06. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Medicinsk Kompendium, 16. útgáfa

Ritstjórar: Niels Ebbe Hansen, Stig Haunsø og Ove B. Schaffalitzky de Muckadell.

Útgefendur: Nyt Nordisk Forlag Arnold Busck.

Liðin eru fjögur ár frá útkomu 15. útgáfu þessa gamalkunna rits. Í upplýsingablaði um ritið segir að veruleg þróun hafi orðið í lyflækningum á þeim tíma og þá hvað helst í sameindalíffræði og skilningi manna á lífeðlismeinafræði sjúkdóma auk þess sem meðferð hafi breyst á ýmsum sviðum. Bókin er sögð draga mjög dám af þessari þróun. Þá er sögð áhersla á bein samskipti læknis og sjúklings og mikilvægi góðrar sjúkdómssögu og vandaðrar skoðunar sjúklinga.

2004-06-u06-fig1Bókin er í tveimur bindum og er 3128 blaðsíður. Hún er ríkulega prýdd myndum og töflum í lit. Verð hennar er uppgefið 3995 danskar krónur.

Ritið er ætlað sem uppsláttarbók fyrir lyflækna og heilsugæslulækna og sem kennslubók fyrir nemendur í heilbrigðisgreinum. Í bókarkynningu er réttilega bent á að nú á tímum æ meiri sérhæfingar sé lyflækn­um vaxandi þörf á að geta náð áttum á öðrum sviðum lyflækninga en þeirra eigin. Þótt áhöld séu um hve ítarlegri umfjöllun um til dæmis hjartasjúkdóma má koma fyrir á tæpum 300 blaðsíðum sýnist mér rit þetta ágætt til uppsláttar og upprifjunar.

Í bókarbyrjun er að finna áhugaverða kafla um ýmis fræði sem snerta lyflækningar á einn eða ann­an hátt. Má nefna faraldsfræði, forvarnir og félagslega læknisfræði. Þá eru kaflar um bólgusvör­un, ónæm­is­fræði, vefjaflokka, ígræðslur, æxli, erfða­fræði og öldrun. Síðan tekur við umfjöllun um nokkr­ar meginmyndbirtingar sjúkdóma. Þar má nefna verki og verkjameðferð, gjörgæslulækningar, húðeinkenni við ýmsa sjúkdóma og fleira. Stuttur kafli er um lyfja­fræði, meðal annars um skömmtun lyfja í nýrna- og lifrarsjúkdómum.

Meginhluti ritsins er hefðbundin yfirferð sjúkdóma eftir undirsérgreinum. Þar eru fyrirferðar­mest­­ir hjartasjúkdómar, meltingarsjúkdómar og inn­­kirtlasjúkdómar. Eftir kerfisbundna umfjöllun um hina einstöku sjúkdóma er í lok hvers kafla fjallað í stuttu en vel merktu máli um vandamiðaða sjúkdómsgreiningu.

Undir bókarlok er að finna ágæta kafla um öldrunarlækningar, næringarfræði, atvinnusjúkdóma og umhverfislækningar en í þeim kafla er meðal annars fjallað um fíkniefni og eitranir.

Þegar 140 höfundar leggja saman er vísast að gæði hinna ýmsu kafla verði nokkuð misjöfn. Verkefni rit­stjóranna er ærið að tryggja gæði og slípa saman. Í fljótu bragði sýnist að í heild hafi vel tekist til. Upp­setning bókarinnar er prýðileg og aðlaðandi. Myndir og töflur eru langflestar vel gerðar og fræðandi. Það vekur athygli hve tilvísanir til heimilda eru fáar með hverjum kafla og vísa flestar til handbóka og yfirlitsrita. Leit í bókinni er auðveld með hjálp góðs efnisyfirlits og ítarlegrar, aðgengilegrar atriðaskrár.

Medicinsk Kompendium er sagt vel samhæft Kir­urgisk Kompendium sem einnig er komið í nýrri útgáfu (sjá ritdóm í Læknablaðið 2004; 90: 429). Um þá samhæfingu skal ekki dæmt hér.

Medicinsk Kompendium er mikið rit og í raun undravert að ráðist skuli reglulega í endurskoðaða útgáfu þess á danska tungu sem óneitanlega takmarkar nokkuð útbreiðslu þess. Þá er líklegt að net­væðingin og greiður aðgangur að gagnagrunnum á borð við UpToDate geri ritum sem þessu enn erfiðara uppdráttar.

Fyrir þá sem eignast vilja vandað og aðgengilegt uppflettirit um lyflæknisfræði sem raunar er á dönsku og í dýrari kantinum er 16. útgáfa Medicinsk Kompendium ágætur kostur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica