Umræða og fréttir
  • 2004-04-u10-fig1

Læknabók Þorleifs Björnssonar I

 

Fundin handrit

Í fyrstu útgáfu Lækna á Íslandi (1945) segir að þegar
á þjóðveldistímann líður, höfum vér að kalla engar heimildir um lækna hér á landi, allt þar til bartskerar koma til sögu. Þó sýna jarteiknasögur, að afskipti kirkju og klerka af þessum málum hafa frá upphafi verið hin sömu hér sem annars staðar í Norðurálfu. Þá má og telja fullvíst, að alþýða manna hefir á þessu tímabili, sem jafnan áður og síðar, átt sér úr sjálfs sín hópi úrlausnarmenn í þessum efnum sem öðrum, auk þess, sem til hafa verið menn, sem hafa haft meiri eða minni kynni af lækningum eftir bókum, bæði lærðir og leikir. Bera fornar lækningabækur íslenzkar þessu glöggt vitni, en hinar elztu þeirra, sem geymzt hafa vorum tímum, eru árfærðar fyrir 1300 og geyma þegar menjar fræða þeirra Hippókratesar og Galenosar. Lækningabækur þessar verða ekki raktar til nafngreindra manna, fyrr en kemur að Jóni Halldórssyni, biskupi í Skálholti (1322-1339). Var hann talinn ágætur læknir og ritaði lækningakver. Jón biskup er venjulega talinn, og þó ef til vill með hæpnum heimildum, einn hinna útlendu biskupa, sem hér sátu að stóli, og hafði stundað nám m. a. í Bologna, en þar stóðu læknavísindi með miklum blóma um þessar mundir ...



Þá er þess að geta að fundist hefir í Dyflinni á Írlandi "læknabók" Þorleifs hirðstjóra Björnssonar (y1486). Ekkert verður þó fullyrt um að Þorleifur sé höfundur bókarinnar né að hann hafi farið með lækningar. Er bókin safnrit fjölda læknisráða, bæði alþýðlegra og fræðilegra. Er auðsætt að höfundurinn hefir gert tilraun til þess að draga saman allan þann lækningafróðleik sem kunnur var um hans daga, enda ritið ýtarlegra en allar slíkar bækur aðrar sem varðveitzt hafa á Norðurlöndum frá þessum tímum. Sum atriði bókarinnar eru bersýnilega mjög forn að stofni (töfrar) og verða rakin allt aftur til þess tíma er fræðileg læknislist var enn ókunn. Aðra kafla má rekja til Henriks Harpestræng (y1244, þá kórbróðir í Hróarskeldu). Hefir hann mjög sett svip sinn á norrænar lækningabækur á þessum tíma og lengi síðan. Skrá samsettra lyfja í bókinni (antidotarium) er talin einstæð í norrænum lækningabókum, en að miklu leyti samhljóða lyfjaskrá Salernóskólans sem mun vera frá því um 1000.



Handritin í Dublin

Læknabók hirðstjórans fannst fyrir tilviljun snemma á tuttugustu öldinni þegar verið var að skrá keltnesk handrit í The Royal Irish Academy. Er það skinnhandrit með íslenzkum texta sem gefið var auðkennið 23 D 43. Ritinu var komið í hendur Carls Marstran-der sem þá starfaði við The School of Irish Learning í Dublin. Leitaði hann til Mariusar Kristensen sem á árunum 1908 til 1920 gaf út ritröðina: Harpestræng. Gamle Danske urtebøger, stenbøger og kogebøger. Kristensen staðfesti að textarnir í MS Royal Irish Academy 23 D 43 tengdust fyrrnefndum Henrik Harpestræng, samtímamanni Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri.

American Scandinavian Foundation lagði fram fé til þess að hægt yrði að ráða ritstjóra sem gæti helgað sig verkefninu. Til þess verks fékk Marstrander árið 1923 Henning Larsen sem starfaði í Iowa. Síðan kostaði Det Norske Videnskabs-Akademi í Osló dvöl Larsens í Dublin við endanlegan samanburð afrits og skinnhandritsins og þar gat hann að auki fyllt í skörðin því að í Trinity College fékk hann aðgang að pappírshandriti, MS Trinity College L-2-27, sem er uppskrift úr fyrrnefndu MS Royal Irish Academy 23 D 43. Þannig eru í útgáfu Larsens tuttugu og tveir kaflar sem ekki eru í skinnhandritinu.

Efnið skiptist í eftirfarandi hluta:

- Töfraþulur og særingar sem ætlað er að lækna hitasótt og stöðva blæðingar.

- Örstuttur kafli um dýpt sjávar.

- Eitt hundrað fjörutíu og sjö kaflar um einföld lyf.

- Greinar um fimmtíu og þrjú samsett lyf og eru nefnd nokkur form: Smyrzl, plástur og lyfjadeig.

- Tvær greinar um steina og lækningamátt þeirra og í viðauka er síðan bætt við tuttugu og tveimur greinum úr MS L-2-27 í Trinity College.

- Lækningabók (eða hlutar margra slíkra) þar sem nefndir eru ýmis einkenni, teikn og kvillar og svo læknisdómar, en flesta þeirra er að finna í kaflanum um einföld lyf.

- Matreiðslubók.



Útgáfa Hennings Larsen

Þessi efniviður var gefinn út í Osló árið 1931 undir heitinu An Old Icelandic Miscellany, MS Royal Irish Academy 24 D 43 with Supplement from MS Trinity College (Dublin) L-2-27.

Í inngangi að ritinu segir Henning Larsen meðal annars að skinnhandritið sé mikilvægasta íslenzka læknisfræðiskjalið sem varðveizt hafi frá miðöldum. Það sé í raun alfræðirit því að sá sem tók það saman, virðist hafa gert sér far um að safna í eitt bindi öllu því sem varðveitt hafi verið í öðrum norrænum læknisfræðihandritum og að auki ýmsu sem ekki er nú annars staðar að finna. Handritið sé frá 15. öld, en ýmislegt bendi til að meirihluti efnisins hafi verið til í mun eldri gerð. Larsen segir enn fremur að handritið hafi mikla þýðingu fyrir sögu læknisfræði á Norðurlöndum, en enn meiri þýðingu hafi það fyrir norræna orðabókargerð þar sem í því sé fjöldi orða sem ekki hafi verið skráð fyrr og varpi þau ljósi á hvernig læknisfræðilegur orðaforði verður til.

Upprunalega handritið (23 D 43) er ritað á kálfsskinn í smáu oktavó-broti (53/4 x 41/2 þumlungur eða 14,6 x 11,2 sentímetrar). Ljóst er að röðin á skinnblöðunum hefir raskazt þegar bókin var bundin, en með samanburði við önnur handrit og sambærileg hefir Henning Larsen tekizt að ráða bót á því.

Henning Larsen fjallar rækilega um rithátt og stafagerð og hugmyndir um það hvaðan einstök orð og kaflahlutar kunni að vera komin og er þeim sem áhuga hafa á þeim efnum bent á formálann að útgáfu hans.

Larsen segir að á einum stað í handritinu sé gefin vísbending um það hvaðan handritið kunni upphaflega að vera komið. Í kaflahluta sem hefjist á orðunum: "[H]ier hefiz vid barnsburd. Tak þu ok legg vid liostan undir klaedi konu. þegar mun leysaz. enn þa er barn ..." Hér hætti íslenzki textinn og næst komi latínutexti (um blóðlát) sem sé illæsilegur og hafi verið orðinn það þegar Trinityafritið var gert og þessu næst segir: "Hier hefir lækna boc þorleifs biorns sonar".

Um þetta segir Larsen:



This title, written in red, is now almost gone. Only in the brightest light can it be distinguished. I feel certain on the whole it has been read correctly though some details are doubtful. læknabok I read first as læknis bok, but I believe the a correct. The ending leifs not absolutely certain. The same is true of of the ending -ar in sonar. At the time of this reading I knew of no Þorleifr Björnsson, prominent in Iceland, and my reading cannot have been influenced by subjective reading.

Larsen segir síðan að textinn sem á eftir fylgi sé þekktur úr inngangi annarra norrænna lækningabóka. Hann segir að hugsanlegt sé að tengja handritið Þorleifi hirðstjóra Björnssyni Þorleifssonar á Reykhólum sem dó á árabilinu 1483 til 1487. Ekkert annað hefir komið fram sem gæti stutt þessa hugmynd en eins og síðar kemur fram eru heimildir um önnur sambærileg handrit mjög af skornum skammti og eru þau þó eignuð þeim á sömu forsendum og Larsen gerir hér. Hitt er aftur á móti ljóst að hirðstjórinn hefir væntanlega ekki átt í erfiðleikum með að kosta ritun bókarinnar og að hann tengdist menntamönnum í Noregi eins og fram kemur í æviágripi hans.



Henrik Harpestræng

Henrik Harpestræng var uppi á dögum Valdimars Danakonungs II (1170-1241) hins sigursæla sem aftur var sonur Valdimars konungs I (1131-1182) hins mikla.

Andstætt því sem er um samtíðarmann hans, Hrafn lækni Sveinbjarnarson á Eyri, er nánast ekkert vitað um líf og starf Harpestrængs. Þannig er ekki vitað hvar eða hvenær hann fæddist og ekkert er vitað um það hvernig auknefni hans er til komið.

Bæði í handritum og grafskriftum er hann nefndur Magister - Meistari og því er nærtækt að ætla að hann hafi hlotið doktorsgráðu erlendis eins og var um marga landa hans á þessum stórveldistímum þegar Eystrasalt var orðið danskt innhaf. Verk hans bera því vitni að hann hefir verið sérlega fróður og lærður maður og margt þykir benda til þess að hann hafi farið úr landi til þess að afla sér menntunar og hafa fræðimenn því reynt að sýna fram á að svo hafi verið.

Aðdáendum Harpestrængs þótti því fengur í því þegar fram kom um 1914 sennileg tilgáta um það að Henrik Harpestræng væri sami maður og Henricus Dacus höfundur Liber de Simplici medicina laxativa og einnig "Maistre Henry de Danemarche" sem stundaði lækningar í Orleans um 100 kílómetra sunnan við París og nefndur er í skjali rituðu þar árið 1181.

Paul Hauberg segir hins vegar í formálanum að Liber Herbarum að sýnt hafi verið fram á að í lok 12. aldar var til svæði sem nefndist Danemarche (Dannemarche) í héraðinu Eure-et-Loire nærri bænum Dreux. Sá staður er um 60 kílómetra vestan við París og dregur það að sjálfsögðu úr trúverðugleikanum.

Að öllum tilgátum slepptum liggur ljóst fyrir að Henrik Harpestræng var til og það er meira að segja vitað að hann bjó í Hróarskeldu síðustu æviárin.

Þannig segir í Annales Ecclesiæ Danicae: "Non. April. obiit Magister Henricus Harpestræng, huius ecclesiae canonicus MCCXLIV, qui multiplices eleemosias huic ecclesiæ contulit, tam in morte quam in vita sua." Önnur heimild greinir frá því að "Anno Domini MCCXLIV IV. Non. April obiit M. Henricus Harpestreng Canonicus Roeschildensis bene meritus."

Harpestræng hefir því andazt í apríl 1244, metinn að verðleikum sem læknir og dómkirkjuprestur og er frá því sagt að hann hafi gefið Hróarskeldudómkirkju góðar gjafir.

Af tveimur handritum frá 15. öld má ráða að Harpestræng gæti hafa verið læknir Eiríks konungs IV (1216-1250) er hlaut viðurnefnið plógpeningur af skatti sem hann lagði á það amboð. Hvort Henrik hafi raunverulega verið líflæknir Eiríks er sama vafa undirorpið og allar hinar tilgáturnar.

Orðstír Harpestrængs lifir vegna þeirra verka sem til hans verða rakin. Þannig segir í upphafi handrits í Árnasafni: "Hær byrias lækedombir aff mæsther henrik harpostræng" (AM 45 4°).

Þekktast rita Harpestrængs er bók um lækningajurtir á dönsku sem í bezt varðveittum eftirritunum geymir 150 kafla, þar af fjallar 121 þeirra um jurtir, erlendar og innlendar.

Meirihluti jurtabókarinnar er þýðing á latnesku ljóði í sexliðahætti: De viribus herbarum eftir Macer Floridus. Er talið trúlegt að ljóðið hafi verið skrifað af Odo Magdunensis (Odo frá Meung-sur-Loire), ábóta í Beuprai sem uppi var í lok 11. aldar. Ljóðið var prentað í fyrsta sinn í Napólí árið 1487. Ekki hefir fengizt skýring á því hvers vegna höfundurinn tók sér þetta heiti en bent hefir verið á að við samtímamann og vin þeirra Óvíds og Virgils, Aemilianus Macer frá Verona, er kennt ljóð um eigindi jurtanna (De herbarum virtutibus Aemilii Macri Veronesis elegantissima poesis cum succincta admodum difficilum et obscurum locorum Georgii Pictorii expositione antea nunquam in lucem edita. Basel 1559) Hitt er deginum ljósara að Macer Floridus hefir fengið textana að láni frá ýmsum eldri höfundum og þá hvað ríflegast frá Díoskórídesi.

Pedanius Dioscourides var upprunninn í Grikklandi og var herlæknir á tímum Nerós. Hann dó 70 árum eftir Krists burð og var því samtímamaður Pliníusar eldri. Hann er talinn hafa orðið fyrstur til að rita skipulega um læknisfræðileg efni og var rit hans talið fremst texta um lyfjafræði í sextán aldir (Pedanii Dioscoridis Anazarbei de materia medica libri VI, Joanne Ruellio interpreto. Nunc primum studio cuisdam viri doctissimi ad græcum exemplar recogniti; ac eadem opera in Iuniorum gratiam vulgatis officinarum nominibus passim aspersis. Lugduni 1543).

Enn einn höfundurinn sem lagði til efni í dönsku jurtabókina var Peter Juliani. Hann fæddist í Lissabon og var kenndur við þann stað og við Compostela á Spáni, en er betur þekktur innan læknisfræðinnar og heimspekinnar sem Petrus Hispanus.

Hispanus ritaði meðal annars bækur um rökfræði, Summulae logicales, um auglæknisfræði, Liber de oculo og sálfræði, De anima. Hann ritaði einnig vinsælustu handbók miðalda um læknisfræði, Thesaurus pauperum, Gersemar hinna fátæku. Hann kenndi í Síena og í París, varð líflæknir Gregors páfa X erkibiskup í Braga í Norður-Portúgal, síðan kardínáli og síðasta æviár sitt bar hann páfaheitið Jóhannes XXI.

Nú er nokkuð á reiki hvenær menn álíta að Hispanus hafi fæðst og bera þar á milli allt að tuttugu og fimm ár (um 1200 til 1226). Væri síðara ártalið rétt hefði Hispanus aðeins verið átján ára þegar Harpestræng lézt og þá útilokað að Harpestræng hafi sjálfur tekið upp heilu kaflana úr Thesaurus pauperum. Þá væri nærtækt að ætla að við síðari afritanir hafi köflunum úr Gersemum alþýðunnar verið bætt við, enda sjást mjög snemma áhrif frá Hispanusi í dönskum og sænskum handritum. Kemur þetta einnig heim og saman við þær hugmyndir manna að Harpestræng hafi ekki sjálfur skrifað alla jurtabókina. Kemur það til dæmis fram í umsögn frá 15. öld að `Hæræ byrghes lægæ bogh aa danskæ then ther mæster henrik harpestrængh aff syth møklæ mæsterskap diktæthæ' (Lægebogen í Thottske Samling 710. 4° og Lægebogen i Ny Kgl. Samling 314 b. 4°)

Þá er eftir að nefna til sögunnar Constantinus Africanus sem uppi var um 1018 til 1087. Frá honum er komin hin aðaluppspretta dönsku jurtabókarinnar, De gradibus liber. Hefir Marius Kristensen sýnt fram á það að nálega allt sem ekki verður rakið til Macers Flórídusar er frá Konstantínusi Afríkanusi komið. En áður en hægt verður að víkja að ritum þessa merka þýðanda þarf að hverfa til Suður-Ítalíu og 11. aldar og kanna hvað þar var að gerast efni okkar viðkomandi.



Hrun Rómarveldis

Eftir fall Rómar árið 475 tók við valdaskeið Austgota. Því lauk 553 eftir átján ára átök við Aust-rómverska keisaradæmið. Gotneska stríðið fullkomnaði eyðileggingu Ítalíu. Eitt sinn bjó um milljón manna í Rómaborg, en um miðja 6. öld áttu þar búsetu innan við fimmtíu þúsund. Mílanó hafði verið eyðilögð og íbúarnir drepnir. Hundruð bæja og þorpa urðu gjaldþrota vegna skattpíningar, rána og gripdeilda. Heilu héruðin fóru í órækt og vatnsveiturnar voru vanræktar. Afleiðingin varð fátækt og örbirgð.

Bókasöfn höfðu orðið fyrir barðinu á innrásarherjunum. Þannig brenndu Húnar söfn í Bæjaralandi, Víkingar í Norður-Frakklandi og Márar á Ítalíu, svo dæmi séu nefnd.

Textar voru ritaðir á papírus, pappír og skinn. Eftir að kalífarnir lögðu Egyptaland undir sig tók fyrir almenna notkun papírus á Vesturlöndum. Pappír varð að kaupa dýrum dómum frá arabalöndunum því það var ekki fyrr en rétt fyrir lok 12. aldar að verksmiðjuframleiðsla hófst í Frakklandi og Þýzkalandi. Með minnkandi landbúnaðarframleiðslu urðu skinn illfáanleg og þar af leiðandi rándýr. Þannig lagðist allt á eina sveif og fáfræði og ólæsi héldu innreið sína og upp runnu hinar fimm myrku aldir, sem svo eru nefndar. Þær stóðu frá því um miðja 6. öld til miðrar 11. aldar.



Normannar og Suður-Ítalía

Þó Víkingarnir kynnu ekki að meta latínutextana við komuna til Norður-Frakklands áttu afkomendur þeirra eftir að bæta um betur og það ævintýri hófst fyrir hreina tilviljun:

Árið 1016 sátu Márar sem réðu fyrir Sikiley um borgina Salernó á Suður-Ítalíu. Þá bar þar að Normanna sem voru á heimleið úr pílagrímsför til Landsins helga. Þó þeir væru um aðeins um fjörutíu talsins gripu þeir þetta ágæta tækifæri til þess að berja á höfuðóvinum kristinna manna og gengu svo vasklega fram að umsátursliðið hvarf á braut.

Frásagnir þeirra við heimkomuna af þeim atvinnutækifærum sem í boði væru þar syðra féllu í góðan jarðveg því að sá var siður í sveitum í Normandí að feður skiptu landi sínu jafnt á milli sona sinna og þegar hér var komið var nánast ekkert orðið til skiptanna.

Ungir menn gengu í þjónustu höfðingja á Suður-Ítalíu og börðust með og móti Beneventó, Salernó, Napólí og Kapúa. Þar kom að þeir framtakssamari fóru að berjast fyrir eigin reikning. Meðal þeirra var Robert Guiscard, en hann var einn tíu bræðra sem allir lágu í hernaði þar syðra. Með því að taka lendur frá Langbörðum og Aust-rómverska keisaradæminu hafði honum um 1053 tekizt að stofna eigið konungsríki og um 1070 var suðurhluti Ítalíuskaga á valdi Normanna. Handan Messínasunds var höfuðvígi Máranna á Ítalíu og þegar 1060 hafði Robert Guiscard sent Roger bróður sinn til þess að hernema Sikiley.



Páfastóll og Sikileyjarnar tvær

Til norðurs lá ríki páfa og nú þarf að nefna til sögunnar einhvern merkilegasta persónuleika sem setið hefir á hásæti Heilags Péturs.

Hildebrand frá Savanó í Toskanahéraði var fæddur um 1025 og var af lágum ættum, en hlaut góða menntun í Rómaborg. Þegar Gregorius páfi 6. var hrakinn frá árið 1046 fylgdi Hildibrandur honum í útlegð til Þýzkalands, en sneri aftur til Rómar eftir dauða páfa tveimur árum síðar. Hildibrandur hafði snemma skipað sér í flokk þeirra sem vildu gera endurbætur á skipun kirkjunnar og starfi hennar og næstu tuttugu og fimm árin þjónaði hann þremur páfum og áhrif hans jukust stöðugt. Hann átti þátt í að móta utanríkisstefnu páfaríkisins, þar á meðal samdi hann árið 1059 við Normannana um þegnlega hollustu þeirra. Í rauninni var þetta viðurkenning á landvinningum þeirra og á frekari fyrirætlunum því Robert Guiscard ætlaði sér ekkert minna en að steypa Aust-rómverska keisaradæminu.

Hildibrandur var kjörinn páfi árið 1073 og tók sér heitið Gregorius og varð hinn sjöundi til að bera það nafn. Hann hóf þegar umbótastarf sitt og þessari sögu viðkomandi þarf að nefna eitt atriði öðrum fremur. Páfi einsetti sér að losa páfadóm undan afskiptum rómverskra aðalsmanna og þýzkra konunga og kjörfursta. Fyrstu leikirnir í þeirri fléttu voru að færa kjör páfa til kardínálanna og að banna að þjóðhöfðingjar útnefndu biskupa. Framvegis skyldu söfnuðirnir og prestarnir hafa það verkefni og síðan legðu páfi eða umboðsmaður hans blessun sína yfir.

Hinrik IV (1050-1106) konungur og verðandi keisari hins þýzk-rómverska ríkis lét sér þetta ekki lynda og boðaði til kirkjuþings í Worms árið 1076 í því skyni að koma páfa frá völdum. Hann hafði ekki erindi sem erfiði og í janúar 1077 mátti hann bíða við harðræði í þrjá daga í Canossa eftir að fá aflausn páfa. Málið varð þó ekki leyst og árið 1084 hélt Hinrik með her sinn til Rómar, gaf kirkjuþingi skipun um að setja Gregorius af og kjósa nýjan páfa (Clement III). Viku seinna krýndi hann Hinrik IV keisara Hins heilaga þýzk-rómverska keisaradæmis. Róbert Guiscard var víðs fjarri við hernað í austri, en árið eftir kom hann með her sinn aftur heim til Ítalíu, frelsaði Gregorius VII og tók hann undir sinn verndarvæng í Salernó. Skömmu síðar létust þeir báðir.

Við völdum tók nú Roger, bróðir konungs, sem þá hafði að fullu tryggt yfirráðin á Sikiley og varð hann nú konungur "beggja Sikileyjanna", auk þess sem hann hafði árið 1090 gert Möltu að skattlandi sínu. Verður nánar sagt frá framhaldinu að mánuði liðnum og þá verður getið helztu heimilda.



Seinni hluti þessarar greinar birtist í næsta blaði.


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica