Umræða og fréttir

Yfirlýsing frá Hagstofu Íslands

Vegna greinar Ólafs Ólafssonar hér á síðunni leitaði Læknablaðið skýringa hjá Hagstofu Íslands á því hvernig hún skráir heilbrigðisútgjöld og hvort eitthvað skortir upp á að skráning þeirra sé sambærileg við það sem gert er í öðrum löndum. Fer svar Hagstofunnar hér á eftir en í næstu opnu er sagt frá Haustskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem Ólafur vitnar til:



Séu útgjöld hins opinbera flokkuð eftir málaflokkum eru heilbrigðisútgjöld til dæmis einn málaflokkur og útgjöld til félagsmála annar. Sú málaflokkasundurliðun sem notuð er við uppgjör á útgjöldum hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) kallast COFOG (Classification of the Functions of Government). COFOG er alþjóðlegur staðall og hluti af þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu þjóðanna, SNA (System of National Accounts).

Lengst af voru útgjöld til heilbrigðismála í löndum OECD gerð upp samkvæmt COFOG. Nokkur lönd byggja enn á þeim grunni við mat á heilbrigðisútgjöldum og þar á meðal Ísland. Árið 2002 voru 11 ríki OECD sem notuðu þjóðhagsreikningastaðla (NA), 7 lönd studdust við sínar eigin aðferðir, fyrir eitt land voru útgjöld þessi áætluð af OECD og 11 lönd færðu heilbrigðisútgjöld í samræmi við SHA (System of Health Accounts). SHA er nýlegur alþjóðlegur staðall fyrir útgjöld til heilbrigðismála sem hefur verið þróaður af hálfu OECD í samvinnu við Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Staðallinn felur í sér ítarlegri sundurliðun útgjalda en áður og er ætlað að gefa betri upplýsingar um starfsemi heilbrigðiskerfisins í hverju landi og auðvelda samanburð milli landa.

Löndum sem gera upp eftir SHA fer fjölgandi og í lok ársins 2003 voru löndin orðin 21 sem voru komin vel á veg eða að hefja notkun, þrjú lönd voru að undirbúa notkun SHA, þrjú lönd að íhuga málið og önnur þrjú lönd höfðu ekki tekið ákvörðun um notkun á SHA. Ísland var í árslok 2003 talið með þeim löndum sem eru að íhuga notkun SHA, en í ársbyrjun 2004 var tekin sú ákvörðun á Hagstofu Íslands að SHA flokkunarkerfið verði í framtíðinni notað við uppgjör útgjalda til heilbrigðismála.

Útgjöld varðandi aldraða sem talin hafa verið á Hagstofu Íslands sem útgjöld til öldrunar- og endurhæfingarstofnana í heilbrigðisútgjöldum eru einungis útgjöld þau sem teljast samkvæmt COFOG vera útgjöld til hjúkrunar aldraðra.

Frá Hagstofu Íslands 23. febrúar 2004.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica