Umræða og fréttir
  • 2004-05-u14-fig1

Skref í rétta átt

Læknar í Evrópu starfa saman um margt. Sem dæmi má nefna fagleg málefni einstakra sérgreina og samstarf milli stéttarfélaga lækna. Innan Evrópu er sameiginlega hagsmuni lækna víða að finna, ekki sízt í öllu því sem lýtur að ESB og regluverkinu þaðan. Það skiptir miklu fyrir lækna að stilla saman strengi sína ef rödd þeirra á að heyrast og í háborg skrifræðisins, Brüssel, er það kannski mest áberandi. Sú rödd þarf að hljóma sem hreinast svo samlíking við tónlistina sé í heiðri höfð.

Evrópsk læknafélög tengjast gegnum CPME, sem er regnhlíf yfir öðrum læknasamtökum. Norræn læknafélög eiga með sér sérstakt samstarf, sérfræðingafélög tengjast sem og heimilislæknafélög sem starfa saman í UEMO og WONCA EUROPE, fyrir utan að tengjast svæðisbundið, samanber Norðurlandasamstarf. Kennarar í sérgreinum læknisfræðinnar eiga með sér samstarf, þeir sem vinna að gæðaþróun, endurmenntun/símenntun, jafnréttismálum og svo framvegis.

Mörgum kann að finnast að þátttaka íslenzkra lækna á erlendum vettvangi sé lítt þörf en aðrir líta á hana sem jafnsjálfsagðan hlut og að taka þátt í starfi alþjóðastofnana á öðrum sviðum þjóðlífsins. Samt er nauðsynlegt að fara ofan í kjölinn á því hvernig samstarfi lækna er háttað og reyna að einfalda hlutina sé það hægt. Væru læknar að hefja slíkt samstarfi núna yrði það án efa annað og einfaldara. Sum félög, stofnanir og samtök hafa orðið til vegna aðstæðna, ad hoc, önnur sem mótvægi við önnur félög en flest án efa vegna þess að menn vilja gjarnan læra hver af öðrum og starfa saman að sameiginlegum markmiðum og áhugamálum.

Það hlýtur þó vera ljóst að lítill læknahópur eins og hér á landi hefur ekki burði til að taka þátt í erlendu samstarfi eins og stærri þjóðir geta. Þess vegna hafa komið upp hugmyndir um að grisja verði skóginn og sameina félög sem vinna að svipuðum málum til þess að komast hjá tvíverknaði þó ekki sé annað. Sum lönd geti kannski aðeins tekið þátt í starfi einna samtaka kostnaðarins vegna og krefjast þá þess að öll mál séu tekin þar til meðferðar þótt þau hafi verið rædd og afgreidd annars staðar áður. Læknafélög stærri þjóða eru sama sinnis og hafa tillögur um breytingar meðal annars komið frá írsku sendinefndinni hjá CPME (2004/032) þar sem því er á einfaldan hátt lýst hve mikilvægt sé að breyta flóknu kerfi og lagt til að haldin verði ráðstefna allra þessara aðila á yfirstandandi ári þar sem reynt verði til þrautar að finna lausnir. Írarnir vilja að sérhvert læknafélag álykti um það hvernig tryggja megi þátttöku en einnig að læknastéttin sé málsvari sjúklinga gagnvart Evrópusambandinu. Þá hafi læknar ónóg áhrif á Evrópuvettvangi og það sé alvarlegt vandamál.

Brezka læknafélagið, BMA, hefur lagt fram hugmyndir um það hvernig framtíð evrópskra læknafélaga gæti orðið (CPME 2004/016) og er þá haft í huga að auka megi vægi lækna í umræðu um heilbrigðismál í Evrópu en jafnframt draga úr kostnaði með því að sameinast um starfsfólk og húsnæði í eins konar Domus Medica í Brüssel. Vísir að þessu er að UEMO hefur fengið inni á skrifstofum CPME í Brussel. BMA á aðild að CPME, UEMS, UEMO og PWG og leggur til að hver samtök fyrir sig ræði hvernig að nánara samstarfi og sameiningu megi standa.

Gallar eru án efa nokkrir en kostirnir eru eftirfarandi:

1. Meiri afköst og minni kostnaður, lægri árgjöld.

2. Evrópskir læknar tala einum rómi.

3. Komizt verður hjá tvíverknaði og þar með sparast vinnukraftar sem nýta má til annarra verkefna.

4. Læknasamtök hvers lands geta tekið virkari þátt á vettvangi Evrópusamtakanna og þar með haft meiri áhrif á stefnumörkun.

5. Komið verður í veg fyrir að léleg afköst, tvíverknaður og lítil áhrif á stefnumótun skilji læknastéttina eftir áhrifalausa og raddlausa í Evrópu.

Það er að sjálfsögðu dýrt fyrir íslenzka læknastétt að taka þátt í samstarfi á alheimsvísu í WMA, í Evrópustarfi, Norðurlandasamstarfi og svo einnig á sviði fagfélaga eins og áður sagði. Því væri það sannkallað fagnaðarefni fyrir okkur ef hægt væri að láta sameiningardraumana rætast. Hvert skref í þá átt er skref í rétta átt.


Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica