06. tbl. 90. árg. 2004
Umræða og fréttir
Broshornið 49. Reykingar og augnskoðun
Reykir frúin?
Kona með lungnaþembu á háu stigi var lögð inn á spítala vegna andþyngsla. Þegar konunni fór að skána ákvað deildarlæknirinn að spyrja hana um reykingar.
"Má ég spyrja, reykir þú sígarettur?"
"Já, en aðeins mér til ánægju."
"Hvað reykir þú marga pakka á dag?"
"Ekki marga."
"Hvað áttu við með því?" spurði læknirinn. "Er það kannski pakki á dag?"
"Nei, aðeins fáeinar sígarettur," sagði konan.
"Hálfur pakki á dag?"
"Nei, Guð minn góður,"sagði konan, "ekki svo mikið. Pakkinn endist mér yfirleitt í tvo daga."
Tékknesk augnskoðun
Tékki sem hafði búið á Íslandi í mörg ár fann fyrir því hvað sjónin tók að daprast. Hann ákvað að hitta augnlækni.
Læknirinn hóf skoðun sína og sýndi manninum sjónprófunarspjald þar sem leturstærðin fór minnkandi eftir því sem neðar dró á spjaldinu: CRKBNWXSKZY . . .
"Getur þú lesið þetta?"spurði læknirinn.
"Lesið þetta?" spurði Tékkinn. "Veistu að þetta er skírnarnafn móður minnar!"
Af netinu
Þær tröllasögur hafa gengið á netinu að læknar vari við a.m.k. einni aukaverkun af stinningarlyfinu Viagra. Karlar sem kyngja töflunni ekki nógu fljótt og drekka lítið með henni fá hálsríg.
Hugarró unglæknis
Einn af sérfræðingunum á kvennadeildinni spurði ungan mann sem var nýbúinn með kandídatsárið hvers vegna hann væri svo áhugasamur um kvensjúkdóma og fæðingarhjálp. "Á kandídatsárinu var ég sannfærður um að ég væri með sömu einkenni og sjúklingarnir. Þegar ég var á lyflækningadeildinni var ég viss um að ég væri að fá fyrir hjartað, væri kominn með asma og vefjagigt. Á handlækninga-deildinni fannst mér ég vera kominn með kviðslit, botnlangabólgu og trosnuð liðbönd í hné. Á geðdeildinni taldi ég mér trú um að ég væri kominn með geðhvarfasýki. Hér á kvennadeildinni get ég loksins slappað af."
Heitrof
Læknirinn varð alveg æfur þegar unnustan sleit trúlofun þeirra. "Hann varð svo brjálaður," sagði kærastan fyrrverandi við vinkonu sína, "að hann krafðist þess að ég skilaði hringnum, öllum gjöfunum og að ég greiddi minn hlut í þeim ferðum sem við fórum saman."
"Hvað segirðu?" sagði vinkonan.
"Ekki nóg með það," sagði kærastan, "heldur sendi hann mér reikning fyrir að hafa komið í áttatíu og fjórar vitjanir til mín."
Ófrísk eður ei
Móðir fór með gjafvaxta dóttur sína til læknis út af morgunógleði upp á hvern dag. Læknirinn komst að því að dóttirin væri ófrísk.
"Útilokað," sagði móðirin, "dóttir mín hefur aldrei komið nálægt karlmanni. Er það ekki rétt hjá mér, elskan mín?" spurði móðirin dóttur sína.
"Jú, alveg rétt," sagði dóttirin.
Læknirinn varð hugsi, gekk út að glugganum og horfði til himins.
"Er ekki allt í lagi?" spurði mamman.
"Ég veit svei mér ekki hvað skal segja," sagði læknirinn. "Það er nú einu sinni svo að síðast þegar eitthvað gerðist í þessa veru birtist skær stjarna á austurhimni. Ég var bara að athuga hvort sagan væri kannski að endurtaka sig."
Sár á fæti
Júlía var mikið náttúrubarn og fór flestra sinna ferða berfætt. Dag nokkurn fór hún út í bílskúr og var svo óheppin að stíga á nagla. Júlía fór til læknis og fékk stífkrampasprautu. Tveimur mánuðum seinna var hún að raka úti í garði þegar hún steig á járnbút og skar sig á fæti. Sýking komst í sárið og hún leitaði aftur til læknisins. Hann bjó um sárið og skrifaði síðan út lyfseðil þar sem hann ávísaði sýklalyfi og síðan stóð skrifað stórum stöfum: VERTU Í SKÓM.