aðrir sjúkdómar á alvarlegu stigi, svo sem hjarta- og æðasjúkdómar, nýrna- eða lifrarsjúkdómar, sykursýki og háþrýstingur.

e) Þörf á langvinnri notkun bólgueyðandi gigtarlyfja í hæstu skömmtum sem mælt er með.

2. Almennt er ástæða til að forðast bólgueyðandi lyf hjá fólki sem tekur stera eða blóðþynningarlyf. Ef notkun bólgueyðandi lyfs er nauðsynleg ætti einungis að nota eitt bólgueyðandi lyf á hverjum tíma og í lægsta skammti sem nægir til virkni.

3. Fólk með slitgigt eða liðagigt sem býr við mikla áhættu á alvarlegum aukaverkunum frá meltingarvegi ætti að nota lyf er geta dregið úr slíkum aukaverkunum, svo sem misoprostol, prótón pumpuhamla, H2 viðtakahamla, eða sýklóoxy­genasa 2 hamla.

4. Óvissar vísbendingar eru um aukna tíðni einkenna hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma sem tekur sýklóoxygenasa 2 hemla. Ástæða er til varkárni hjá slíkum einstaklingum.

Byggt er á leiðbeiningum frá National Institute for Clinical Excellence (NICE), 2001 en ítreka verður að hér er um drög að ræða sem tekin verður endanleg afstaða til á næstu vikum.

Samráð - heildarendurskoðun

Eins og kom fram hér framar er framundan vinna við stefnumörkun og heildarendurskoðun lyfjalaga og nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar verður lögð til grundvallar. Markmið endurskoðunarinnar er meðal annars að stuðla að ábyrgari notkun lyfja á faglegum forsendum og um leið að ná fram verð­lækkun á lyfjum og draga úr útgjöldum al­mennings og hins opinbera vegna lyfja.

Á undanförum vikum hafa ýmsir tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni um lyfjamál, þar á meðal hags­munafélög sjúklinga og fagfélög lækna. Margir hafa lýst sig reiðubúna til að eiga samstarf og viðræður við yfirvöld og leita leiða til að sporna við síhækkandi lyfja­reikningi landsmanna. Á komandi mánuðum munu fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðu­neytisins leggja sig fram um að eiga samstarf við þá aðila. Ráðuneytið væntir góðs af þessu samstarfi og vonast til að með skynsamlegri lyfjanotkun og hóflegu lyfjaverði verði áfram unnt að tryggja aðgang að þeirri góðu heilbrigðisþjónustu sem landsmenn búa við.Þetta vefsvæði byggir á Eplica