Umræða og fréttir

Grein um MMR-bólusetningu dregin til baka

Í febrúar gerðist sá óvenjulegi atburður í Bretlandi að Richard Horton ritstjóri hins virta tímarits The Lancet dró til baka að hluta til grein sem birst hafði í blaðinu sex árum fyrr. Í greininni höfðu höfundar leitt að því líkum að ónæmisaðgerð með svonefndu MMR-bóluefni (MMR: measles, mumps and rubella; mislingar, hettusótt og rauðir hundar) gæti valdið heilaskaða í börnum og leitt til einhverfu. Greinin olli töluverðu fjaðrafoki þegar hún birtist árið 1998 og hefur hún gert marga breska foreldra óttaslegna við að láta bólusetja börn sín.

Meginástæða þess að greinin var dregin til baka var sú að aðalhöfundur hennar, Andrew Wakefield, hafði látið undir höfuð leggjast að geta þess að hann hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því að sýna fram á umrædd tengsl MMR-bólusetningar ungbarna og einhverfu. Í kjölfar yfirlýsingar Hortons birtu tíu af 12 höfundum greinarinnar yfirlýsingu þar sem þeir lýstu því yfir að þótt þeir stæðu við rannsóknina sem slíka gætu þeir ekki fallist á túlkun Wakefields á tengslum MMR og einhverfu. Tengsl magabólgu og einhverfu væru hugsanleg og full þörf á að rannsaka þau betur. Hins vegar væri þessi rannsókn á 12 börnum allt of takmörkuð til þess að hægt væri að fullyrða eitthvað um tengsl MMR við magabólgurnar.Læknir og lögmaður smíða kenningu

Hugmyndin að þeirri rannsókn sem greinin var byggð á kviknaði í samræðum Wakefields og lögmannsins Richards Barr en sá síðarnefndi hafði tekið að sér málarekstur gegn þremur lyfjafyrirtækjum fyrir hönd foreldra tíu barna sem greindust einhverf. Foreldrarnir héldu því fram að börnin hefðu sýnt merki um heilaskaða skömmu eftir að þau voru bólusett með MMR og réðu Barr til að höfða mál gegn framleiðendum bóluefnisins.

Þeir Barr og Wakefield bjuggu til kenningu sem var á þá leið að bóluefnið, einkum þó mislingahluti þess, gæti valdið bólgum í mjógirni en við það losnaði eitthvert efni sem bærist í blóðið og þaðan í heilann þar sem það ylli skaða og hamlaði eðlilegum þroska barnanna. Barr tókst að útvega styrki að upphæð rúmar sjö milljónir króna til að rannsaka þessa kenningu frá Legal Aid Board, stjórnarstofnun sem aðstoðar fólk til að ná rétti sínum í dómsmálum. Wakefield tók að sér að skipuleggja rannsóknina sem gerð var á Royal Free sjúkrahúsinu í Lundúnum árið 1997.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í Lancet og vöktu mikla athygli. Rannsökuð voru 12 börn sem verið höfðu fullkomlega eðlileg þangað til þau fengu magabólgur en í kjölfar þeirra fór þeim að fara aftur í andlegum þroska. Átta af þessum börnum höfðu verið bólusótt skömmu áður en magaveikin gerði vart við sig. Wakefield lá ekkert á þeirri skoðun sinni að bóluefnið væri valdur að magaveikinni og hvatti stjórnvöld til þess að hætta að nota MMR-bóluefnið.Spilað á tortryggni almennings

Wakefield láðist hins vegar að geta þess við ritstjóra Lancet og raunar einnig við flesta meðhöfunda sína að hann hefði beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af því að fá fram nákvæmlega þessa niðurstöðu. Hann þagði einnig um það á fundi sem Medical Research Council efndi til skömmu eftir að greinin birtist. Þau tengsl urðu ekki ljós fyrr en nú í febrúar þegar blaðamaðurinn Brian Deer hjá Sunday Times birti ítarlega grein um Wakefield. Þar kom einnig fram að Wakefield hafði ekki einu sinni haft fyrir því að segja kollegum sínum frá því að fimm af þeim 12 börnum sem rannsóknin beindist að voru skjólstæðingar Richards Barr.

Í millitíðinni hafði þessi grein haft mikil áhrif í bresku samfélagi. Hún birtist um svipað leyti og kúafárið geisaði sem harðast en þá voru stjórnvöld staðin að því að reyna að leyna tengslum kúariðu og Creuzfeldt Jacobs sjúkdómsins. Margir foreldrar drógu þá ályktun að þarna væri stjórnvöldum rétt lýst, þau væru að hylma yfir mistök lyfjafyrirtækjanna og troða upp á breskan almenning gölluðu bóluefni. Fjölmargir foreldrar tóku þann kost að láta ekki bólusetja börnin sín. Af þeim sökum hafa verið að koma upp faraldrar barnasjúkdóma sem hægt hefði verið að komast hjá.

Samkvæmt faraldsfræðunum þarf ónæmi gegn sjúkdómum að vera á bilinu 90-95% til þess að koma í veg fyrir að faraldur brjótist út. Í Lundúnum er þetta hlutfall hins vegar komið niður í 79%. Það segir sína sögu um andrúmsloftið sem ríkir í Bretlandi að viðbrögð dagblaða á borð við Daily Mail við skrifum Sunday Times og Lancet nú í febrúar voru þau að berja hausnum við steininn og halda því til streitu að MMR-bóluefnið væri stórhættulegt.

Áðurnefnd stjórnarstofnun, Legal Aid Board, hefur veitt stórum fjárhæðum til að styrkja foreldra til málaferla gegn framleiðendum MMR. Alls hefur slík aðstoð numið 15 milljónum punda, tæpum tveimur milljörðum króna. Þar af hefur lögmannsstofa Richards Barr sem áður var nefndur fengið þriðjunginn og læknar ívið lægri upphæð fyrir rannsóknir og skýrslugerð. Í fyrra var ákveðið að hætta þessum stuðningi.Lítil umræða hér á landi

Það sætir nokkurri furðu að þessi umræða skuli einskorðast að heita má við Bretland vegna þess að bóluefnið sem málið snýst um hefur verið notað víða um heim. Hér á landi hefur það verið notað í fimmtán ár. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir sagði Læknablaðinu að vissulega hefði umræða um MMR skotið upp kollinum, meðal annars í fyrirspurnum alþingismanna til heilbrigðisráðherra, en málið hefði aldrei komist í hámæli hér á landi, trúlega vegna þess að almenningur treystir þeim upplýsingum sem heilbrigðisyfirvöld veita.

Önnur spurning sem vaknar er hvort menn hafi látið sér þessa einu rannsókn nægja. Því svarar Haraldur á þann veg að svo sé alls ekki, það hafi verið gerðar fjölmargar rannsóknir á hugsanlegum tengslum MMR og einhverfu, þar á meðal hér á landi, en Bjarni Þjóðleifsson hefur rannsakað sérstaklega áhrif MMR-bólusetninga á görnina og ekki getað staðfest tilgátu Wakefields. Ein viðamesta rannsóknin var gerð í Danmörku þar sem öll einhverfutilvik eru vel skráð. Hvernig sem menn leituðu fundust engin tengsl við MMR. - Það er frekar að menn hafi talið sig finna að MMR veiti ákveðna vernd gegn einhverfu í þeim faraldsfræðilegu rannsóknum sem gerðar hafa verið, sagði Haraldur.

Haraldur sagði að ótti við bólusetningar væri ekki vandamál hér á landi eins og dæmi væru um um annars staðar. Reyndar kæmi það fyrir að foreldrar neituðu að láta bólusetja börn sín en þau tilvik væru svo fá að þau hefðu engin áhrif. Hér á landi hefur þátttaka í bólusetningum gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum verið nógu mikil til þess að koma í veg fyrir hættu á faraldri.Heimildir

Netútgáfur Sunday Times, Guardian, Lancet og BMJ.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica